Vísindaferð í Nóa-Siríus og örstuttur aðalfundur Lean faghópsins
Þá er komið að síðasta viðburði Lean faghópsins í vetur sem er vísindaferð í Nóa-Siríus. Fyrirtækið hefur nýtt sér hugmynda og aðferðafræði Lean síðustu misserin og hefur náð með þeim verulega góðum árangri. Athyglisvert er að sjá hvernig stjórnendum hefur tekist að innleiða umbótavinnuna í öllu fyrirtækinu, jafnt á sölu og markaðssviðinu, fjármálasviðinu og framleiðslusviðinu og breyta þannig menningu fyrirtækisins. Helstu breytingar verða raktar, farið verður yfir hvað gekk vel, hvað hefði mátt fara betur og síðast en ekki síst sagt frá þeim eftirsóknaverða árangri sem náðst hefur með þessum aðferðum.
Það er Rúnar Ingibjartsson gæðastjóri sem tekur á móti hópnum, kaffiveitingar verða í boði og hver veit nema einnig verði boðið upp á súkkulaði með kaffinu. Allir sem hafa áhuga á því hvernig rótgrónu fyrirtæki hefur tekist að nýta sér umbótavinnuna jafnt í skrifstofuhlutanum og í framleiðslunni eru hvattir til að mæta.
Í upphafi vísindaferðar verður haldinn örstuttur aðalfundur Lean faghópsins (hámark 10 mín) með eftirfarandi dagskrá: 1) Skýrsla formanns, 2) Kynning á stjórn faghópsins 3) Önnur mál.
Eitt laust sæti er í stjórn faghópsins og eru áhugasamir beðnir um að láta Þórunni (sem fer fyrir Lean faghópnum) vita í síðasta lagi 22. maí á netfangið thorunn@intra.is eða í síma 774-4664. Til að fundurinn gangi sem best fyrir sig verður ekki tekið við framboðum á fundinum sjálfum.