Gæðastjórnun og ISO staðlar

Gæðastjórnun og ISO staðlar

Faghópurinn um gæðastjórnun og ISO staðla vinnur að því að efla þekkingu á gæðastjórnun, ISO stöðlum og öðrum tengdum stöðlum, sem og faggildri vottun.

Markmið faghópsins

  • Auka skilning og notkun stjórnunarkerfisstaðla og tengdra staðla m.a. til að: stuðla að aukinni ánægju hagaðila, uppfylla kröfur, auka framleiðni, skilvirkni og árangur skipulagsheilda.
  • Lagt er upp með að bjóða upp á fyrirlestra og aðra viðburði til að auka kunnáttu, færni í gæðastjórnun og stjórnunarkerfum.
  • Stuðla að tengslamyndun og miðlun á reynslu og þekkingu.

Stjórn hópsins skipuleggur fundi og ráðstefnur þar sem fengnir eru fyrirlesarar sem hafa framsögu um málefni sem áhugavert er að ræða í tengslum við gæðastjórnun, stjórnunarkerfi eða staðla, gjarnan í samstarfi við aðra faghópa. Einnig eru rædd þau viðfangefni sem koma upp og ábendingar um leiðir til að leysa þau. 

Faghópafundir eða ráðstefnur nýtast bæði byrjendum í heimi gæðastjórnunar og staðla og þeim sem lengra eru komnir.

Umfang faghópsins

Umfang faghópsins snýr að gæðastjórnun og látum við okkur varða ISO stjórnunarkerfisstaðla sem og aðra staðla sem þeim tengjast og eru vottunarhæfir.  Faghópurinn leggur áherslu á þá þætti sem eru sameiginlegir/eins í öllum stjórnunarkerfunum ásamt því að auka vitund og virkni starfsfólks.

Við hvetjum alla sem hafa hugmyndir að fyrirlestrum og erindum sem styðja markmið og umfang faghópsins til að hafa samband við stjórnarmeðlimi hópsins.

Stjórnunarkerfi

Stjórnunarkerfi, þ.m.t. stjórnunarkerfi gæða, innibera aðgerðir sem skipulagsheildir beita til þess að m.a. skilgreina stefnu og markmið, skilgreina kröfur, stýra áhættu, ákvarða ferla og auðlindir sem þarf til þess að ná þeim árangri sem sóst er eftir. Allir svo kallaðir ISO stjórnunarkerfisstaðlar (e. ISO management systems standards) eru byggðir upp á sama hátt og þá má því sameina að stóru leyti í eitt stjórnunarkerfi og spara með því umtalsverðan kostnað og auka skilvirkni. Þeir stjórnunarkerfisstaðlar sem hér um ræðir eru:

- Stjórnunarkerfi gæða, samkvæmt ISO 9001
- Stjórnunarkerfi umhverfismála, samkvæmt ISO 14001
- Stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis, samkvæmt ISO 27001, einnig má tengja við þennan staðal öryggisaðferðir persónuverndar ISO 27701
- Stjórnunarkerfi um heilbrigði og öryggi á vinnustað, samkvæmt ISO 45001
- Stjórnunarkerfi jafnlauna, samkvæmt IST 85, séríslenskur staðall sem er að mestu leyti byggður eftir ISO 9001 staðlinum.
Til eru fleiri staðlar sem tengja má við áðurnefnda staðla með sama hætti nefndur ISO 27701 en þeir verða ekki taldir upp hér.

Almennt um gæðastjórnun

Gæðastjórnun er aðferðafræði við stjórnun fyrirtækja sem hefur þróast frá því að vera einföld stýring á framleiðslu yfir í að taka á öllum hliðum rekstrar óháð eðli fyrirtækisins. Hugmyndafræðin byggir á því að hafa þarfir hagsmunaaðila ávallt að leiðarljósi og reyna sífellt að gera betur, breyta og bæta.

Saga gæðastjórnunar er rakin til nokkurra Bandaríkjamanna og frumkvöðlastarfs þeirra um miðja síðustu öld. Má þar helst telja þá Walter Shewarth, Armand V. Feigenbaum, Josep M. Juran og W. Edwards Deming sem lögðu grunn að gæðastjórnunarfræðunum eins og við þekkjum þau í dag.

Á meðan sum fyrirtæki leggja áherslu á alhliða gæðastjórnun (e. Total Quality Management), þar sem ýmsum verkfærum gæðastjórnunar er beitt, styðjast önnur við alþjóðlegan staðal um gæðastjórnun, ISO 9001, við uppbyggingu gæðakerfa. 

Gæðastjórnun tengist náið ýmsum aðferðafræðum s.s. Lean - straumlínustjórnun, verkefnastjórnun og stefnumótun þar sem beita þarf öllum þessum aðferðum að einhverju leyti ef ná á árangri með gæðastjórnun.

Það að innleiða gæðastjórnun er stefnumótandi ákvörðun um langtímaviðfangsefni sem krefst stuðnings allra stjórnenda fyrirtækis. Gæðastjórnun má innleiða í hvaða fyrirtæki eða stofnun sem er með því að aðlaga hugmyndafræðina að stærð og starfsemi fyrirtækis. Leiðarljósið er ávallt það sama, að bæta frammistöðuna og að auðvelda fyrirtækinu að ná markmiðum sínum. 

Viðburðir

Innri úttektir ISO stjórnunarkerfa með hliðsjón af ISO 19011 staðlinum

Join the meeting now

Kynning á Innri úttektum ISO stjórnunarkerfa með hliðsjón af ISO 19011 staðlinum.

Eðvald Valgarðsson hjá Samhentir og Sveinn V. Ólafsson hjá Jenssen ráðgjöf ætla að fjalla um og deila reynslu sinni af Innri úttektum með hliðsjón af ISO 19011 staðlinum.

Eðvald hefur mikla reynslu af stjórnunarstöðlum og hefur unnið m.a. með ISO 9001 og ISO 22000 staðlana. Hann hefur einnig unnið með og sett upp BRC staðla 

Sveinn V. Ólafsson starfar hjá Jenssen ráðgjöf og hefur mikla reynslu hinum ýmsu stöðlum m.a. ISO 19001, ISO 9001, ISO 31000, ISO 45001 og ISO 55001

 

Hverju skilar vottun skipulagsheilda með ISO stjórnunarkerfisstöðlum og í hverju liggur ávinningurinn?

Tengjast fundinum núna (Join Meeting now)

Erindið er haldið í samvinnu faghópanna: Gæðastjórnun og ISO staðlar, Loftslagsmál og Stjórnun upplýsingaöryggis. 

Dagskrá:

09:00-09:05 -  Kynning - Gná Guðjónsdóttir stjórnarmeðlimur faghópsins Gæðastjórnun og ISO staðlar kynnir faghópinn og fyrirlesarann og stýrir fundinum sem verður á Teams (hlekkur á fjarfundinn kemur inn hér daginn áður).

09:05-09:45 - Hverju skilar vottun skipulagsheilda með ISO stjórnunarkerfisstöðlum og í hverju liggur ávinningurinn?
Tengist ávinningur vottunar starfsmannahaldi, samkeppnishæfni, viðskiptavinum, ímynd, fjárhagslegri afkomu, bættu aðgengi að skjölum, bættu vinnulagi, betri nýtingu á aðföngum eða auðveldaði vottunin fyrir markaðs- og/eða kynningarstarfi hér á landi eða erlendis?

Kynntar verða niðurstöður MIS rannsóknar Elínar Huldar Hartmannsdóttur í upplýsingafræði hjá HÍ sem hún framkvæmdi vorið 2022. Hver var notkunin og hvaða ávinning töldu íslensk fyrirtæki og skipulagsheildir sig hafa af vottun á þremur stjórnunarkerfisstöðlum ISO 9001, ISO 14001 og ISO 27001.

09:45 – 10:00 
 Umræður og spurningar

 

Um fyrirlesarann:

Elín Huld Hartmannsdóttir

Starfar sem gæða- og skjalastjóri hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, var áður í um eitt ár hjá Isavia meðfram námi. Var einnig sumarstarfsmaður á skjalasafni Forsætisráðuneytisins á námstímanum.

Elín vann áður sem hársnyrtimeistari og rak eigið fyrirtæki í 17 ár en lagði skærin á hilluna í orðsins fyllstu merkingu árið 2015.

Hún útskrifaðist frá HÍ með MIS í upplýsingafræði haust 2022 og fékk leyfisbréf bókasafns- og upplýsingafræðings og leyfisbréf kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í framhaldinu.

Hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu starfa um 100 manns og íbúafjöldi í umdæmi embættisins er um 242.000. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast umsóknir um vegabréf og ökuskírteini, sinnir fjölskyldumálum, veitir leyfi til ættleiðinga, hefur eftirlit með skráningu heimagistinga, sinnir ýmsum opinberum skráningum svo sem þinglýsingum, auk fleiri verkefna.

Aðalfundur faghóps um Gæðastjórnun og ISO staðla

Aðalfundur faghóps um Gæðastjórnun og ISO staðla verður haldinn mánudaginn 6. maí kl. 12.30-13:30 að Digranesvegi 1 (Kópavogsbær)

 

Dagskrá aðalfundar faghóps Stjórnvísi: Gæðastjórnun og ISO staðlar:

  1. Framsaga formanns – um starf ársins
  2. Umræður um starf ársins, hvað var vel heppnað, hvað má gera betur?
  3. Kosning til stjórnar
  4. Ákvarða fyrsta fund nýrrar stjórnar
  5. Önnur mál

 

Stjórn faghóps hittist að lágmarki tvisvar á ári, við lok starfsárs eftir aðalfund til að fara yfir líðandi ár, og svo við upphaf starfsárs til að skipuleggja viðburði ársins. Sjá nánar um hópinn hér: https://www.stjornvisi.is/is/faghopar/gaedastjornun 

Þau sem vilja bjóða sig fram til stjórnar, vinsamlegast sendið tölvupóst til formanns félagsins á sigurdurao@kopvogur.is

Fundarstjóri er Sigurður Arnar Ólafsson

Fréttir

Ávinningur af stjórnkerfisstöðlunum ISO 9001, ISO 14001 og ISO 27001 - Í Þjóðarspeglinum 2024 í Háskóla Íslands

Hér er stórmerkilegur viðburður fyrir allt áhugafólk um ávinning af notkun stjórnkerfisstaðlanna ISO 9001, ISO 14001 og ISO 27001. 

Staður og stund: Í Þjóðarspeglinum 2024 í Háskóla Íslands, Lögbergi 101, hinn 1. nóvember nk. kl. 15:00 — 16:45.

Höfundar: Elín Huld Hartmannsdóttir MIS, gæða- og skjalastjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Jóhanna Gunnlaugsdóttir PhD, prófessor emerítus.

Nánari texta um erindið er að finna í heildardagskrá ráðstefnunnar, undir síðasta erindinu sem er nr. 46: https://virtual.oxfordabstracts.com/event/73508/session/134454

Vonandi hafa sem flestir tök á að hlýða á þær Elínu Huld og Jóhönnu á föstudaginn kemur.

 

Örnám í gæðastjórnun: Ný og áhugaverð leið í háskólanámi í gæðastjórnun

Háskólinn á Bifröst býður örnám í gæðastjórnun. Þessi nýja og áhugaverða leið í háskólanámi er til 60 ECTS eininga og hentar bæði yfirstjórnendum og millistjórnendum sem þurfa starfa sinna vegna að sinna innleiðingu og rekstri gæðakerfa á vinnustað. Þá er örnámið kennt í fjarnámi og hentar einnig vel meðfram vinnu. Umsóknarfrestur er til 22. desember nk.

 

Félagsmenn í Stjórnvísi fá 15% kynningarafslátt

 

Til að virkja afsláttinn þarf að skrá STJÓRNVÍSI í athugasemdir í skráningarforminu. Nánari upplýsingar og skráning er á bifrost.is/ornam.

 

Rótagreiningar - Hvers vegna og hverju skila þær?

Í morgun hélt faghópur um gæðastjórnun og ISO fund í IÐAN fræðslusetur um rótargreiningar. Þeir sem reka stjórnunarkerfi þekkja að stjórnunarstaðlar gera kröfu um að frábrigði séu greind og orsakir þeirra ákvarðaðar. Málið er hins vegar, að það er okkur ekki eðlislægt að rótargreina og því er leiðin gjarnan að sleppa því ferli og fara bara beint í leiðréttingarhaminn þegar að frábrigði koma upp í kerfinu. Þetta getur valdið því að við sitjum uppi með galla í kerfinu sem geta valdið óþarfa sóun eða skaða í starfseminni.  Viðburðurinn var samansettur af tveimur 20 mínútna fyrirlestrum og 30 mínútna vinnustofu og í framhaldi fengu þátttakendur að spreyta sig við framkvæmd rótargreininga.

Í fyrirlestrunum var skoðuð annars vegar fræðilega hliðin á rótargreininigum, þar sem Birna Dís Eiðsdóttir, vottunarstjóri hjá Versa vottun, varpaði ljósi á hvers vegna við leitumst við að skoða málin of grunnt og hins vegar faglega hliðin þar sem Einar Bjarnason, kerfis- og gæðastjóri hjá LímtréVírnet, fór yfir eigin reynslu af gagnsemi vandaðra rótargreininga.

Stjórn

Sigurður Arnar Ólafsson
Gæðastjóri -  Formaður - Kópavogsbær
Anna Beta Gísladóttir
Stjórnunarráðgjafi -  Stjórnandi - Ráður
Arngrímur Blöndahl
Gæðastjóri -  Stjórnandi - Staðlaráð Íslands
Einar Bjarnsaon
Gæðastjóri -  Stjórnandi - Límtré Vírnet ehf
Eygló Hulda Valdimarsdóttir
Annað -  Stjórnandi - Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir
Gná Guðjónsdóttir
Framkvæmdastjóri -  Stjórnandi - Versa Vottun
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?