Stjórnvísifélagar duttu heldur betur í lukkupottinn þegar þeir fengu að hlýða á Vin Harris frumkvöðul og nútvitunarkennara sem var kominn til Íslands á vegum Hugleiðslu og friðarmiðstöðvarinnar til að deila reynslu sinni af iðkun núvitunar. Það var Guðný Káradóttir sem kynnti Vin Harris í Nýsköpunarmiðstöð Íslands á síðasta fundi starfsársins föstudaginn þrettánda desember.
Vin Harris sagði að í núvitund væri jmikilvægt að róa hugann og skoða hvernig okkur líður. Hvað erum við að hugsa, hvernig líður okkur? Mikilvægt er að þrýsta ekki á neitt heldur skilja hvernig okkur líður. Við erum að skilja hvað gerist hjá okkur þegar eitthvað annað er að gerast, hvernig erum við að bregðast við? Við erum sífellt að segja okkur sögur af því hvernig við ættum að vera. Mikilvægt er að spjalla alltaf við sjálfan sig eins og hvern annan góðan vin, ekki vera of dómhörð við okkur sjálf.
Andardrátturinn er alltaf með okkur, það er allt annar andardráttur í dag en var í gær eða verður á morgun. Í núvitund er verið að skoða í huganum hvað er að gerast hér og nú. Eitt mikilvægasta sem manneskja getur gert fyrir sjálfa sig er að breyta um tón hvernig hún talar við sig. Talaðu í fallegum, rólegum góðum tón við sjálfan þig. Fólk þarf að æfa sig í að vera með sjálfu sér. Í núvitund byrjarðu að bera ábyrgð á eigin tilfinningum. Það eru milljónir hluta að gerast þarna úti og þú getur einungis valið um örfáa þeirra. Ef þú heyrir t.d. fullt af hljóðum og þau angra þig þá er mikilvægt að hlusta á hljóð og leyfa þeim að koma. Þá breytist oft hjá mörgum að hljóðin hætta að fara í taugarnar á þeim og þá hefur heilinn breyst.