Kick off fundur stjórna faghópa Stjórnvísi verður 30. ágúst nk. í Nauthól kl.16:30-17:40

Kick off fundur stjórna faghópa Stjórnvísi verður haldinn miðvikudaginn 30.ágúst nk. í Nauthól kl.16:30-17:50.

Tilgangur fundarins er að starta nýju starfsári af krafti. Farið verður yfir ýmis atriði sem létta stjórnendum faghópa starfið í vetur, búinn verður til vettvangur fyrir faghópana til að sameinast um viðburði, rýnt verður í helstu áskoranir faghópastarfsins en umfram allt fá innblástur til þess að gera komandi starfsár enn öflugra en þau síðustu.

Stjórnir faghópa eru hvattar til að hittast sem fyrst, borða saman hádegisverð í boði félagsins og huga að dagskrá starfsársins.  Á þessum tíma júní-ágúst er oft best að bóka fyrirlesara.  Stjórn vekur athygli á að stjórnum faghópa gefst tækifæri tvisvar á starfsárinu að hittast í hádegisverði í boði félagsins, hægt er að setja í reikning bæði á Nauthól og Kringlukránni.  Ef annar staður er valinn er afrit af reikningi sent á Stjórnvísi og reikningurinn greiddur samdægurs.

Mikilvægt er að senda drög að dagskrá faghópanna til framkvæmdastjóra Stjórnvísi gunnhildur@stjornvisi.is fyrir 28.ágúst. Þegar allir hópar eru búnir að senda inn dagskrána verður hún sameinuð í eitt skjal og send út til ykkar allra fyrir fundinn þann 30.ágúst nk.

Stefnt er að því að senda út drög að dagskrá haustsins til félaga þann 4.september.

Einnig er mikilvægt að skoða hvort stjórnir séu rétt skráðar inn á vefinn þ.e. allar breytingar hafi skilað sér. Þið hafið öll aðgang og getið breytt hverjir eru í stjórn.

Munið eftir að skrá ykkur á fundinn ef þið eruð ekki þegar búin að því.

https://www.stjornvisi.is/is/vidburdir/kynningarfundur-med-stjornum-faghopa-stjornvisi

Hlökkum til að sjá ykkur og njótið sumarsins sem allra best.

Stjórn Stjórnvísi.

Fullbókað: VIRKJAÐU ÞITT TEYMI Á GRUNNI TRAUSTS

Á stefnumóti stjórnenda fyrir félagsmenn Stjórnvísi í samstarfi við FranklinCovey verða kynntar til leiks nýjar íslenskar rannsóknir MMR um traust.  Að auki verður unnið með hagnýtum hætti með áhrifaríkar leiðir til að efla traust á öllum sviðum sem byggir á alþjóðlegri metsölubók Stephen M.R. Covey "The Speed of Trust - The One Thing That Changes Everything". Að lokum munu gestafyrirlesarar fjalla um traust á íslenskum vinnustöðum.

Fyrirlesarar: 

Guðfinna S. Bjarnadóttir, LEAD consulting

Guðrún Högnadóttir, FranklinCovey

Ólafur Þór Gylfason, MMR

Steinþór Pálsson

ÁHRIFAMESTA BREYTAN TIL BETRI FRAMMISTÖÐU 

Traust er ekki bara félagsleg dyggð, heldur er það hagnýtur og áhrifaríkur eiginleiki sem þú getur ræktað til að auka sjálfstraust og efla traust í samböndum, traust á vinnustöðum, markaði og í samfélaginu öllu.

Það eru sannfærandi rök fyrir því að stuðla að trausti í atvinnulífinu. Hópar og vinnustaðir sem starfa á grundvelli mikils trausts ná mun betri árangri en hópar og vinnustaðir með lítið traust.

  • Traust eykur hraða og dregur úr kostnaði.
  • Traust bætir helgun starfsmanna (engagement).
  • Traust eflir teymi sem eru lipur, skapandi og einbeitt.
  • Traust er lykilforsenda við stjórnun breytinga og
    farsællar innleiðingar stefnu.

Traust er aðgangsmiði á alla markaði.

Þátttaka er verulega takmörkuð, frítt á viðburðinn og allir velkomnir.

 

 

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, UN Global Compact, ávinningur, innleiðing og reynsla

Faghópur Stjórnvísi um samfélagsábyrgð byrjar starfsárið á viðburði með kynningu á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, UN Global Compact, ávinningur, innleiðing og reynsla.

Fjallað verður um ávinning þess að skrifa undir Global Compact, innleiðingu 10 viðmiða sáttmálans og reynslu fyrirtækis af því að skrifa undir.

Hörður Vilberg, forstöðumaður samskipta hjá Samtökum atvinnulífsins, greinir frá ávinningi aðildar að sáttmálanum. SA eru tengiliður Íslands við Global Compact.

Harpa Júlíusdóttir, viðskiptafræðingur, fjallar um niðurstöður rannsóknar hennar til meistaranáms á þróun aðildar að UN Global Compact hjá íslenskum fyrirtækjum og hvernig hefur gengið að innleiða samfélagsábyrgð.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts lýsir reynslu Póstsins af aðild UN Global Compact. Pósturinn hefur verið aðili að GC frá árinu 2009.

Fundarstjóri er Ásdís Gíslason, kynningarstjóri HS Orku.

Fundurinn er opinn á meðan húsrúm leyfir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku.

 

 

 

Grunnatriði Lean /umbótavinna

Við hefjum veturinn á  árlegri kynningu á grunnatriðum straumlínustjórnunar. Fjallað verður um hvað felst í umbótastarfi Lean.  Þórunn Óðinsdóttir ráðgjafi mun fara yfir nokkur dæmi um hvað getur áunnist og hvers má vænta við umbótaverkefni með aðferðum Lean. Við fáum að heyra raundæmi af fyrirtækjum og stofnunum bæði hér á landi sem og erlendis sem hafa nýtt sér aðfeðirnar.  
Hvort sem þú ert að rifja upp megináherslur í straumlínustjórnun eða ert að kynnast aðferðafræðinni þá er þetta rétti fyrirlesturinn til að fara á. 

Nýsköpunarhádegi Gulleggsins #EngarHindranir

Nýsköpunarhádegi Gulleggsins #EngarHindranir verður haldið miðvikudaginn  20.september kl.12:00-13:00 í Mengi á Óðinsgötu

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Ungar Athafnakonur, Women Tech Iceland og Stjórnvísi. Þema fundarins er sögustund með stofnendum, þar sem 4 stofnendur koma saman í panelumræður um ferðalagið við stofnun fyrirtækis.  

Markmið fundarins er að veita fólki innblástur og sýna fram á að það eru engar hindranir fyrir þá sem ætla sér að ná langt. Stefnan er að gefa þeim sem liggja á viðskiptahugmyndum auka spark rassinn til þess að koma sér af stað í þróun hugmyndarinnar.

Umsóknarfrestur í Gulleggið er til  21. september. Kynnið ykkur keppnina á www.gulleggid.is

Fullbókað: Árangursrík starfsmannasamtöl

Faghópur um markþjálfun byrjar vetrarstarfið á viðburði um starfsmannasamtöl, en það er við hæfi þar sem margir standa frammi fyrir því að taka þau um þessar mundir.

Lagt verður upp með að leitast við að svara: 
“Starfsmannasamtöl”
Hver á þau? Hvernig undirbúa stjórnendur sig? Hvernig er eftirfylgni háttað?

Sagt verður frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar á nýrri aðferð starfsmannasamtala. Umrædd starfsmannasamtöl eru með breyttu sniði að því leiti að þau eru tekin fjórum sinnum á ári, með ákveðið þema að leiðarljósi hverju sinni og innan styttri tímaramma en hefðbundin starfsmannasamtöl.

Í framhaldi af því verður fjallað um markþjálfun stjórnenda fyrir starfsmannasamtöl sem leið til að undirbúa stjórnendur að taka árangursrík starfsmannasamtöl og fylgja þeim eftir. Stjórnendur fá tækifæri til að nýta starfsmannasamtalið til fullnustu og til árangurs fyrir báða aðila.

Viðburðurinn er hugsaður fyrir stjórnendur með mannaforráð sem vilja nálgast verkefnið starfsmannasamtal af einurð og ánægju.  

  • Sóley Kristjánsdóttir, MS í mannauðsstjórnun og ACC markþjálfi, kynnir niðurstöður rannsóknar sinnar á umræddum starfsmannasamtölum.
  • Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, Master í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði og ACC markþjálfi, kynnir leiðir þess að markþjálfa stjórnendur fyrir starfsmannasamtöl.

Hefur hlutverk innri úttektaraðila breyst?

Staðlar um stjórnunarkerfi (ISO9001, ISO 14001, ISO 27001, ISO 45001, ISO 17065 o.fl.) gera kröfur um innri úttektir. Með breytingum á stöðlunum koma breyttar áherslur. 

Á þessum fundi faghóps um gæðastjórnun og ISO staðla verður til umræðu hvort nýjustu útgáfur staðlanna breyti hlutverk innri úttektaraðila. Faghópurinn vonast til að fundarmenn taki virkan þátt í umræðum.

Umræðunni stýra Michele Rebora, ráðgjafi og Ína Björg Hjálmarsdóttir, gæðastjóri. 

Hvernig nýtist viðurkenndur ferlarammi við að bæta þjónustu

Viðurkenndur ferlarammi eins og ráðgjafafyrirtækið Noventum beitir með viðskiptavinum sínum auðveldar ferlaskráningu og breytingar hjá fyrirtækjum og stofnunum. Noventum nýtir slíkan ferlaramma í verkefnum við að bæta þjónustu hjá viðskiptavinum fyrirtækisins víða um Evrópu og í Bandaríkjunum með góðum árangri. Hilbrand Rustema, framkvæmdastjóri Noventum, kynnir ferlarammann, notagildi og dæmi um notkun hjá viðskiptavinum fyrirtækisins við að bæta þjónustu. 

Kynningin er ætluð starfsmönnum, stjórnendum og sérfræðingum sem vinna að breytingum í starfseminni; í gæðamálum auk ferla- og þjónustumálum hjá fyrirtækjum og stofnunum. Áhersla er á ferlaskráningu, breytingastjórnun, ásamt mikilvægi lykilmælikvarða (KPIs). Þá verða tækninýjungar eins og IoT í að bæta þjónustu ræddar.  

 

Erindið verður á ensku.

FRESTUN: Costco-áhrif og kostnaðarstjórnun

Viðburðinum er frestað vegna forfalla og verður auglýstur aftur í október.

Kostnaður er fylgifiskur öllum rekstri, óháð starfsemi. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er síbreytilegt. Breyting á rekstrarumhverfi getur verið af mismunandi ástæðum t.d. tækniframfarir, breytingar á lögum og reglum, samkeppni o.fl. Geta fyrirtæki notað áfram sömu stjórnunar- og eftirlitskerfi (Management and Control Systems) fyrir og eftir breytingar? Til að taka upplýstar ákvarðanir þá þarf að hafa réttu upplýsingarnar miðað við það rekstrarumhverfi sem viðkomandi fyrirtæki starfar í. Hvernig vitum við hvað eru "réttar" upplýsingar og hverjar ekki? Þessu er í raun ekki hægt að svara fyrr en við vitum m.a. hvernig rekstrarumhverfið er og hvernig kostnaðarmynstur fyrirtækja er uppbyggt. Á fyrirlestrinum verður rætt um uppbyggingu á kostnaðarmynstri fyrirtækja og áhrif þess á samsetningu heildarkostnaðar og hvernig breytt rekstrarumhverfi hefur áhrif á kostnaðarstjórnun.

Fyrirlesari: Einar Guðbjartsson, dósent.

ÞJÁLFUN Í GESTRISNI - raundæmi og verkefni.

Kynning á nýsköpunarverkefni: „Þjálfun í Gestrisni – Raundæmi og Verkefni“. 

Höfundar: Margrétar Reynisdóttur, www.gerumbetur.is og Sigrúnar Jóhannesdóttur, menntaráðgjafa 

Þátttakendur fá að prófa hluta af þjálfunarefninu á staðnum. 

Dagskrá:

Haukur Harðarson, forstöðumaður Hæfnisseturs ferðaþjónustunnar

Sigrún Jóhannesdóttir, menntaráðgjafi: Fræðin á bak við nýsköpunarverkefnið

Margrét Reynisdóttir, ráðgjafi hjá www.gerumbetur.is: Hvað sögðu álitsgjafarnir?

Tanía Smáradóttir, mannauðsstjóri hjá Hertz: Hvernig nýtist þjálfunarefnið?

Verkefnastjórnun eða verkefnavinna?

Verkefnastjórnun eða verkefnavinna
Við hefjum veturinn á kynningu á mikilvægi verkefnisskilgreininga og verkefnisáætlana sem grunninn að góðri verkefnastjórnun. Áhersla kynningar verður hvort verkefnastjórar skilgreini hlutverk sitt sem verkefnavinnu og verkefnastjórnun.
Fyrirlesari: Sveinbjörn Jónsson, verkfræðingur og MPM, samræmingarstjóri fjárfestingaverkefna hjá Isavia.

BREYTT STAÐSETNING: Lindex - innkaup og birgðastýring - Skeiðarás 8 Garðabæ.

BREYTT STAÐSETNING:  Vöruhús Lindex, Skeiðarás 8, Garðabæ.  

Lindex ætlar að bjóða Stjórnvísi í heimsókn miðvikudaginn 4. október kl. 8:45. Hjónin Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir reka Lindex á Íslandi og munu taka á móti okkur á Vöruhús Lindex, Skeiðarás 8, Garðabæ.  Þau munu meðal annars segja okkur frá aðfangakeðju Lindex, hvernig þau kaupa inn frá Svíþjóð, stýra birgðum á lager og dreifa vörum í verslanir. Einnig munu þau segja okkur frá reynslu sinni af því að opna nýjar verslanir, þar á meðal netverslunina lindex.is sem þau opnuðu nýverið. Áhugaverður fyrirlestur fyrir þá sem hafa áhuga á innkaupa og birgðastýringu!

Ath. fjöldatakmörk gilda: eingöngu 25 einstaklingar geta skráð sig á þennan viðburð.

Frestað: Framsýn Menntun NÚ

Ath. Þessum viðburði (5.okt.) hefur verið frestað. Ný dagsetning tilkynnt síðar. 

Gísli Rúnar Guðmundsson er skólastjóri nýs grunnskóla í Hafnarfirði og mun hann vera með kynningu á honum. Hann ætlar að segja hvað er að ganga vel og hvar helstu áskoranir liggja. Hann ætlar að segja frá reynslu þeirra af notkun markþjálfunar með nemendum og hvernig þau sjá skólann þróast í framtíðinni.

Hvernig skóli er NÚ?
Grunnskóli fyrir 8-10 bekkinga sem leggur áherslu á íþróttir, hreyfingu,heilsu og vendinám. NÚ er viðurkenndur af Menntamálastofnun, starfar samkvæmt Aðalnámskrá Grunnskóla og lýtur lögum og reglugerðum um íslenska grunnskóla.

NÚ vill veita unglingum tækifæri til að samtvinna íþróttaáhuga sinn og grunnskólanám þar sem nemandinn sinnir námi sínu af sama áhuga og íþróttinni. Með nútímatækni og nýjum kennsluaðferðum er nemendum veitt frelsi til að nálgast námið á eigin forsendum. NÚ vill skapa umhverfi þar sem nemendur finna til ábyrgðar, áhuga, heilbrigði og umfram allt ánægju.

http://framsynmenntun.is

Gísli Rúnar Guðmundsson útskrifaðist með mastersgráðu í verkefnastjórnun árið 2015 og sem íþróttafræðingur frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004. Hann hefur starfað sem grunnskólakennari frá árinu 1999 og hefur yfir 20 ára reynslu af þjálfun barna og unglinga. Hann er forvitin og hefur mikinn áhuga á fólki, ferðalögum og sköpun. Hann elskar samverustundir með fjölskyldunni og íslenska náttúru.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?