Breytingastjórnun

Breytingastjórnun

Markmið hópsins er að auka vægi breytingarstjórnunar á Íslandi með því að bjóða upp á fræðandi og hvetjandi fyrirlestra frá fyrirtækjum, stofnunum og háskólum. Metnaður er lagður í að bjóða upp á fyrirlestra sem gefa áhorfendum aukna kunnáttu, færni og innsæi í breytingastjórnun sem nýtist þeim strax í starfi.

Breytingastjórnun er víðfeðm þar sem hún getur snert á flestu sem viðkemur rekstri og framþróun, hvort sem er fyrir einstaklinga, hópa eða fyrirtæki. Fagið snýst mikið um að hafa áhrif á mannskepnuna og er gjarnan gert með andstæðum aðferðum verkfræði og sálfræði sem nýtist m.a. við stjórnun og stefnumótun. Eins skipulagðar og breytingar eru í upphafi þá einkennast þær ætíð af viðbragði við aðstæðum sem upp koma, mannlegum og skipulagslegum, sem gjarnan skera úr um endanlegan árangur.

Faghópurinn var stofnaður haustið 2012 og fékk endurnýjun lífdaga vorið 2021. Hópurinn samanstendur af einstaklingum sem hafa áhuga, menntun og reynslu af breytingastjórnun.

Viðburðir á næstunni

Þjóðskrá Íslands - breytingastjórnun

Hildur Ragnars, forstjóri Þjóðskrár Íslands fer yfir verkefni stofnunarinnar síðustu misserin og þá breytingastjórnun sem ráðast hefur þurft í. 

Fréttir

Heimsókn í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Við vorum svo heppin að fá boð í heimsókn til HVIN, þar sem Ásdís Halla Bragadóttir  ráðuneytisstjóri og Þórir Hrafnsson mannauðsstjóri tóku á móti okkur í nýju og glæsilegu húsi ráðuneytisins að Reykjastræti 6.
 
Ásdís Halla fór vel yfir það sem þau kalla Stiklur í starfsemi sinni og er leiðarvísir þeirra að árangri fyrir Ísland. HVÍNandinn var ræddur sem leggur áherslu á að samstarfsfólk hjálpist að og vandi sig, viðurkenni mistök og læri af þeim, hlusti, virði og sýni hvert öðru umhyggju, gleðjist og fagni áföngum og viðhaldi heiðarlegum samskiptum. Þau Ásdís Halla og Þórir telja að þetta sé búið að ganga mjög vel og húsið sé eins og hannað fyrir þessi samskipti með opnum rýmum.
 
Þau fóru einnig vel yfir hvernig verkefni innan ráðuneytisins eru unnin. Þá er verkefnum forgangsraðað og þau bútuð niður og unnin í tímasettum sprettum. Þau beita sýnilegri stjórnun þar sem farið er yfir sprettina einu sinn í viku á töflum sem eru sýnilegar öllum. Með þessari aðferð hefur náðst að ljúka við fleiri verkefni, einnig þau sem alla jafna þurfa að bíða þegar önnur mikilvæg verkefni sem brennur á að ljúka koma fram. Verkefnin eru skilgreind sem þríþætt, sífellu verkefni, tilfallandi verkefni og sprettir. Verkefnin eru eðlilega ólík að stærð og úrlausnir þeirra kalla oft á ólík vinnubrögð.  Verklagið stýrir því í hvaða flokk verkefnin fara og stundum geta þau þróast þannig að þau færast á milli flokka.
 
Starfsfólk ráðuneytisins starfar í þverfaglegum teymum þar sem sérfræðingar frá ólíkum skrifstofum starfa saman og leiða saman einstaklinga sem hafa sérþekkingu á ólíkum sviðum. Að lokum fengum við túr um húsnæðið þar sem einn starfsmaður frá hverri skrifstofu sagði stuttlega frá þeirra verkefnum og uppbyggingu.
 
Heimsóknin var virkilega skemmtileg og fróðleg, það var gaman að spjalla við starfsfólkið og allir tóku hópnum okkar vel. Við þökkum öllum í HVIN fyrir að gefa sér þennan dýrmæta tíma til að taka á móti okkur og félögum okkar í breytingastjórnunarhópnum. 

Vettvangsferð í HVIN

Kæru félagar, okkur hefur verið boðið í vettvangsferð til HVIN. 
 
Viðburðurinn verður 22. okt. næstkomandi á milli 8:30-10:00, takmarkaður fjöldi sem kemst að, fyrstir koma fyrsti fá. 
 
Frá stofnun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins (HVIN) hefur áhersla verið lögð á breytt vinnubrögð og áherslur í starfsemi ráðuneytisins. Markmiðið var að ná auknum árangri samhliða því að vera sveigjanlegri og hafa fólk í forgrunni allrar ákvarðanatöku, ekki kerfið sjálft.
 
 Til að styðja við þessa áherslu var það forgangsmál hjá HVIN að hafa skýra sýn og sveigjanlegt skipurit sem ýtir undir nýsköpun. Skrifstofum var fækkað og yfirbygging minnkuð. Á sama tíma er áhersla lögð á skipulagningu verkefna þannig að stefnumarkandi mál eru aðskilin almennri stjórnsýslu og rekstrarlegum viðfangsefni. Slík breyting, að hafa skýra forgangsröðun og greina á milli mikilvægra langtímaverkefna og áríðandi daglegra úrlausnarefna, hefur verið lykilatriði í því að starfsfólk ráðuneytisins er ekki fast í viðbragðsstjórnun heldur starfar eftir skýrri stefnumörkun og markmiðum. Þannig hefur HVIN tekist að hrinda stórum breytingum í framkvæmd sem hafa jafnvel verið föst á teikniborðinu um margra ára skeið.
 
 Í heimsókninni mun Ásdís Halla Bragadóttir ráðuneytisstjóri kynna verklagið og hvernig tekist hefur verið á við þau ljón sem hafa verið á veginum.

Aðalfundur faghóps um breytingastjórnun 2024

Aðalfundur faghóps um breytingastjórnun var haldinn 15. maí sl.

Starfsárið 2022-2023 var gert upp, dagskrá komandi árs rædd og kosið í nýja stjórn fyrir starfsárið 2023-2024. Í stjórn á komandi ári verða:

  • Júlía Þorvaldsdóttir, Þjóðskrá (Formaður)
  • Ásta Rut Jónasdóttir, Fastus
  • Brynjar Rafn Ómarsson, Eimskip
  • Helga Franklínsdóttir, Efla
  • Gunnlaugur Bjarki Snædal, Isavia

Þökkum fráfarandi stjórnarmeðlimum góð störf .

Stjórn hópsins mun hittast á næstunni og leggja drög af dagskrá starfsársins. Endilega komið áleiðis hugmyndum eða óskum um efnistök ef þið hafið áhuga.

Þökkum öllum meðlimum fyrir þátttökuna starfsárinu sem var að ljúka og hlökkum til þess næsta!

Stjórn

Júlía þorvaldsdóttir
Framkvæmdastjóri -  Formaður - Þjóðskrá Íslands
Ásta Rut Jónasdóttir
Deildarstjóri -  Varaformaður - Fastus ehf
Brynjar Rafn Ómarsson
Verkefnastjóri -  Stjórnandi - Eimskip
Gunnlaugur Bjarki Snædal
Verkefnastjóri -  Stjórnandi - ISAVIA ohf.
Helga Franklínsdóttir
Annað -  Stjórnandi - Marel Iceland ehf
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?