Handhafar 2022

 Stjórnunarverðlaun 2022

 Verðlaunahafar, forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Borghildur Erlingsdóttir formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar.

Stjórnunarverðlaunin 2022

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru veitt 15. febrúar í 13 sinn við hátíðlega athöfn á Grand hótel að viðstöddum forseta Íslands. Veitt voru verðlaun í þremur flokkum.

Handhafar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2022 eru: 

Í flokki yfirstjórnenda Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar tryggingafélags. Í flokki millistjórnenda Jóhann B. Skúlason yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, Gunnur Líf Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa og Sigurjón Ólafsson sviðsstjóri þjónustu-og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar.  Í flokki framkvöðla  Stefanía Bjarney Ólafsdóttir stofnandi  og framkvæmdastjóri AVO.      

Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar kynnti niðurstöður dómnefndar. Að þessu sinni voru afhentar þrjár viðurkenningar í flokki millistjórnenda þar sem 60% tilnefninga var í þeim flokki. Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin og flutti ávarp.

Dómnefnd 2022 skipuðu eftirtaldir:

  • Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar.
  • Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Viss ehf.
  • Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
  • Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
  • Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Festi og fyrrverandi forstjóri Icepharma hf.
  • Salóme Guðmundsdóttir, stjórnarmaður hjá Eyri Ventures.
  • Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. 

Ritari dómnefndar var Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi 

Yfirstjórnandi ársins 2022
Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar tryggingafélags

Stjórnandinn hefur starfað innan síns sérsviðs í um 35 ár en síðastliðin 16 ár hefur hann starfað sem forstjóri fyrirtækis á því sviði. Stjórnandinn hefur leitt uppbyggingu fyrirtækisins í erfiðu samkeppnisumhverfi, margfaldað stærð félagsins og gert það að einu öflugasta og best rekna fyrirtæki landsins. Fyrirtækið hefur hlotið margskonar viðurkenningar í gegnum tíðina þannig að eftir því hefur verið tekið. Má þar helst nefna Ánægjuvogina, Fyrirmyndarfyrirtæki Credit info, Jafnréttisvog, Hvatningarverðlaun fyrir frammúrskarandi samfélagsábyrgð, Fyrirtæki ársins þrjú ár í röð hjá VR og síðast en ekki síst Hvatningarverðlaun jafnréttismála nú haustið 2021. Öll þessi verðlaun segja sína sögu, byggja á gríðarlega öflugri fyrirtækjamenningu sem byggir á mörgum samverkandi þáttum sem sterkur leiðtogi hefur leitt áfram í samvinnu við sitt samferðafólk.

Stjórnandinn er viðskiptafræðingur að mennt með BS gráðu frá Seattle University, með MBA frá Edinborgarháskóla og lauk nýverið AMP stjórnendanámi hjá IESE Business School í Barcelona.  Stjórnandinn er ákafur keppnismaður sem leggur áherslu á öfluga liðsheild, hefur sterka sýn og er mjög fylginn sér. Hann er opinn í samskiptum og ávallt hreinskiptinn, gengur beint til verks og vinnur í málum. Hann er stemningsmaður, stuðlar að skemmtilegri og uppbyggilegri fyrirtækjamenningu, er góður samstarfsfélagi, óþreytandi við að gefa samstarfsfólki tíma og góð ráð sem gera góðar hugmyndir enn betri.

Stjórnandinn hefur afslappaðan leiðtogastíl sem byggir á sanngirni, virðingu og trausti til samstarfsfólks, um leið og hann gerir ríkar kröfur um árangur. Það kemur skýrt fram í leiðtogastíl hans hversu jafnréttissinnaður hann er, en jafnréttis- og mannréttindamálum hefur ætíð verið gert hátt undir höfði innan félagsins með frábærum árangri. Sem dæmi valdi stjórnandinn ungar konur inn í framkvæmdarstjórn og gaf þeim svigrúm og traust til starfa sem skilaði góðum árangri og jákvæðum skilaboðum út í annars karllægt samfélag fjármálafyrirtækja. Félagið var fyrsta fjármálafyrirtækið til að innaleiða jafnlaunavottun og hljóta jafnlaunamerki Velferðarráðuneytisins og var stjórnandinn ötull hvatamaður þess. Fyrirtækið hefur hlotið frábærar niðurstöður á margvíslegum jafnréttisvísum og er eina fjármálafyrirtækið sem mælist nú með einkunnina 10 í Gemma Q kvarðanum sem gefur rauntíma upplýsingar um kynjahlutföll í stjórnum og framkvæmdarstjórnum fyrirtækja.

Stjórnandinn er fyrirmyndar leiðtogi og samstarfsfélagi sem gefur samstarfsfólki sínu traust, óskorað vald og ábyrgð sem leiðir af sér frábæran árangur heildarinnar.

Það er með ánægju sem það tilkynnist að Stjórnendaverðlaun Stjórnvísi árið 2022 sem yfirstjórnandi ársins hlýtur Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar tryggingafélags.

 

Millistjórnandi ársins 2022
Jóhann B. Skúlason aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og almannavarna.

Sá stjórnandi sem hlýtur viðurkenningu Stjórnvísi sem millistjórnandi ársins 2022 tók við starfinu sumarið 2020. Þá hafði starfið verið til í 5 mánuði og viðkomandi verið undirmaður fram að því. Stjórnandinn er menntaður í sinni starfsgrein og hefur unnið í sínum geira í 18 ár. Fjölbreytt hlutverk eru innan starfsgreinarinnar og stjórnandinn því með fjölbreytta og yfirgripsmikla reynslu. Viðkomandi hefur tekist á við krefjandi verkefni á ýmsum stöðum þar sem hefur reynt á útsjónarsemi, mannlega nálgun og skilning á aðstæðum ólíkra einstaklinga og starfsmanna.

Utankomandi aðstæður hafa áhrif á starfið og starfsemi teymis sem viðkomandi stjórnar. Teymið  er samsett af fagfólki úr ólíkum áttum sem að auki tilheyrir einnig mismunandi stofnunum. Teymið hefur farið úr örfáum starfsmönnum í yfir 100 manns á fáum vikum og aftur til baka og vinna þeirra tekið stakkaskiptum á tímabilinu vegna utanaðkomandi aðstæðna. Stjórnandinn starfar með, og á samskipti við, fjölmarga mismunandi aðila í samfélaginu og kemur upplýsingum áfram hratt og örugglega innan teymisins.

Stjórnandinn hefur allan tímann unnið að tæknilausnum til að auðvelda vinnu starfsfólksins og til að þau sem þjónustuna fær fái einföld, skýr og uppfærð skilaboð hverju sinni. Þá leiddi hann teymið af áhuga, trausti á fagleg vinnubrögð fólksins með jákvæðni, gleði og kraft í fyrirrúmi. Þetta hefur hann gert hvort sem er þegar nákvæmnisvinnu er krafist sem og við tæknilegar útfærslur þegar verkefnin hafa vaxið og orðið umfangsmeiri.

Stöðugar breytingar í vinnuumhverfinu vegna utanaðkomandi aðstæðna kalla á sveigjanleika í vinnubrögðum, breytingum á tæknilausnum og markmiðasetningu. Hvernig sem kröfurnar eru hverju sinni hefur viðkomandi haldið utan um fjölbreyttan hóp starfsmanna og leitt þau af jákvæðni að markmiðinu hverju sinni. Hann treystir starfsfólki til að leysa verkefnin í sameiningu, sem hvert og eitt kemur með sína fagþekkingu að borðinu.

Stjórnandinn er ósérhlífinn, heldur vel utan um starfsfólkið og fær það með sér í ótal breytingar, sumar hverjar daglegar og heldur uppi áhuga og krafti til að takast á við verkefnin. Hann er jákvæður, hugmyndaríkur og umfram allt frumkvöðull í sínu starfi.

Stjórnandinn er Jóhann B. Skúlason aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og almannavarna.

 

Millistjórnandi ársins 2022
Gunnur Líf Gunnarsdóttir framkvæmdarstjóri mannauðssvið Samkaupa

Sá stjórnandi sem hlýtur viðurkenningu Stjórnvísi sem millistjórnandi ársins 2022 hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2018. Í starfi sínu sem framkvæmdarstjóri mannauðssviðs hefur stjórnandanum á örfáum árum tekist að umbreyta menningu rótgróins fyrirtækis sem um munar. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 1400 starfsmenn á yfir 60 vinnustöðum vítt og breytt um landið og verkefni stjórnandans hafa því allt frá upphafi verið mikil áskorun. En með því að setja upp skýra stefnu í mannauðsmálum, vera sýnilegur, beita virkri hlustun og sýna leiðtogahæfileika í verki er vinnustaðurinn nú orðinn eftirsóttur auk þess sem starfsfólk finnur fyrir mikilvægi sínu í góðu og fjölmennu sigurliði.

Verkefni stjórnandans hafa verið mörg og fjölbreytt undanfarin ár en upp úr stendur metnaður fyrir vellíðan starfsfólks, jafnrétti í víðum skilningi og starfsþróun starfsmanna. Til marks um metnað fyrir líðan fólks hefur stjórnandinn ferðast um landið og heimsótt alla vinnustaði reglulega, gefið sér tíma og rætt við sitt fólk til að byggja upp sterka liðsheild. Auk þess hefur hann komið á fót velferðarþjónustu innan fyrirtækisins sem hefur vakið eftirtekt og orðið að fyrirmynd annarra fyrirtækja í atvinnulífinu. Í jafnréttismálum hefur svo sannarlega verið spiluð sókn. Innleiðing jafnlaunavottunar, markvissar jafnréttisáætlunar og samninga um samstarf við Samtökin 78, Þroskahjálp og Mirru – fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk eru góð dæmi um árangur í jafnréttismálum. Stjórnandinn hefur einnig lagt mikla vinnu í fræðslumál og starfsþróun starfsmanna. Í dag býðst starfsfólki að nýta sér rafræna fræðslugátt fyrirtækisins, taka þátt í raunfærnimati og verslunarfagnáminu sem stjórnandinn átti einmitt stóran þátt í að komið var á fót. Stuðningur til enn frekara náms til að ljúka stúdentsprófi, hefja nám á háskólastigi er auk þess í boði fyrir starfsfólk sem og sérhannað stjórnendanám sem stjórnandinn hannaði í samvinnu við Háskólann á Bifröst. Á undanförnum misserum hefur fyrirtækið verið að uppskera fjölbreyttar viðurkenningar s.s. Menntaverðlaun atvinnulífsins og Hvatningarverðlaun jafnréttismála og á stjórnandinn stóran þátt í þeim árangri.

En umfram allt eru helstu kostir stjórnandans hans persónulegu eiginleikar, með einlægni sýnir hann í orði og verki að hann ber hag starfsfólksins fyrst og fremst fyrir brjósti, er flínkur að hlusta, veitir frelsi til athafna og býr yfir góðri nærveru auk þess að bera fána fyrirtækisins ávallt hátt á lofti.

Stjórnandinn er Gunnur Líf Gunnarsdóttir framkvæmdarstjóri mannauðssvið Samkaupa

 

Millistjórnandi ársins 2022
Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar   -   Réttur maður á réttum stað 

Sá stjórnandi sem hlýtur viðurkenningu Stjórnvísi sem millistjórnandi ársins 2022 hefur frá árinu 2019 leitt nýtt svið þjónustu- og þróunar hjá sveitarfélagi. Stofnun sviðsins og tilkoma stjórnandans markaði upphafið á stafrænu ferðalagi sveitarfélagsins sem í dag telur um 30.000 íbúa og 2.000 starfsmenn. Þjónustu- og þróunarsvið starfar þvert á allar einingar bæjarins og snýr stafræn umbreyting að öllum sviðum, starfsstöðvum og starfseiningum sem gerir allt starfsfólk bæjarins hluta af teyminu í þessari stafrænu vegferð. Árangurinn er þegar orðinn sýnilegur og í farvatninu innleiðing á fjölda stærri og smærri verkefna til viðbótar við þau sem þegar hafa verið innleidd. Stjórnandinn hefur sýnt það og sannað með metnaði sínum og faglegri forystu að hann er réttur maður á réttum stað. Strax í upphafi var, undir hans stjórn, mótuð þjónustustefna og dregin fram mikilvæg gögn og mælingar sem nýtt hafa verið til að taka réttar ákvarðanir og auka gagnsæi. Mikil framvinda hefur orðið í stafrænni þjónustu sveitarfélagsins síðustu tvö árin og mikil gróska og nýsköpun í kortunum.

Stjórnandinn hefur hátt í 20 ára stjórnunarreynslu og frá árinu 2013 rak hann sitt eigið fyrirtæki sem sérhæfði sig í vefráðgjöf, og tók á þeim vettvangi þátt í stafrænni vegferð margra fyrirtækja og ekki síst opinberra fyrirtækja þar sem hann stýrði stórum verkefnum og aðstoðaði við umbreytingu á stafrænni þróun. Stjórnandinn var einnig aðjúnkt í vefmiðlun við Háskóla Íslands. Áður en hann sneri sér að eigin rekstri starfaði stjórnandinn sem deildarstjóri vef- og netbanka Íslandsbanka, vef- og kynningarstjóri hjá Háskóla Íslands og deildarstjóri vefdeildar hjá Kaupþing banka.

Um er að ræða einstakan stjórnanda og frábæran leiðtoga sem hefur með yfirvegun sinni, virkri hlustun, reynslu og fagmennsku leitt stafræna innleiðingu í stóru sveitarfélagi. Á rétt rúmum tveimur árum í starfi hefur hann lagt áherslu á að hlusta og hvetja fólkið sitt áfram, planta mikilvægum fræjum, deila ábyrgð og hugmyndum, leiða saman rétta aðila og hópa og leiða til framkvæmda og árangurs verkefni á fjölbreyttu sviði. Hann hefur frá fyrsta degi lagt áherslu á að gera þjónustu bæjarins snjallari, breyta stafrænni ásýnd og innleiða ný vinnubrögð og hugsunarhátt með virkri þátttöku allra viðeigandi aðila. Samhliða er hann ávallt reiðubúinn til að deila nýjum hugmyndum, lausnum og nýsköpun með öðrum. Þannig hefur hann m.a. unnið markvisst að auknu samstarfi milli sveitarfélaga á fjölbreyttu sviði.

Reynsla stjórnandans, framtíðarsýn og lausnamiðuð hugsun hefur haft mikilvæg og hvetjandi áhrif á mannauð sveitarfélagsins og á samstarf íslenskra sveitarfélaga á þessu sviði. Framtíðarsýnin er skýr. Stafrænar umbreytingar og snjallar lausnir hjá stóru sveitarfélagi sem straumlínulaga þjónustuna, auka þjónustustigið, gera þjónustuna hagkvæmari og skilvirkari og stuðla á sama tíma að aukinni og vel þeginni sjálfsafgreiðslu.

Stjórnandinn er Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar

 

Frumkvöðull ársins 2022
Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Avo

Sá frumkvöðull sem hlýtur Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2022 er bæði stærðfræðingur og heimspekingur að mennt. Viðkomandi starfaði í tvö ár við tölfræði og hugbúnaðarþróun hjá deCode þaðan sem leiðin lá til Plain Vanilla til að stýra gagnagreind og taka þátt í að koma spurningaleiknum QuizUp á laggirnar. Þegar þeirri vegferð lauk stofnaði þessi öflugi frumkvöðull fyrirtækið Visku sem hafði það markmið að nýta leikjavæðingu til að gjörbylta því hvernig fyrirtæki fræða og þjálfa starfsfólkið sitt. Þar spratt upp hugmyndin að Avo sem er stofnað árið 2018 og er lausn við vandamáli sem stofnendateymið hafði áður þurft að leggja mikla vinnu í að leysa með heimasmíðuðum tólum hjá QuizUp, og stóð nú frammi fyrir að þurfa að feta þá þrautagöngu aftur í Visku.

Sprotafyrirtækið Avo er gagnastjórnunarlausn sem tryggir að gögnin sem vöruteymi safna til að skilja notendaupplifun séu áreiðanleg. Viðskiptavinir Avo—sem telja fremstu vöruþróunarfyrirtæki heims eins og Patreon, Fender, og Adobe—hafa öll sparað tugi milljóna á ári með því að innleiða Avo. Stafræn vöruþróun krefst þess í dag að teymi hreyfist á leifturhraða. En ekki í hvaða átt sem er, heldur í rétta átt. Þau vöruteymi skara fram úr sem nýta sér fyrirliggjandi gögn til að búa til bestu mögulegu upplifun fyrir sína notendur.

Í kjölfar þátttöku í hinum virta viðskiptahraðli Y Combinator í Bandaríkjunum safnaði fyrirtækið um 420 milljónum króna árið 2020 frá þekktum sjóðum í Kísildalnum. Sjóðum sem búa yfir sérþekkingu á að fjárfesta í ört vaxandi sprotafyrirtækjum og hafa áður fjárfest í fyrirtækjum á borð við Airbnb, TikTok og Alibaba.

Avo fylgir stefnu um að vera “fjarvænt”, þar sem starfsfólk Avo getur unnið hvar sem er. Teymið telur nú 10 einstaklinga sem eru búsettir eða flakkandi um allan heim, meðal annars á Íslandi, í Moskvu og San Francisco, þar sem mesta salan fer fram.

Framundan er áframhaldandi þróunarvinna og hraðari sókn á markað. Eitt mikilvægasta starf frumkvöðulsins er ekki aðeins að þróa vöru, heldur líka að þróa markaðinn fyrir þá vöru, til að finna hið víðfræga “product / market fit”. Eftir grundvallarvinnu síðustu ára í þeirri þróun, er nú áþreifanlegt tog í Avo frá markaðnum, og hyggst fyrirtækið því sækja enn hraðar fram og bæta við sig fólki á sviði markaðssetningar, viðskiptavelgengi (e. customer success) og vöruþróunar á árinu.

Það er einróma álit dómnefndar að viðkomandi frumkvöðull þykir hafa skarað framúr og verið mikil fyrirmynd fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref, ekki síst konur.

Það er með ánægju sem það tilkynnist að viðurkenning Stjórnvísi árið 2022 fyrir frumkvöðlastarf hlýtur Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Avo.

 

Eftirtaldir aðilar eru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2022:

Andrea Marel, deildarstjóri Tjörnin frístundamiðstöð

Aneta Matuszewska, skólastjóri Retor Fræðslu

Anna Regína Björnsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs CCEP (Coca-Cola Europacific Partners)

Auður Ösp Ólafsdóttir, sérfræðingur í upplifun viðskiptavina hjá Póstinum

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Travel Connect

Áslaug Magnúsdóttir, stofnandi Moda Operandi (NYC)

Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar

Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa

Davíð Harðarson, fjármálastjóri Travel Connect

Davíð Helgason, stofnandi Unity

Dóra Lind Pálmarsdóttir, teymisstjóri hjá Veitum

Edda Blumenstein, framkvæmdastjóri framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá BYKO

Edda Jónsdóttir, forstöðumaður markþjálfunar hjá Póstinum

Eðvald Valgarðsson, gæðastjóri hjá Samhentir, Vörumerking og Bergplast

Elfa Björg Aradóttir, fjármálastjóri Ístaks

Elín Björg Guðmundsdóttir, stöðvarstjóri Íslandspósts í Keflavík

Elín María Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Controlant

Erlingur Brynjúlfsson, CTO hjá Controlant

Fjóla María Ágústsdóttir, breytingarstjóri stafrænnar þróunnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna

Guðfinna Eyrún Ingjaldsdóttir, mannauðsstjóri þjónustu-og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar trygginga

Guðmundur Karl Guðjónsson, forstöðumaður dreifinga og flutninga Póstsins

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri Frístundamiðstöðin Tjörnin

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno

Haukur Hannesson, Managing Director AGR Dynamics

Helga Fjóla Sæmundsdóttir, mannauðsstjóri Hornsteins

Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri Grid

Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi Hjálpræðishersins á Íslandi

Hrund Scheving Thorsteinsson, deildarstjóri menntadeildar Landspítala

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands

Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri hjá Virk

Ívar Kristjánsson, stofnandi CCP og 1939 Games

Jóhann Björn Skúlason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og almannavarna.

Katrín Ýr Magnúsdóttir, Director of Inspection and Sorting RFS hjá Marel

Kristín Inga Jónsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins

Kristjana Milla Snorradóttir, Director of HR hjá Travel Connect

Lilja Gísladóttir, þjónustustjóri hjá Póstinum

Magnús Ingi Óskarsson, stofnandi Calidris

Magnús Sigurjónsson, Deputy Director Flight Operations Icelandair

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi PayAnalytics

Matthías Haraldsson, verkefnastjóri öryggis og heilsu hjá Veitum

Óskar Þórðarson, stofnandi Omnom

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar

Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins

Sif Sturludóttir, forstöðumaður eignaumsýslu hjá SÝN

Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar Póstsins

Sigríður Magnea Björgvinsdóttir, deildarstjóri upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Árborg

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO

Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu-og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar

Sonja Scott, mannauðsstjóri CCEP (Coca Cola Europacific Partners)

Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi AVO

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi

Sverrir Scheving Thorsteinsson, forstöðumaður tækni hjá Verði tryggingarfélagi

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupsstaðar

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og stofnandi Sidekick Health

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra

Þórdís Hulda Tómasdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Eir, Skjóli og Hömrum

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts

Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu NOVA

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?