Reynslusögur af innleiðingum breytinga, af sigrum og áskorunum. Hugmyndafræði breytingastjórnunar og kröfur ISO 9001 staðalsins
Faghópar Stjórnvísi - Gæðastjórnun og ISO staðlar og Breytingastjórnun, kynna spennandi viðburð „Reynslusögur af innleiðingum breytinga, af sigrum og áskorunum. Hugmyndafræði breytingastjórnunar og kröfur ISO 9001 staðalsins“ .
Á þessum fjarfundi kemur fyrst fram Helga Franklínsdóttir, frá EFLU, sem segir nokkrar áhugaverðar reynslusögur af innleiðingum breytinga, af sigrum og áskorunum. Helga mun einnig fjalla um breytingar þar sem mismunandi fyrirtækjamenning og áhrif hennar á innleiðingu breytinga kemur við sögu.
Síðan mun Ágúst Kristján Steinarrsson, frá Vita ráðgjöf, tengja sögu Helgu við hugmyndafræði breytingastjórnunar og jafnframt kröfur ISO staðalsins um breytingastjórnun. Þannig er erindið ekki eingöngu að horfa kerfislægt á breytingar í gæðaumhverfi, heldur einni mannlegar - sem skipta gjarnan höfuðmáli.
Fyrirlesarar:
Helga Franklínsdóttir
Helga lauk M.Sc. prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og B.Sc. prófi í líffræði frá Auburn University Montgomery árið 2012. Hún hefur langa starfsreynslu úr framleiðsluiðnaði og innleiðingu breytinga, bæði á Íslandi og erlendis. Áður en hún starfaði hjá Marel starfaði hún í um 4 ár hjá Icelandic Group í gæðamálum, bæði á Íslandi og erlendis. Starfaði hjá Marel í um 7 ár í alþjóðlegu hlutverki varðandi innleiðingar og umbætur en starfar nú hjá EFLU Verkfræðistofu, þar sem hún er fyrirliði yfir teyminu gæði og umbætur. Í því hlutverki vinnur hún með innleiðingar og breytingarstjórnun.
Helga hefur mikla reynslu í verkefnastjórnun, breytingarstjórnun, innleiðingu nýrra kerfa og að búa til ferla. Sú dýrmæta reynsla nýtist henni vel í hennar núverandi starfi hjá EFLU. Helga er einnig hluti að faghópnum breytingarstjórnun hjá Stjórnvísi.
Ágúst Kristján Steinarrsson
Ágúst hefur fjölþætta reynslu af stjórnendaráðgjöf, greiningum, verkefnastjórn og fræðslu. Áður en hann hóf að starfa sjálfstætt sem ráðgjafi hafði hann öðlast dýrmæta reynslu sem stjórnandi, verkefnastjóri og ráðgjafi.
Á 20 árum hefur Ágúst fengist við hvert umbótaverkefnið á fætur öðru, stórt sem smátt og þannig hefur skapast djúp þekking og skilningur á lyklum til árangurs. Með tímanum varð til hugmyndafræði sem er í dag leiðarljós í öllum hans störfum auk þess sem hann kennir hana í Opna háskólanum og víðar.
Í dag er Ágúst stjórnunarráðgjafi í breytingum þar sem hann vinnur með stjórnendum og starfsmönnum að raunverulegum umbótum og lausnum sem lyfta upp vinnustöðum. Hann leggur ríka áherslu á mannlegu hliðina í allri sinni nálgun, samhliða því að beita skapandi, praktískum og skipulögðum vinnubrögðum.