Ánægjuvogin 2002
Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2002
Ölgerðin Egill Skallagrímsson í fyrsta sæti annað árið í röð
Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar fyrir árið 2002 voru kynntar 11. mars en það er í fjórða sinn sem ánægja íslenskra viðskiptavina fjölda fyrirtækja er mæld með þessum hætti.
Ölgerðin Egill Skallagrímsson kom annað árið í röð best út úr mælingunni með 77,3 stig en Ali (Síld og fiskur) og Sparisjóðirnir urðu hnífjöfn í öðru og þriðja sæti með 75,4 stig. Þessi þrjú fyrirtæki voru einnig í þremur efstu sætunum á síðasta ári.
Í þetta sinn veitti Íslenska ánægjuvogin sérstakar viðurkenningar þeim fyrirtækjum sem komu best út úr mælingum í fjórum ólíkum atvinnugreinum.
Í flokki framleiðslufyrirtækja var Ölgerðin Egill Skallagrímsson í fyrsta sæti og uppskar, eins og áður sagði, mestu ánægju allra fyrirtækja.
Í flokki fjármálafyrirtækja, þ.e. banka og tryggingafyrirtækja urðu Sparisjóðirnir efstir.
Í flokki veitufyrirtækja, þ.e. raforkuveitna og símafyrirtækja varð Hitaveita Suðurnesja í efsta sæti með 73,1.
Í flokki smásölufyrirtækja þ.e. olíufélaga og stórmarkaða lenti Olís í fyrsta sæti með 71,1 stig.
Íslenska ánægjuvogin er félag, sem Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup, standa sameiginlega að um þátttöku í Evrópsku ánægjuvoginni. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á hana s.s. ímynd, mat á gæðum og tryggð viðskiptavina. Mæling sem þessi er talin mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur fyrirtækið gert sér vonir um.
Niðurstöður fyrir aðrar Evrópuþjóðir verða birtar á apríl eða maí en verið er að vinna samantekt og samanburð á mælingum í 8-10 Evrópulöndum ásamt Bandaríkjunum.