Click here to join the meeting
Sóley Ragnarsdóttir kemur og kynnir niðurstöður lokaritgerðar sinnar um Sjálfsvitund stjórnenda. Umfjöllun um sjálfsvitund stjórnenda er fremur ný af nálinni í stjórnendafræðum en lengi hefur verið fjallað um mikilvægi tilfinningagreindar stjórnenda.
Í ritgerðinni er rakið hvers vegna sjálfsvitund stjórnenda er sérlega mikilvæg fyrir vinnustaði sem og stjórnendurna sjálfa. Farið er yfir hversu mikil áhrif stjórnendur hafa á starfsmenn sína, bæði verkefnalega séð sem og tilfinningalega og það kemur fram að í raun hafa stjórnendur miklu meiri áhrif á starfsfólk en oft hefur verið talið. Þess vegna skiptir framkoma og hugarheimur stjórnenda svo gríðarlegu miklu máli, þ.e. sjálfsvitund þeirra. Það sem ritgerðin snýst um í grunninn er að því meiri sjálfsvitund sem stjórnandi hefur því meiri ánægja er hjá starfsmönnum hans sem leiðir til betri frammistöðu þeirra. Þetta samþættast svo í betri árangri fyrir vinnustaðinn. Það er því til alls að vinna að gera stjórnendur meðvitaða um betri sjálfsvitund.
Í ritgerðinni er gerð grein fyrir niðurstöðu könnunar sem gerð var meðal stjórnenda á Íslandi en þar kemur meðal annars fram að flestir stjórnendur telja sig hafa góða sjálfsvitund . Hins vegar er fjallað um það í umræðukafla hvers vegna ástæða er til að draga það sjálfsmat að einhverju leyti í efa. Bent er á umfangsmikla rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum þar sem fram kom að 95% fólks telja sig hafa góða sjálfsvitund en að raunin sé sú að einungis 12-15% hafi raunverulega góða sjálfsvitund. Það er því raunverulega ástæða til að efla frekar þekkingu á sjálfsvitund.
Um fyrirlesara:
Sóley er lögfræðingur í grunninn og fór svo í mastersnám í verkefnastjórnun hjá Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist sl. vor með MSc gráðu. Í náminu lagði hún sérstaka áherslu á mannauðs- og stjórnendafræði sem leiddu til skrifa um sjálfsvitund stjórnenda.
Sóley starfar nú sem deildarstjóri á skrifstofu forstjóra hjá Lyfjastofnun.