Heilsueflandi vinnuumhverfi: Fréttir og pistlar
VIRK á 15 ára afmæli á þessu ári og í tilefni af því er blásið til ráðstefnu um endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys.
Boðið verður upp á fjölbreyttan hóp íslenskra og erlendra fyrirlesara á ráðstefnunni, aðalfyrirlesarar verða hinn kanadíski Dr. Emile Tompa og hin hollenska Dr. Sandra Brouwer.
Dagskrá ráðstefnunnar og skráningu á hana má finna hér.
Starfsárið 2022-2023 var gert upp og kosið var í nýja stjórn fyrir starfsárið 2023-2024 sem er eftirfarandi:
Við þökkum meðlimum faghópsins fyrir starfsárið sem er að ljúka og hlökkum til næsta starfsárs!
Faghópur markþjálfunar býður upp á vefnámskeið (Zoom) með Dr. Tünde Erdös þar sem hugtakið nærvera (Presence) verður rýnt, meðal annars út frá því hvernig við getum notað nærveru til að skapa betri sambönd, ná betri árangri og eiga í betri samskiptum. Nánari lýsing á námskeiðinu er á ensku frá Dr. Tünde inn á viðburðinum hér.
Athugið að námskeiðið sjálft verður einnig á ensku.
Þau sem taka þátt í námskeiðinu bjóðast aðgangur að lokuðum facebook-hóp þar sem Dr. Tünde Erdös mun taka þátt í samtali með okkur um nærveru og deila efni þessu tengdu og fer það samtal fram áður en námskeiðið er haldið í febrúar. Þátttaka í þessu samtali og samfélagi mun gefa okkur aukið virði þegar það kemur að sjálfu námskeiðinu. Hér er hægt að óska eftir aðgangi í hópi “hlekkur á facebook-hóp”.
Linkedin síðan hennar hér.
Facebook viðburður hér.
Gleðilega hátíð!
Góðan dag
VIRK, embætti landlæknis og Vinnueftirlit ríkisins bjóða upp á örráðstefnu um heilsueflandi vinnustaði með Marie Kingston - höfundi bókarinnar Stop stress og Streitustigans – á Grand Hótel miðvikudaginn 18. maí kl. 10:30 - 12:00. Aðgangur á ráðstefnuna er ókeypis.
Mary Kingston stendur einng fyrir vinnustofu sama dag um streitu og vinnustaði sem nýtist t.d. stjórnendum á Grand Hotel kl. 13:00 - 16:00, miðvikudaginn 18. mars. Vinnustofan fer fram á ensku og aðgangseyrir á vinnustofuna er kr. 9.000.
Vinsamlegast athugið að skilyrði fyrir þátttöku á vinnustofunni er seta á örráðstefnunni fyrr um daginn þar sem að Marie Kingston leggur þar grunn að þeim þáttum sem unnið verður með á vinnustofunni og mun hún ekki endurtaka þann grunn.
Fjöldi þátttekanda í vinnustofunni er takmarkaður og því mikilvægt að skrá sig á virk.is.
Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur á facebooksíðu Stjórnvísi.
Fundurinn var tekinn upp og aðgengilegur á Facebooksíðu Stjórnvísi. Ingibjörg Loftsdóttir og Sara Lind Brynjólfsdóttir kynntu gagnlegan fróðleik og ráð fyrir stjórnendur á velvirk.is sem er vefsíða forvarnarverkefnis VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Rúmlega 100 manns mættu á fundinn sem var einstaklega fróðlegur.
Við lifum í samfélagi þar sem sífellt fleiri virðast hellast úr lestinni vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda. Svo virðist sem hluti af þessum veikindum sé til kominn vegna langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. Velvirk-síðunni er ætlað að halda utan um upplýsingar og gagnleg ráð fyrir starfsmenn og stjórnendur í forvarnarskyni. Síðan fór í loftið í lok árs 2018 og nýtt efni hefur bæst við reglulega síðan.
Í þessari kynningu var farið yfir það efni síðunnar sem einkum snýr að stjórnendum. Nefna má efni sem talar til ástandsins vegna COVID-19 svo sem upplýsingar og ráð til stjórnenda um fjarvinnu, hvernig taka eigi á óöryggi og áhyggjum á vinnustað, hvernig virkja megi fólk á fjarfundum og bregðast við fjarfundaþreytu. Einnig var rætt um breytingar sem reikna má með að verði á skrifstofunni í kjölfar faraldursins.
Sagt var frá umfjöllun um stjórnunarhætti, traust, merkingu, viðurkenningu og virðingu, lífshættulega stjórnun, streitu stjórnandans, óréttlæti, opin vinnurými, hamingju, teymisvinnu og „Streitustigann“ - svo fátt eitt sé nefnt. Einnig bent á stutt viðtöl við stjórnendur sem hafa verið að fara nýjar leiðir á sínum vinnustöðum.
Faghópur um heilsueflandi vinnuumhverfi hélt fund í Háskólanum í Reykjavík um morgun þar sem fjallað var um hvernig eigi að meta félagslegar aðstæður t.d. áhættumat og fleira. Góð vinnustaðamenning og góður starfsandi eru lykilatriði í vellíðan starfsmanna á vinnustað. Erfitt getur verið að ná utan um þessa þætti í vinnuumhverfinu. Því er mikilvægt að nýta þau tæki og tól sem fyrirfinnast til að greina aðstæður í félagslega vinnuumhverfinu til þess að bæta það.
Helga Bryndís Kristjánsdóttir er fyrirtækjaeftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu með áherslu á félagslegt vinnuumhverfi. Hún hefur unnið lengst af við ráðgjöf og verkefnastjórnun. Helga Bryndís er félagsráðgjafi frá háskólanum í Álaborg í Danmörku, með MA í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og MPM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.
Helga fór yfir lög og reglugerðir nr.46/1980 lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 920/2006 stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna og 1009/2015 reglugerð gegn einelti, kynferðislegri áreitni o.fl. Í 65 gr. í lögum 46/1980 segir að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gert sé áhættumat. Mikilvægt er að skoða reglugerðirnar því atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma á vinnuverndarstarfi sem tekur til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna.
Markmið reglugerðar 1009/2015 er að bannað sé einelti, áreitni og ofbeldi óheimil. Viðbragðsáætlun þarf að vera til staðar.
Félagslega vinnuumhverfið erum við sjálf. T.d. ef þú vinnur í búð þá eru allir þeir sem koma inn í verslunina hluti af mínu vinnuumhverfi. Þeir þættir sem tengjast félagslegu vinnuumhverfi er stjórnun. Stjórnun þarf og verður að vera í góðu lagi og hafa heildarsýn á vinnuumhverfinu. Skipulag er mikilvægt til þess að allir viti hvað þeir eigi að gera. Sveigjanleikinn, hæfilegar kröfur og upplýsingagjöf þarf að vera í lagi. Stuðningur yfirmanns er mikilvægur og þarf að vera á hreinu. Ef vinnuumhverfi er ekki gott þá eykst hættan á samskiptavanda, streitu, andlegri og líkamlegri vanheilsu, kulnun í starfi, einelti og áreitni.
Gera þarf skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Skv. reglugerðunum er það atvinnurekandi sem ber ábyrgð. Ef Vinnueftirlitið fær ábendingu um einelti þá er það vinnustaðurinn sem á að vinna úr því og Vinnueftirlitið dæmir ekki í málum. Það sem Vinnueftirlitið hins vegar getur gert er að brýna að reglum sé fylgt og forvarnarstarf sé alltaf í lagi.
Mikilvægt er að gera samskiptasáttmála eins og Landspítalinn gerði nýlega sem felur í sér hvernig starfsmenn koma fram við hvorn annan. Þessi sáttmáli er inn á heimasíðu Landspítalans. Mikilvægt er líka að stuða að fræðslu og umræðu.
En hvað er félagslegt áhættumat? Aðferðin við gerð áhættumats er valfrjáls. Greina þarf öll vandamál sem hugsanlega eru á vinnustaðnum eða geta komið upp. En hvernig er félagslegt vinnuumhverfi á okkar vinnustað? Er góður mórall? Ef starfsandinn er ekki góður þarf að fara í dýpri vinnu. Þættirnir sem þarf að skoða við félagslegt áhættumat eru: vinnutíma, tímaþröng, tilbreytingarleysi, athafnafrelsi, einvera við vinnu, samskipti, stuðningur, upplýsingaflæði, samsetning starfshóps, öryggi og breytingar í vinnuumhverfi.
Áhættumat þarf að taka mið af: fjölda starfsmanna, aldri starfsmanna, kynjahlutfalli, ólíkum menningarlegum bakgrunni o.fl. Alltaf þarf að spyrja sig: „Er gripið eins fljótt og hægt er inn í mál?“. Tæki og tól til greininga eru: vinnuumhverfisvísar (wordskjal sem er á heimasíðu Vinnueftirlitsins), samtöl, kannanir (skoða í hvaða deild hlutirnir eru í lagi og hvar ekki), spurningalistar, horfa til fortíðar, hlutsta, tala og skilja. Reynst hefur vel að meta aðstæður og starfsanda innan vinnustaða t.d. með starfsmannasamtölum, könnunum o.fl. Á heimasíðu vinnueftirlitstins má sjá áhættumat. Það kostar mikla peninga fyrir fyrirtæki að hafa hlutina ekki í lagi. https://www.vinnueftirlit.is/vinnuvernd/ahaettumat/
Faghópar um Heilsueflandii vinnuumhverfi og mannauðsstjórnun héldu í morgun fund sem fjallaði um “Lifum lengi, betur”. Guðjón Svansson og Vala Mörk frá Njóttu ferðalagsins (www.njottuferdalagsins.is) fóru ásamt tveimur yngstu sonum sínum í fimm mánaða rannsóknarferðalag árið 2019. Þau sóttu heim Blue Zones svæði heimsins, en þau eru þekkt fyrir langlífi og góða heilsu.
Hvað hefur langlífi og góð heilsa með stjórnun að gera? Geta íslenskir stjórnendur lært eitthvað af tímalausum íbúum eyjunnar Ikaria, ellismellum í Motubu á Okinawa, sjöundadags aðventistum í Loma Linda, veðurbörðum þorpsbúum í fjallahéruðum Sardiníu eða “Plan de Vida” hugsunarhætti þeirra langlífu á Nicoyaskaganum í Kosta Ríka?
Þau Guðjón og Vala vilja meina það. Í fyrirlestrinum tengdi Guðjón saman það sem þau lærðu í ferðinni og hvernig þau telja að íslenskir stjórnendur geti aukið framlegð og vellíðan starfsfólks á sama tíma. Nokkur lykilhugtök: Tilgangur, virkni, viðhorf, seigla og samkennd.
Fjölskyldan fór af stað í þessa ferð því þau hafa mikinn áhuga á líkamlegri og andlegri heilsu. Vala vinnur við að byggja upp fólk eftir slys eða sjúkdóma og Guðjón hjálpar fólki við að ná jafnvægi í lífinu. Eitt áhugaverðasta verkefni sem hann hefur unnið við er að stýra sjálfboðaliðum um land allt. Guðjón fór á ráðstefnu hjá Virk þar sem hollenskur heimilislæknir kynnti Blue Zone svæðin (Lomo Linda California, Nicoya Costa Rica, Sardinia Italy, Ikaria Greece og Okinia Japan) og þar með kviknaði áhuginn. Það sem þau lærðu í ferðinni var að vera til og upplifa hvernig er að vera á hverjum og einum stað, hvað fólkið borðar og hvernig það lifir lífinu. Það skiptir miklu máli að fólk hafi tilgang í lífinu bæði almennt og í vinnunni. Gerðu það sem þú ert góður í, nýtur að gera, aðrir þarfnas og aðrir eru tilbúnir að greiða fyrir það. Fólk á ekki einungis að gera það sem það er gott í heldur einnig það sem þú nýtur þess að gera, annars geturðu lent í örmögnun. Guðjón hefur hitt marga sem eru stjórnendur en njóta þess alls ekki. En fyrir stjórnendur er mikilvægt að hjálpa fólki að skilja að það skipti máli. Starfsmenn verða að hafa tilgang og vita að þeir skipti máli.
Gen skipta miklu máli varðandi langlífi en að sjálfsögðu hreyfing og matarræði að auki. Sameiginlegt með svæðunum er að fjölskyldan passar upp á alla á þessum stöðum. Hugsaðu vel um fjölskylduna þína og þá hugsar hún vel um þig. Blue Zone svæðin eiga það sameiginlegt að þar ríkir einfaldleiki og eðlilegt er að ganga á milli staða. Lomo Linda er eina svæðið sem sker sig úr því þeir eru trúarhópur aðventista 20 þúsund manna bær austur af LA. Lomo Linda er staður sem þú fæðist ekki endilega í því fólk er flytjast þangað alls staðar að úr heiminum. Þau eru 7unda dags aðventistar. Hinir staðirnir eru allir staðir sem þú fæðist á. Mikilvægt er að gera daglegar mildar hreyfingar og óþarfi að ofkeyra sig.
Mikilvægt er að sitja ekki allan daginn í vinnunni, heldur standa upp, fara í stuttan göngutúr, pílukast, og heilsuefla vinnustaðinn á oformlegan einfaldan hátt, einstaklingsmiðað eftir hópum. Allir þurfa alls ekki að vera með í öllu. Einnig er gaman að henda í planka. Gott að brjóta upp á mismundandi hátt og þannig að fólk gleymi sér. Hvetja alla til að leggja bílnum lengra frá og fara í litla leiki.
Viðhorf skiptir miklu máli. Seiglan skiptir öllu og að vera undirbúinn. Fyrir stjórnendur er góður lærdómur að vita að það takast á hæðir og lægðir og vera þakklátur fyrir lífið. Mikilvægt er að vera opinn fyrir nýjum leiðum.
Mikilvægt er að vera í sjálfboðaliðastarfi þegar við eldumst. Við búum sjálf til samfélagið okkar, hugsa stærra og hugsa ekki bara fyrir okkur sjálf heldur samfélagið. Því allt tengist. Bókin um gleðina er frábær bók sem vert er að lesa og mikilvægast er að rækta eitthvað, ekki einungis mat heldur líka fólk. Stjórnendur þurfa að passa upp á að starfsmenn rækti verkefni. Að lokum gerði Guðjón samantekt á því hvað er okkur mikilvægast í lífinu; tilgangur, fólkið mitt, virkni, viðhorf, næring, hvíld, samfélagið og hið æðra. Ægishjálmurinn tengir þetta allt saman.
Stjórnvísifélagar duttu heldur betur í lukkupottinn þegar þeir fengu að hlýða á Vin Harris frumkvöðul og nútvitunarkennara sem var kominn til Íslands á vegum Hugleiðslu og friðarmiðstöðvarinnar til að deila reynslu sinni af iðkun núvitunar. Það var Guðný Káradóttir sem kynnti Vin Harris í Nýsköpunarmiðstöð Íslands á síðasta fundi starfsársins föstudaginn þrettánda desember.
Vin Harris sagði að í núvitund væri jmikilvægt að róa hugann og skoða hvernig okkur líður. Hvað erum við að hugsa, hvernig líður okkur? Mikilvægt er að þrýsta ekki á neitt heldur skilja hvernig okkur líður. Við erum að skilja hvað gerist hjá okkur þegar eitthvað annað er að gerast, hvernig erum við að bregðast við? Við erum sífellt að segja okkur sögur af því hvernig við ættum að vera. Mikilvægt er að spjalla alltaf við sjálfan sig eins og hvern annan góðan vin, ekki vera of dómhörð við okkur sjálf.
Andardrátturinn er alltaf með okkur, það er allt annar andardráttur í dag en var í gær eða verður á morgun. Í núvitund er verið að skoða í huganum hvað er að gerast hér og nú. Eitt mikilvægasta sem manneskja getur gert fyrir sjálfa sig er að breyta um tón hvernig hún talar við sig. Talaðu í fallegum, rólegum góðum tón við sjálfan þig. Fólk þarf að æfa sig í að vera með sjálfu sér. Í núvitund byrjarðu að bera ábyrgð á eigin tilfinningum. Það eru milljónir hluta að gerast þarna úti og þú getur einungis valið um örfáa þeirra. Ef þú heyrir t.d. fullt af hljóðum og þau angra þig þá er mikilvægt að hlusta á hljóð og leyfa þeim að koma. Þá breytist oft hjá mörgum að hljóðin hætta að fara í taugarnar á þeim og þá hefur heilinn breyst.
Fjöldi Stjórnvísifélaga sýndi áhuga á að koma í stjórn faghóps um heilsueflandi vinnuumhverfi, allt afburðafólk. Úr vöndu var að ráða við að móta stjórn hópsins. Úr varð stór og sterk stjórn sem endurspeglar vel fjölbreytilega þeirra vinnustaða sem áhuga sýndu. Fyrsti fundur stjórnarinnar var á Kringlukránni í dag þar sem farið var yfir almennt fyrirkomulag og umboð stjórna Stjórnvísi, hlutverk stjórnar, kosningu formanns og næstu skref.
Stjórnina skipa þau Ása Karin Hólm Capacent, Björn Hermannsson Gagnaprisma, Yrsa Guðrún Þorvaldsdóttir Hagvangi, Heiður Reynisdóttir Háskóla Íslands, Sesselja Traustadóttir Hjólafærni, Júlíana Einarsdóttir Hrafnistu, Sóley Ragnarsdóttir Isavina, Berglind Helgadóttir Landspítala, Sólveig Heimisdóttir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, Unnur Jónsdóttir Orkuveitu Reykjavíkur, Gerða Björg Hafsteinsdóttir Reykjavíkurborg, Guðbjörg H. Birkisdóttir Vinnuvernd, Ingibjörg Loftsdóttir Virk sem kosin var formaður á fundinum og Ólöf Kristín Sívertsen Marel.
Markmið þessa stefnumóts við mannauðsstjóra og stjórnendur sem fara með mannauðsmál var að fara yfir nokkur megin stef og nýjar áskoranir til að bæta líðan og samstöðu starfsmanna. Við vitum að góð andleg og líkamleg heilsa er grunnurinn að ánægju og árangri í lífi og starfi.
Fyrirlesari var Þorvaldur Ingi Jónsson, viðskiptafræðingur – MS í stjórnun og stefnumótun. Hann hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um jákvæða þjónandi leiðtogastjórnun, ásamt kennslu og leiðsögn í Qigong lífsorkuæfingum.
Þorvaldur byrjaði fyrirlesturinn á að kynna Qigong öndunina og lét alla æfa hana. Í framhaldi kynnti hann lykilorkustöðvarnar Dantian – viska, kærleikur og orka. Þegar hugurinn er sterkur þá búum við yfir visku, innsæi, einbeitingu, staðfestu og sannleik. Ef hann er veikur: óstöðugleiki, dómgreindarleysi og siðblinda. Í Qigong erum við að rækta okkur. Samhljómur í hugleiðslu, hreyfingu og önduninna. Svo er það bardaginn þ.e. að við stöndum alltaf með okkur. Við viljum hafa allar orkubrautir sterkar og hreinar. Heilsteypt manneskja er með allar orkustöðvarnar sterkar, í samhljómi og er í jafnvægi. Hefur skýra hugsun, innsæi, traust, kærleika, samkennd, drifkraft, styrk, úthald, jákvæðni og er án kvíða. Andlegt og líkamlegt heilbrigði. Þeir sem stunda Qigong eru náttúrusinnar; hlaða sig hreinni orku frá jörðu og himni, frjáls, óhrædd, gefandi og góðar manneskjur, bera aldrei með sér reiði eða langrækni, horfa bjartsýn til framtíðar, lifa í núinu og nýta orkuna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Fókið sem við þjónustum er viðskiptaauðurinn okkar. Á vinnustaðnum er mikilvægt að innleiða stefnu og þar kemur að tilgangi, sýn og gildi, hvert er áætlunarverkið, hverjum á að þjóna, hvers vegna, hvað vil ég vera, hvað vil ég verða, hvernig? Mikilvægt er að stilla af mannauðinn og tæknina og þar kemur inn skipulagið og gæðaferlarnir. Við náum aldrei toppárangri nema að það sé 100% traust og samskiptaferlar séu í lagi. Traust þarf að horfa á í öllum lögum, aðalstjórnendur, millistjórnendur og starfsmenn. Til að vera samkeppnishæf þarf stöðugt að hugsa hvað get ég gert til að þjónusta á skilvirkari hátt og þjónusta mannauðinn betur. Og mikilvægast af öllu er gleðin. En hvernig er tími nýttur? 30% tíma starfsmanna fer í forgangsverkefni og allt of mikið fer í önnur verkefni (truflanir, fundir, tölvupóstar, símtöl, slúður, fresturnarárátta). Norðmenn eru með 44% meiri framleiðni en Íslendingar og því mikilvægt að huga að meiri framleiðni. Mannauðsstjórinn á að vera þjónandi og horfa til stefnu, gilda og framtíðarsýnar sem byggir á trausti og skilvikum samskiptum. Í menningu sigurvegara þá líðum við aldrei ofbeldi/einelti (Qigong), við spyrjum, hlustum, hvetjum, miðlum, leiðbeinum, upplýsum, hrósum, þökkum, gleðjumst og fögnum sigrum. „Meiri gleði – meira gull“.
Þess er ætlast til í dag að starfsmenn séu leiðtogar og hjálpi hvor öðrum með skýrum skilaboðum. Starfsmenn þurfa líka að umboð til athafna, geta haft frumkvæði, hlakki til að koma til vinnu, viljinn til að geta gert betur, skapa eitthvað nýtt, viðhalda og auka hæfni sína. Í lokin lærðu þátttakendur nokkrar einfaldar en öflugar Qigong lífsorkuæfingar sem allir geta gert í vinnufötunum.
Faghópar um heilsueflandi vinnuumhverfi og mannauðsstjórnun buðu Stjórnvísifélögum að kynna sér Jóga Nidra á vinnustöðum á hádegisfyrirlestri íHáskólanum í Reykjavík. Erindið flutti Jóhanna Briem jóga Nidra leiðbeinandi en hún hefur leitt Nidra í fyrirtækjum við mikla ánægju starfsmanna. Hún byrjaði fundinn á kynningu á jóga Nidra, hvað það er og hvaða áhrif það getur haft á heilsu og vellíðan einstaklinga. Í lokin leyfði hún fundargestum að upplifa Nidra hugleiðslu þannig að allir fengu að upplifa sjálfir hvernig jóga Nidra virkar.
Í dag búa margir við of mikið álag sem getur valdið streitu og líkamlegum og andlegum einkennum. Rannsóknir sýna að of mikil streita og spenna valda bólgum í líkamanum sem eru áhættuþættir lífsstílstengdra sjúkdóma. Í jógafræðum er talað um jafnvægi taugakerfisins sem lykil að góðri heilsu og vellíðan. Í jóga Nidra er slökunarviðbragðið virkjað en í því ástandi endurnýjar líkaminn sig, það hægir á hjartslætti, blóðþrýstingur lækkar, öndun verður dýpri og líkaminn slakar á. Það dregur úr streitu, kvíða, hugurinn róast og svefninn verður betri. Ástæðan fyrir því að vera með jóga Nidra í fyrirtækjum er að efla heilsu starfsmanna, vellíðan og starfsánægju.
Meðfylgjandi er nánari lýsing á Jóga Nidra: Jóga Nidra (Amrit method of Yoga Nidra) er ævaforn hugleiðsluaðferð sem samanstendur af líkams-, öndunar- og núvitundaræfingum. Jóga Nidra kallast einnig „jógískur svefn“ en í hugleiðslunni eru þátttakendur leiddir markvisst inn í djúpt slökunarástand eins og verður þegar við sofum. Nidrað nýtir það sem líkaminn kann það er að sofna en í því ferli hægist ósjálfrátt á heilabylgjutíðni. Í jóga Nidra eru þátttakendur leiddir í gegnum þessar breytingar á heilabylgjutíðni en markmiðið er þó ekki að sofna, heldur halda vakandi vitund og dvelja í djúpri slökun milli svefns og vöku. Í þessu ástandi fara þátttakendur frá hinum hugsandi huga, inn í þögnina sem býr í okkur öllum, tengjast sínu sanna sjálfi og öðlast frelsi frá stöðugum hugsunum. Þeir fara frá því að hugsa og gera yfir í það að finna og vera (núvitund). Með reglulegri ástundun á Jóga Nidra er hægt að öðlast meiri hæfni í að taka eftir hugsunum, tilfinningum og viðbrögðum og læra betur að stýra eigin huga og líðan. Þegar hugurinn er kyrr er sem dæmi hægt að taka mun betri og skýrari ákvarðanir en þegar hugurinn er á fullri ferð.
Jóga Nidra virkjar heilunar- og endurnýjunarmátt líkamans, losar um spennu og streitu og kemur jafnvægi á ósjálfráða taugakerfið. Í Jóga Nidra losnar um hormón og taugaboðefni sem gera okkur hamingjusamari, afslappaðri, heilsuhraustari, lækka háan blóðþrýsting og draga úr bólgum í líkamanum sem í dag eru taldar orsök lífsstilssjúkdóma. Streita sem orsakast fyrst og fremst af of virkum huga og of mikilli spennu safnast upp í líkamanum ef við náum aldrei djúpri slökun inn á milli og veldur bæði líkamlegum og andlegum einkennum. Herbert Benson, MD hjartalæknir í Harvard hefur rannsakað það sem hann kallar „slökunarviðbragðið“ (e. relaxation response) í yfir 40 ár, en þar fer líkaminn í svokallað „parasympatískt“ ástand en það er slökunarhluti ósjálfráða taugakerfisins (sefkerfið) þar sem líkaminn gerir við sig. Hans viðfangsefni hefur verið að rannsaka áhrif hugleiðslu á þetta viðbragð og staðfesta niðurstöður ótvírætt ofangreind áhrif.
Það sem einkennir Jóga Nidra er ásetningur sem hver og einn setur sér fyrir hugleiðsluna og er nýttur í dýpsta hugleiðsluástandinu til að breyta neikvæðum forritum í undirmeðvitund yfir í styrkjandi jákvæðar staðhæfingar sem þjóna einstaklingum vel. Ásetningur er fræ sem við viljum sá til þess að leiða okkur á þá leið sem við viljum fara í lífinu. Í fyrstu tímunum setur leiðbeinandi vanalega ásetning það er jákvæðar og styrkjandi staðhæfingar sem geta átt við alla.
Jóga Nidra tímarnir byrja á stuttri hugleiðslu, nokkrum jógaæfingum eða teygjum og síðan leggjast þátttakendur á dýnu á gólfinu með púða og teppi og hugleiðslan fer fram í liggjandi stöðu.
Talað er um að 45 mínútna Jóga Nidra jafngildi 3 klukkutímum í svefni.
Jóhanna Briem hefur verið með námskeið í jóga Nidra í Endurmenntun Háskóla Íslands, auk námskeiða í tengslum við áhrif hugar á heilsu. Jóhanna hefur unnið við heilsueflingu í áratugi á mismunandi sviðum. Hún er með MA gráðu í áhættuhegðun og forvörnum, nám í náms- og starfsráðgjöf og er löggiltur sjúkranuddari. Forvarnir hafa lengi verið hennar áhugasvið og fellur jóga Nidra vel inn á það svið.
Fullbókað var á fund á vegum faghópa um mannauðsstjórnun og heilsueflandi vinnuumhverfi sem haldinn var í Höfðatorgi í morgun. Reykjavíkurborg leggur áherslu á heilsueflingu starfsmanna og hefur á árinu 2017 unnið markvisst að því að efla heilsueflandi stjórnun og staðið fyrir heilsueflandi aðgerðum fyrir alla starfsmenn Reykjavíkurborgar. Lóa Birna Birgisdóttir fór yfir hvernig hefur verið unnið að heilsueflingu hjá Reykjavíkurborg með það að markmiði að innleiða breytingar í vinnustaðamenningu Reykjavíkurborgar til lengri tíma. Lóa Birna kynnti heilsu- og hvatningarverkefnið „Heilsuleikar Reykjavíkurborgar“ sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir þar sem starfsmenn eru hvattir til að sinna heilsunni með leikgleðina að leiðarljósi og sjónum hefur verið beint bæði að líkamlegri og andlegri heilsu sem og mataræði.
Lóa Birna sagði frá vinnustaðnum Reykjavíkurborg. Þar starfa 8500 starfsmenn, 350 starfsstaðir, 500 stjórnendur, 20% starfsmanna eru karlar, 45 ár meðalaldur, yfir 1000 starfsheiti, 96% starfsánægja 6% veikinda fjarvistir 35% upplifa að hafa of mikið að gera. En af hverju áhersla á heilsueflingu? Borgarstjóri leggur mikla áherslu á lýðheilsu. Markmiðið er að virkja heilsueflingu til að fyrirbyggja, meðhöndla eða draga úr áhrifum lífstílstengdra sjúkdóma.
Myndaður var starfshópur sem er með ákveðin verkefni s.s. að hafa eftirfylgni með innleiðingu viðverustefnu, endurskoða verkferla í tengslum við viðverustefnu, greina þætti í vinnuumhverfinu sem hafa áhrif á heilsu og líðan, kortleggja styrki og aðgerðir til heilsueflingar, gera tillögur um aðgerðir sem styrkt geta vellíðunarþætti og bætt andlega líðan tillögur að verkefnum sem styðja við starfsmenn, heilsufarsmælingar, rýna og greina gögn um veikindafjarvistir, tillögur að heilsueflandi aðgerðum fyrir starfstaði.
Nú eru allir stjórnendur með aðgengi að appi sem byggt er ofan á mannauðskerfin,; SAP. Sama kerfi er notað til að kynna viðhorfskönnun borgarinnar. Þetta kerfi er mjög til bóta fyrir stjórnendur. Þeir geta þá rýnt betur gögn hjá sér. Reykjavíkurborg innleiddi heilsuapp sem gekk ágætlega. 25% tóku þátt í fyrstu leikjum og 18% í næstu leikjum. Appið er frítt. Meðvitund hefur aukist mjög mikið.
Í umræðum kom fram hve mikilvægt er að geta bætt sig í mataræði og andlegri vellíðan ekki einungis á keppni.
Jóhann Friðrik Friðriksson, heilbrigðis-og lýðheilsufræðingur hjá Nexis fór yfir helstu líkön og verkferla í gerð heilsueflingar á vinnustað og leiðir til þess að hámarka arðsemi þeirra á vegum á fundi faghóps um heilsueflingu í dag 21.október. Heilsuefling er samstillt átak vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins með það að markmiði að bæta heilsu og vellíðan á vinnustað. Heildræn nálgun á slíka heilsueflingu ásamt notkun hvatakerfa hefur notið vaxandi vinsælda í nágrannalöndum okkar og hefur þróun og rannsóknum á því sviði fleytt fram.
Vinnustaðurinn spilar stóran sess í heilsu okkar á lífsleiðinni rétt eins og heilsufar starfsmanna vegur þungt í framleiðni og árangri fyrirtækja á Íslandi. Vakning gagnvart samfélagslegri ábyrgð vinnuveitandi ásamt niðurstöðum rannsókna sem sýna hag þess að innleiða sannreynd heilsueflingarkerfi vekja upp þörf og áhuga á heilsueflingu á vinnustöðum.
Rannsóknir sýna að heilsuefling geti minnkað fjarvistir um 30%. Aðalatriðið er að setja í gang heildræna stefnu en ekki stefna á að einhver grennist eða hætti að reykja. Allir eiga að vera með en ef einhver vill ekki taka þátt þá er það allt í lagi.
Í dag er mikil vakning ekki síst á Íslandi. Vinnuveitandi ber mikla ábyrgð á heilsufari okkar. Vinna á aldrei að skaða okkur hvort heldur það er stress eða líkamlegt álag.
Jóhann segir að við eigum að hafa það einfalt: greining, áætlun, íhlutun og mælingar. Þetta er grundvöllurinn að öllum þeim hlutum sem við gerum. Við byrjum á greiningunni; umhverfi okkar, samspil einstaklings, umhverfis og hegðunar. Markmiðin verða að vera mælanleg, annars eru þau ekki markmið. Það sem Jóhann leggur áherslu á er að hafa ekki of flókin módel. CDC notar módel sem er mjög einfalt. Sett er markmið, langtímaplön með markmiðin, mælingar og mat. Allt sem sett er í gang þarf að vera mælanlegt. Ef eitthvað er ekki að virka þá kippum við því út. Google gerir ekkert nema vera búnir að gera greiningu. Þeir horfa á vinnuumhverfið út frá lýðheilsumarmiðum. Hvernig getum við tryggt að við fáum sem mest út úr starfsmanninum. Heilsuefling snýst um að fólk sé raunhæft í því sem það er að gera. Lítil skref í rétta átt er raunhæft. Ratleikir eru vinsælir.
Á aðalfundi faghóps um Heilsueflandi vinnuumhverfi, sem haldinn var í húsnæði Íslandspósts, Stórhfða 29, hinn 12. maí 2015 gaf fráfarandi formaður ekki kost á sér aftur í formannsembættið. Nýr formaður var kjörinn, Jóhann Friðrik Friðriksson lýðheilsufræðingur. Úr stjórn gekk Jóhanna Briem og eru henni þökkuð góð störf í þágu félagsins. Þrír nýir stjórnarmeðlimir bættust í hópinn.
Nýja stjórn skipa:
Jóhann Friðrik Friðriksson, lýðheilsufræðingur, Bewell
Alda Ásgeirsdóttir, lýðheilsufræðingur, VIRK Starfsendurhæfingarsjóði
Friðþóra Arna Sigfúsdóttir, fræðslustjóri, Íslandspósti
Hildur Friðriksdóttir, mannauðsráðgjafi, ProActive Ráðgjöf og fræðslu
Rakel Eva Sævarsdóttir hagfræðingur og meistaranemi í HÍ
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga
Svava Jónsdóttir, heilsu- og mannauðsráðgjafi, ProActive Ráðgjöf og fræðslu
Fyrsti stjórnarfundur var haldinn að loknum aðalfundi. Stefnt er á að næsti stjórnarfundur haldinn í maílok þar sem lagðar verða línur fyrir næsta starfsár.
Á fundi faghóps um heilsueflandi vinnuumhverfi var fjallað um heilsueflingu í bæjarfélagi þar sem markmiðið er að efla heilsu og líðan. Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, lýðheilsufræðingur fór yfir að hver og einn ber ábyrgð á eigin heilsu og það er mikið hægt að gera í umhverfinu okkar. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að vera hluti af hóp. Kjarninn er að skoða nýjar leiðir þ.e. skoða þau með lýðheilsugleraugum. Að vinna með bæjarfélögum á að geta tekist vel. Reykjavík er brotin upp í 7 einingar og hægt að vinna í hverri einingu fyrir sig. Sigríður vann með Mosfellsbæ að heilbrigðara samfélagi. Sem dæmi sást í mælingu að í bænum er drukkið meira gos en í öðrum bæjarfélögum í kraganum. Í framhaldi var farið í átak að hvetja íbúa til að drekka meira vatn í stað þess að drekka gos. Sigríður sagði frá ráðstefnu sem hún fór á nýlega í Bandaríkjunum varðandi heilsueflingu. Eflingin hófst þar með fyrirtækjaheilsu, þar er fólki greitt fyrir að hreyfa sig sem hefur ekki varanleg áhrif þ.e. það festist ekki í menningunni. Sigríður sagði fór ótrúlega flottum fyrirlestri Dan Buettner þar sem fyrirlesarinn fjallaði um hvar fólk lifir lengst eða réttara sagt án sjúkdóma. Hvar eru þessi samfélög? Í Sardiníu á Ítalíu, Micoya í Costa Rica, Ikaria í Grikklandi, Lomo Linda í Californiu og Okinawa í Japan. Þessir staðir eiga það sameiginlegt að þar eru ekki skyndibitastaðir og nánd fólks er mikil. Fólk á þessum stöðum hefur fundið tilgang sinn í lífinu. Það er auðvelt að segjast ætla að verða heilsueflandi samfélag en erfitt að fylgja eftir aðgerðarlista. Mikilvægast eins og áður sagði er að vera hluti af hóp (samskipti, trú, fjölskyldan), hreyfing (eðlileg hreyfing), tilgangur, hugleiðsla (hver er þinn tilgangur? Hvíld hugans), Skynsamleg næring (borðaðu mat, 80% reglan, alkahól í hófi). Hvatt er til að kirkjur séu meira opnar t.d. fyrir jóga, hugleiðslur, tónleika o.fl. Mikilvægt er að standa upp reglulega yfir daginn, hreyfa sig á brettinu í ræktinni.
Helga Kristjánsdóttir, leikskólastjóri á Sunnuhvoli gaf okkur innsýn inn í heilsuefandi leikskóla og áhrif þess á starfsemina. Helga ólst upp við heilbrigðan lífsstíl og hreyfing er hluti af hennar lífi. Hún syndir og gengur. Helga vill standa fyrir að borða hollt og stunda hreyfingu. Helga hefur hafragraut, lýsi og ávexti á morgnana. Að vera leikskólastjóri krefst þess að vera leiðandi í mörgu. Árið 2012 byrjaði Helga að lesa fag sem heitir heilbrigði og uppeldi. Þar fékk hún verkfæri til að vinna út frá. Dagur í leikskóla er mjög skipulagður, með skipulagningu og útsjónarsemi hugsaði Helga með sér að hægt yrði að finna glufu til að gera eitthvað fyrir starfsmenn er varðaði hreyfingu. Starfsmenn á leikskóla eru grunnur á plani og þurfa að vera vel á sig komnir andlega og líkamlega. Í hádegi leggjast allir til hvílu, eldri börnin leggjast niður og yngri börn leggja sig. Lesin eru ævintýri sem þeim finnst skemmtileg og í þessum aðstæðum frá 11:30-13:00 er frekar rólegur tími. Sett var verkefni í gang sem fólst í að hver starfsmaður fékk 30 mínútur í hreyfingu og 30 mínútur í hvíld einu sinni í viku. Mikilvægt var að alltaf fara a.m.k. 2 saman í hvert skipti. Það var afskaplega hvetjandi að fá þennan auka hálftíma því hann var vel nýttur.
Faghópur um heilsueflingu á vinnustað hélt í morgun áhugaverðan fund í Vífilfelli. Það voru þau Lilja Birgisdóttir vinnuverndarsérfræðingur hjá Vífilfelli og Haukur Hafsteinsson tæknifræðingur og forritari hjá Marel sem sögðu reynslusögur frá sínum fyrirtækjum varðandi nálgun á heilsueflingu
Lilja Birgisdóttir sagði að aðalatriðið væri að spyrja sjálfan sig: Hvað get ég gert sem einstaklingur til að efla mína heilsu? Lilja tók síðan hópinn i léttar æfingar sem hjálpa líkamanum að fara í gang og tóku allir þátt. Hjá Vífilfell er meðalaldurinn 38 ár, 79% karlar og 21% konur. Vífilfell notar gildin sín mikið. Í þjónustuveri var aðalvandamálið kyrrsetan og hávaði. Þar starfa einungis konur sem sjálfar tóku saman vinnureglur fyrir sig: Starfandi eru matarklúbbar, fótboltaklúbbar o.fl. þannig að starfsmenn kynnast þvert á hópinn, ekki einungis innan síns hóps.
Varðandi fjölbreytileika þá tekur mötuneytið sig til og er með heilsuviku. Starfsmenn eru líka alltaf velkomnir í mötuneytið til að elda sína uppáhaldsuppskrift og aðstoðar þá starfsfólk mötuneytisins til við það. Stundum er plankað innan hópa og kemur hugmyndin frá hópnum, ef starfsmenn taka ákvörðun um að prófa eitthvað t.d. liðleika þá er þeirri hugmynd hrint í framkvæmd og aðrir starfsmenn fylgja með. Einnig er farið í fjallgöngur, haldnir heilsumánuðir, sviðakeppni, kókosbolluát þar sem aðalmarkmiðið er að hlæja. Haldnir eru fyrirlestrar ýmiss konar er varða andlega og líkamlega heilsu. Í febrúar var haldin „Biggest Looser Vífilfells“ að frumkvæði starfsmanna sem einblíndi á líkamlega heilsu og næringu.
Engin ein heilsuefling gildir fyrir alla, það er fjölbreytileikinn sem gildir. Mikilvægast er að styðja þá sem fá hugmyndir og aðstoða við að hrinda þeim í framkvæmd. Það þarf kjark til að taka frumkvæði og ekki síður kjark til að fylgja eftir.
Haukur Hafsteinsson frá Marel sagði að það fyrsta sem undirbúningsnefndin frá Marel íhugaði var: Hvað einkennir góða íþróttaaðstöðu? Hún þarf að vera snyrtileg, helstu tæki og tól þurfa að vera til staðar, góð loftræsting og góðir búningsklefar. Nefndin skoðaði hvað önnur fyrirtæki hefðu verið að gera og þá sáu þau að það verður að bjóða upp á sambærilega aðstöðu við það sem gengur og gerist á líkamsræktarstöðum. En hvað gerir fólk í hádeginu? Lyftingar, ganga, hlaupa, hóptímar. Í framhaldi ákváðu þau að vera með lyftingasal, hlaupabretti og tvo hópsali. Þar var hægt að vera í körfu, blaki og squash. Salurinn nýttist því í margar íþróttir. Í dag er boðið upp á Yoga frá kennara frá yogastöðinni Heilsubót. Ýmislegt er búið að prófa s.s. körfubolti, fótbolti, skallabolti, blað, badminton, yoga, bootcamp, zumba, squash. Halldór er mikill Yoga unnandi. Orðið yoga þýðir meira jafnvægi þ.e. tenging huga og líkama. Hægt er að fara í yoga tíma og stunda ekkert yoga. Allir hafa innbyggðan einkaþjálfara sem er öndunin okkar. Við þurfum að ná önduninni í takt og skilja hve áríðandi þetta er. En þetta er nr.1, öndunin. Öndunin dýpkar og fer að teygja sig inn í hið venjulega daglega líf. Á meðan manneskja tekur einn andardrátt tekur einhver annar þrjá. Spurðu þig hvaða iðkun getur þú iðkað til dauðadags? Yoga og sund.
Fyrsti fundur nýstofnaðs faghóps um heilsueflingu á vinnustöðum var haldinn í dag og bauð Hildur Friðriksdóttir mannauðsráðgjafi hjá ProActive - ráðgjöf félaga velkomna. Fræðsluerindi hennar fjallaði um hvað veldur streitu í vinnuumhverfinu og vinnuskipulaginu og hvernig hægt er að draga úr henni. 50-60% tapaðra vinnudaga í ESB má tengja streitu og um 25% Evrópubúa eru með alvarlega streitu, þunglyndi og kvíðaröskun. Streita hefur áhrif á þróun sjúkdóma, þá sérstaklega geðsjúkdóma hjarta-og æðasjúkdóma. Hæfilegt álag er í sjálfu sér í lagi. Streituviðbrögð geta verið jákvæð en langvarandi streita er ekki góð. Þegar ójafnvægi er á milli þeirra krafna sem gerðar eru til okkar og þeirra úrræða sem við höfum til að standast kröfurnar.
Hvað hefur áhrif á streitustig starfsmannsins? Einstaklingurinn sjálfur, vinnuskipulagið, léleg stjórnun, ýmislegt utan vinnu. En hvað dregur úr streitu í vinnuskipulaginu? Að hafa áhrif á hvernig maður vinnur starfið sitt, verkefni hvorki of flókin né of einföld, starfshlutverk er skýrt, jafnrétti og sanngirni, félagslegur stuðningur - einkum frá yfirmanni, umbun fyrir vel unnin störf, forðast stöðuga tímapressu. Umbun getur verið í formi hróss.
Starfsmaðurinn þarf að finna út hvað veldur honum streitu og hvernig hann á að losa sig við hana, takast á við líðanina, leggja til breytingar. Inn á Dale Carnegy er kort sem hægt er að fara yfir og sjá hvernig dagurinn skiptist hjá okkur.
Hildur hvatti stjórnendur til að sýna gott fordæmi og taka þátt í hjólað í vinnuna og öllum heilsuátökum. Spá í hvað er verið að bjóða upp á í kaffistofunni. Jákvæðni í janúar, heilsuefling í febrúar o.fl.
Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri heilsuleikskólans Króks í Grindavík sagði frá hvaða stjórnunaraðferðum hún hefur beitt til þess draga úr streitu og auka samheldni og ánægju starfsmanna sinna. Stjórnendur þurfa að spyrja sig: Hvernig viljum við hafa þetta. Í leikskólum er há veikindaprósenta hjá starfsfólki. Hvernig tókst leikskólanum í Grindavík að lækka veikindaprósentu um 50% milli ára? Með jákvæðni, gleði og viðhorfi. Hvernig vinnustað/skóla viljum við hafa. Stofnanamenningin skiptir mestu máli. Enginn gerir það nema starfsmennirnir sjálfir. Hvernig samskipti vil ég hafa við börnin, foreldra og samstarfsfólk. Heimskaffiaðferðin: 1 hópstjóri á hverju borði, 4 á hverju borði, rætt saman og síðan fara 3 á hin borðin - allir blandast og ræða saman um sömu spurningarnar og til baka. Þetta hefur reynst best, því allir segja hvað þeir heyrðu út í heimi þ.e. á hinum borðunum og fara svo aftur heim. Í lokin er allt tekið saman og kynnt fyrir starfsmönnum. Stjórnunarteymi hittist reglulega og talar alltaf saman um það og taka ákvarðanir í sameiningu. Stjórnandi er fyrst og fremst fyrirmynd. Stjórnandi þarf að sækja sér námskeið og hugsa vel um sig. Hvað er ég að gera rétt og hvernig get ég bætt mig? Huldu hefur tekist að skapa traust umhverfi þar sem allir þora að tjá sig. Þau stunda saman jóga og þetta traust hefur orðið til þess að fólk treystir sér að tala um líðan sína kvíða o.fl. Þegar þú mætir í vinnuna, hugsaðu um hvernig manneskja þú ætlar að vera í dag. Það er ofsalega gott ef þú ert með erfiða starfmenn að setja upp vog, hugsa um hvað er jákvætt og hvað er neikvætt um viðkomandi.
Til þess að þið sem eruð skráð í faghópinn Heilsueflandi vinnuumhverfi fáið fréttir af starfinu þá er nauðsynlegt að uppfæra netfang og aðrar upplýsingar.
Fyrirhugaðir eru þrír fundir í vetur, einn fyrir áramót og tveir eftir áramót. Vonandi verða frekari fréttir af þeim viðburðum innan skamms.
Heilbrigðishópur fékk Inga Steinar Ingason verkefnisstjóra rafrænnar sjúkraskrár hjá Embætti Landlæknis (EL) til að koma og fjalla um stöðuna í rafrænni sjúkraskrá, þá vinnu sem er búið að leggja í rafræna sjúkraskrá og það sem framundan er í auknum aðgangi að gögnum milli stofnana innan heilbrigðiskerfisins.
Margir áhugaverðir punktar komu m.a. á að auka aðgengi lækna að lyfjagagnagrunni EL, einnig að vænst er nýrrar útgáfa af Sögu (rafræn sjúkraskrá) nú í febrúar og að unnið er að því að koma á uppflettimöguleikum milli stofnana. Nú er íslenska ríkið orðið eigandi ,,Heklu" og mun stuðla að fullri innleiðingu rafrænna lyfseðla.
Mörg önnur verkefni eru í vinnslu og hefur Velferðaráðuneytið jafnvel skoðað möguleikana á kaupum á heildstæðu sjúkraskrákerfi, en það er áætlað að kosti allt á bilinu 6-12 milljarða króna. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um neitt slíkt og því verður áfram unnið með Sögu-kerfið og samþættingu þess milli svæða amk. næstu 3 árin. Uppfærslum á Sögu verður fylgt eftir af starfsmönnum EL sem munu leggja áherslu á samræmi í skráningu.
Fundurinn var haldinn á Landsspítala og var mætingin góð eða um 70 manns.
Við þökkum Ástu Snorradóttur hjá Vinnueftirlitinu og Teit Guðmundssyni framkvæmdastjóra Heilsuverndar fyrir góð erindi.
Greinilega mátti heyra á báðum erindum að það hefur jákvæð áhrif á líðan og viðhorf starfsmanna til vinnu sinnar ef þeir fá stuðning og heilsueflingu í vinnunni. Ekki skipti minna máli að finna að næsti yfirmaður léti sér velferð starfsmanna sinna varða og hugi að heilsu þeirra og góðu vinnuumhverfi. Teitur sýndi einnig að mikið er verið að gera hjá fyrirtækjum sem hann þjónustar til að stuðla að velferð starfsmanna, öruggara starfsumhverfi og draga úr veikindafjarvistum.
Þetta er málefni sem verður áhugavert að fylgjast með áfram og sjá hver þróunin verður hjá fyrirtækjum á Íslandi. Hlökkum síðan til að sjá sem flesta í Velferðarráðuneytinu 14.nóv.
Heilbrigðishópur er kominn af stað með öfluga stjórn sem er að vinna af kappi að spennandi dagskrá. Það er mikill metnaður í hópnum. Dagskráin mun birtast á næstu dögum og hefjast í byrjun október.
Fylgist með og takið þátt í starfinu með okkur í vetur
Heilbrigðishópur Stjórnvísi var með morgunverðarfund 27. apríl. Þetta var fyrsti fundur eftir langt hlé og heppnaðist vel. Héðinn Jónsson sjúkraþjálfari kynnti verkefni sitt hreyfiseðla sem hann er að vinna í samstarfi með 5 heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði einnig frá framtíðarsýn verkefnisins og næstu áföngum. Þetta er virkilega áhugvert verkefni sem þarf að ná fótfestu á Íslandi og eru Svíar góð fyrirmynd hvað þetta varðar og hafa lagt mikið í hreyfingu sem meðferðarúrræði. Myndir af fundinum eru hér http://www.facebook.com/media/set/?set=a.334251833309440.79209.110576835676942&type=1
Við þökkum Héðni sérstaklega vel fyrir innlegg sitt og vonum að verkefnið haldi áfram að vaxa og dafna. Efni frá fundinum kemur fljótlega.
Vonir standa til að einn viðburður náist fyrir sumarið og verður hann kynntur fljótlega. Síðan er stefnt að því að koma að fullum krafti í haust með öfluga og áhugaverða dagskrá.
Kæru félagar faghóps um heilbrigðismál
Faghópur um heilbrigðismál er að fara af stað aftur eftir nokkra hvíld. Mikil þörf er á samstöðu og samstarfs milli heilbrigðisstétta og að við höfum vettvang til að deila þekkingu og reynslu um stjórnun, nýsköpun og verðmætasköpun á sviði heilbrigðismála.
Eftir tvær vikur mun Héðinn sjúkraþjálfari hjá Styrk kynna verkefni sitt hreyfiseðla sem styrkt var af Velferðarráðuneytinu. Þetta verkefni er gott dæmi um framþróun á sviði heilbrigðismála.
Að lokum langar mig að nefna að það vantar fleiri aðila í stjórn faghópsins. Aðila sem vilja taka þátt í að byggja upp sterkan og faglegan hóp sem vill láta í sér heyra og taka reglulega púlsinn á spennandi hlutum sem eru að gerast á heilbrigðissviði. Sendið póst á undirritaða á annalara@klak.is.
Virðingarfyllst
Anna Lára Steingrímsdóttir