Fimmtudaginn 14. nóvember kl. 9:00 til 10:45 mun Vörustjórnunarhópur (innkaup og birgðastýring) Stjórnvísi standa fyrir Hugmyndatorgi (e. Marketplace) í stofu M215 í Háskólanum í Reykjavík. Það munu fjórir aðilar segja frá hugmyndum, vandamálum eða einhverju sem þeir vilja leysa á betri hátt. Kynningin mun fela í sér fjóra eftirfarandi þætti og er hugmyndin að þarna sé vettvangur til að skapa umræður og fá endurgjöf frá öðrum meðlimum Stjórnvísi.
- Kynningu á vandamáli.
- Hvað hefur verið gert.
- Hver var útkoman.
- Hugmyndir að öðrum lausnum.
Fyrirkomulagið:
- Þegar fólk mætir verða borðin merkt með viðfangsefni. Fólk velur sér borð en það verða einungis 6-8 pláss á hverju borði og ef borðið er fullt þarf að velja sér annað borð / viðfangsefni þ.e. fyrstir koma fyrstir fá reglan.
- Markmiðið er að meðlimir hópsins geti mætt, tekið þátt í umræðum, deilt hugmyndum og reynslu og lært af öðrum. Stjórnarmenn vörustjórnunarhópsins verða borðstjórar og stýra umræðum og vinnunni í hópunum.
Dagskrá:
Kl. 09:00 - Tómas Sigurbjörnsson vinnustofustjóri mun bjóða fólk velkomið og kynna reglurnar. Fyrirlesarar fá um 5 mín hver til að kynna sitt viðfangsefni.
Kl. 09:30 - Vinna í hópum. Rýna vandamál og koma með hugmyndir. Áætlaður tími 30 mín.
Kl. 10:00 - Kynning frá þeim sem kom með vandamálið á topp 2-3 lausnum eða einu atriði sem viðkomandi lærði af þessari vinnu og gæti gagnast. Hver kynning ætti ekki að vera meira en 5 mín.
Kl. 10:30 - Farið yfir helstu niðurstöður og rætt um fyrirkomulag vinnustofunnar.
Viðfangsefni og fyrirlesarar:
Viðfangsefni 1: Hverjar eru helstu áskoranir í uppsetningu vöruhúsa?
Björgvin Hansson vöruhúsastjóra Innnes sem vinnur núna að því að opna fyrsta hátæknivöruhúsið á Íslandi. Starfaði áður hjá Ölgerðinni sem vöruhúsastjóri og stýrði flutningum hjá þeim í eitt hús. Einnig hefur hann starfað sem ráðgjafi í ferlum og uppsetningum vöruhúsakerfa hjá Nobex í 5 ár.
Viðfangsefni 2: Hvernig mun aukin umhverfisvitund hafa áhrif á innkaup framtíðarinnar?
Jónína Björk Vilhjálmsdóttir sviðsstjóri Markaðsþróunar hjá EFLU verkfræðistofu og stjórnarmaður í Framtíðarfræðihóp Stjórnvísi. Hún hefur starfað hjá EFLU frá árinu 2012 en áður starfaði hún sem vörustjóri hjá Landsbankanum og hjá Kreditkorti. Jónína er með MSc í Markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum.
Viðfangsefni 3: Hversu oft á að leita tilboða, skanna markað og leita tilboða fyrir regluleg innkaup?
Guðmundur Björnsson framkvæmdastjóri Gasfélagsins ehf. Starfaði áður hjá Rio Tinto Alcan, bæði á Íslandi og Frakklandi. Hann er með Græna Beltið í Lean Six Sigma og unnið samkvæmt þeirri aðferðafræði í mörg ár. Í dag sér hann um stærstan hluta innkaupa fyrir Gasfélagið á bæði hrávörum og rekstrarvörum.
Viðfangsefni 4: Hvaða ABC greining hentar best fyrir regluleg innkaup?
Daði Rúnar Jónsson ráðgjafi hjá AGR Dynamics. Starfaði áður við innkaup og stjórnun aðfangakeðjunnar hjá BoConcept í Danmörku. Hann er með MSc í Logistics og SCM frá Aarhus University og hefur haldið námskeið í vörustjórnun og stjórnun aðfangakeðjunnar í Opna háskólanum (HR) síðust ár.
Vinnustofan er í samstarfi við Lean- og Framtíðarfræðihóp Stjórnvísi.
Hámarks fjöldi þátttakanda á Hugmyndatorginu er 30 manns.