Þjónustumiðstöð Almannavarna: hin stöðuga hringrás stefnumótunar
Þegar alvarlegir atburðir eiga sér stað sem valda mikilli samfélagslegri röskun stofnar ríkislögreglustjóri tímabundið þjónustumiðstöð Almannavarna. Það er gert samhliða rekstri samhæfingarstöðvar sem stýrir samhæfingu almannavarnaaðgerða með hliðsjón af almannavarnastigi og í samræmi við viðeigandi viðbragðsáætlun.
Verkefni þjónustumiðstöðvarinnar fela í sér tímabundinn stuðning við þau sem þurfa að takast á við afleiðingar tiltekins atburðar eða áfalls, hvort sem það eru íbúar, sveitarstjórnir eða starfsfólk sveitarfélaga. Hin stöðuga hringrás stefnumótunar þarf að eiga sér stað í samstarfi þjónustumiðstöðvarinnar við fólk á áhrifasvæðinu sem sinnir stuðningi við íbúa, bæði til lengri og skemmri tíma. Óvissuþátturinn er stór, sér í lagi þegar náttúruhamfarir standa yfir í lengri tíma með tilheyrandi áhrifum og regluleg þarfagreining því mikilvæg til að viðhalda yfirsýn. Kynnt verður starfsemi Þjónustumiðstöðvar Almannavarna sem opnuð var vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga sem leiddu til rýmingar Grindavíkurbæjar 10. nóvember fyrir rúmu ári síðan.
Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir fagstjóri endurreisnar og fræðslu mun fara yfir með okkur hvernig Almannavarnir vinna sína stefnumörkun, mæla árangur og draga lærdóm af viðbrögðum síðustu ára.
Staðfundurinn er í fundarherberginu Sölvhólsvör á 1. hæð innviðaráðuneytisin, Sölvhólsgötu 7, gengið inn frá Ingólfsstræti.