Í þessari kynningu faghóps Stjórnvísi um upplýsingaöryggi ætlum við að reyna að skoða hvers vegna við vinnum að bættu upplýsingaöryggi. Hvernig mætum við þeim kröfum sem eru gerðar til okkar þannig að sú nálgun skili árangri en sé ekki bara til að tikka í box eða bara til að forðast sektir?
Fyrri mælandi er Björgvin Sigurðsson, Teymisstjóri í stafrænu teymi Sambands sveitarfélaga. Björgvin er kerfisfræðingur frá HR með 27 ára reynslu úr upplýsingatækni. Hann ætlar að skoða sérstaklega landslagið varðandi netöryggismál sveitarfélaga, hvaða skref séu skynsamleg núna og segja okkur frá verkefni Sambandsins um net- og upplýsingaöryggi.
Seinni mælandi er Sigrún Lilja Sigmarsdóttir, fagstjóri eftirlits með net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða hjá stafrænu öryggi Fjarskiptastofu. Sigrún Lilja er iðnaðarverkfræðingur og hefur starfað við eftirlit og innri endurskoðun í 17 ár og er handhafi CISA (certified information security auditor) fagvottunar frá ISACA.
Fyrirlesturinn hennar er leitast við að svara spurningunni "Hvers vegna erum við að þessu?" og þá helst undirspurningunni "Hvers vegna þurfum við ráðstafanir til að stýra netöryggisáhættu?" Lögð verður sérstök áhersla á mikilvægi áhættuhugsunar og þar með áhættustjórnunar við stýringu á netöryggisáhættu.