Stutt innslag sérfræðinga á sviði gervigreindar þar sem vangaveltur um framtíð gervigreindar eru settar fram út frá ólíkum sjónarmiðum. Á fundinum fáum við sérfræðinga úr ýmsum áttum til að spá fram í tímann um hvernig staða gervigreindar verður eftir 2 ár og svo aftur eftir 5 ár. Að spádómum loknum mun fundarstjóri stýra umræðum og við fáum að heyra spurningar frá þátttakendum.
Hlekkur á Teams viðburð: https://teams.microsoft.com/meet/395106913932?p=BCK67SieGThLuS5c7V
Umræðuvettvangur á Slido: https://app.sli.do/event/eS8NKN3hjFD2y41Rgi6HBd
Álitsgjafar
-
Dr. Helga Ingimundardóttir - Lektor í iðnaðarverkfræðideild, Háskóli Íslands
-
Tryggvi Thayer - Aðjunkt í upplýsingatækni, nýsköpun og miðlun á Menntavísindasviði HÍ
-
Róbert Bjarnason - Tæknistjóri, Citizens Foundation og Evoly
-
Hjálmar Gíslason - Stofnandi og framkvæmdastjóri, GRID
Fundarstjóri Gyða Björg Sigurðardóttir - sérfræðingur í gagnagreiningu hjá Orkunni og meðeigandi Ráður.
Nánari upplýsingar
Helga hefur fjölbreytta reynslu úr hugbúnaðarþróun, vísindarannsóknum og kennslu. Hún lauk doktorsprófi í reikniverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2016. Fyrri störf hennar fela í sér hugbúnaðarþróun hjá Völku, ráðgjöf hjá AGR Dynamics, vísindastörf hjá Íslenskri erfðagreiningu, gagnavísindi hjá CCP Games og forystu í gervigreindarrannsóknum hjá Travelshift. Frá árinu 2023 starfar hún sem lektor í iðnaðarverkfræðideild Háskóla Íslands og situr í fagráði Tækniþróunarsjóðs Rannís. Helga er einnig meðlimur í Kennsluakademíu opinberu háskólanna.
Tryggvi lauk doktorsprófi í samanburðarmenntunarfræðum með áherslu á framtíðafræði í stjórnun og stefnumótun í menntun frá Háskólanum í Minnesóta. Hans sérsvið er upplýsingatækni í menntun og sérstaklega framtíð menntunar með tilliti til tækniþróunar. Hann hefur víðtæka reynslu úr menntageiranum. Á síðustu þremur áratugum hefur hann m.a. starfað sem sérfræðingur hjá Evrópusambandinu, leitt og tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum rannsóknar- og þróunarverkefnum á sviði upplýsingatækni og menntunar og síðasta áratuginn á Menntavísindasviði HÍ sem verkefnisstjóri, kennsluþróunarstjóri og núna aðjunkt í upplýsingatækni, nýsköpun og miðlun í menntun.
Róbert er tæknistjóri Citizens Foundation og Evoly, fyrirtækis sem var stofnað í samstarfi við Citizens Foundation árið 2024 til að þróa opnar gervigreindar-lausnir fyrir samvinnu manna og gervigreindar. Róbert er frumkvöðull að uppruna og hefur stofnað og stýrt fjölmörgum tæknifyrirtækjum sem hafa haft veruleg áhrif á stafræna nýsköpun. Róbert leggur áherslu á gagnsæi, og betri ákvarðanir hjá fyrirtækjum og stofnunum.
Hjálmar er stofnandi og framkvæmdastjóri GRID, sem hefur umbreytt hvernig fyrirtæki og einstaklingar nálgast og vinna með gögn. Með ástríðu fyrir tækni og nýsköpun, hefur Hjálmar leiðbeint og byggt upp fyrirtæki sem nýta gagnadrifna nálgun til að bæta ákvarðanatöku og hagræðingu. Hann hefur verið virkur í þróun stafrænna lausna frá unga aldri og er þekktur fyrir sitt frumkvöðlastarf á sviði hugbúnaðar og fjölmiðla.