Fundurinn var tekinn upp og aðgengilegur á Facebooksíðu Stjórnvísi. Ingibjörg Loftsdóttir og Sara Lind Brynjólfsdóttir kynntu gagnlegan fróðleik og ráð fyrir stjórnendur á velvirk.is sem er vefsíða forvarnarverkefnis VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Rúmlega 100 manns mættu á fundinn sem var einstaklega fróðlegur.
Við lifum í samfélagi þar sem sífellt fleiri virðast hellast úr lestinni vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda. Svo virðist sem hluti af þessum veikindum sé til kominn vegna langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. Velvirk-síðunni er ætlað að halda utan um upplýsingar og gagnleg ráð fyrir starfsmenn og stjórnendur í forvarnarskyni. Síðan fór í loftið í lok árs 2018 og nýtt efni hefur bæst við reglulega síðan.
Í þessari kynningu var farið yfir það efni síðunnar sem einkum snýr að stjórnendum. Nefna má efni sem talar til ástandsins vegna COVID-19 svo sem upplýsingar og ráð til stjórnenda um fjarvinnu, hvernig taka eigi á óöryggi og áhyggjum á vinnustað, hvernig virkja megi fólk á fjarfundum og bregðast við fjarfundaþreytu. Einnig var rætt um breytingar sem reikna má með að verði á skrifstofunni í kjölfar faraldursins.
Sagt var frá umfjöllun um stjórnunarhætti, traust, merkingu, viðurkenningu og virðingu, lífshættulega stjórnun, streitu stjórnandans, óréttlæti, opin vinnurými, hamingju, teymisvinnu og „Streitustigann“ - svo fátt eitt sé nefnt. Einnig bent á stutt viðtöl við stjórnendur sem hafa verið að fara nýjar leiðir á sínum vinnustöðum.