Faghópar um heilsueflandi vinnuumhverfi og mannauðsstjórnun buðu Stjórnvísifélögum að kynna sér Jóga Nidra á vinnustöðum á hádegisfyrirlestri íHáskólanum í Reykjavík. Erindið flutti Jóhanna Briem jóga Nidra leiðbeinandi en hún hefur leitt Nidra í fyrirtækjum við mikla ánægju starfsmanna. Hún byrjaði fundinn á kynningu á jóga Nidra, hvað það er og hvaða áhrif það getur haft á heilsu og vellíðan einstaklinga. Í lokin leyfði hún fundargestum að upplifa Nidra hugleiðslu þannig að allir fengu að upplifa sjálfir hvernig jóga Nidra virkar.
Í dag búa margir við of mikið álag sem getur valdið streitu og líkamlegum og andlegum einkennum. Rannsóknir sýna að of mikil streita og spenna valda bólgum í líkamanum sem eru áhættuþættir lífsstílstengdra sjúkdóma. Í jógafræðum er talað um jafnvægi taugakerfisins sem lykil að góðri heilsu og vellíðan. Í jóga Nidra er slökunarviðbragðið virkjað en í því ástandi endurnýjar líkaminn sig, það hægir á hjartslætti, blóðþrýstingur lækkar, öndun verður dýpri og líkaminn slakar á. Það dregur úr streitu, kvíða, hugurinn róast og svefninn verður betri. Ástæðan fyrir því að vera með jóga Nidra í fyrirtækjum er að efla heilsu starfsmanna, vellíðan og starfsánægju.
Meðfylgjandi er nánari lýsing á Jóga Nidra: Jóga Nidra (Amrit method of Yoga Nidra) er ævaforn hugleiðsluaðferð sem samanstendur af líkams-, öndunar- og núvitundaræfingum. Jóga Nidra kallast einnig „jógískur svefn“ en í hugleiðslunni eru þátttakendur leiddir markvisst inn í djúpt slökunarástand eins og verður þegar við sofum. Nidrað nýtir það sem líkaminn kann það er að sofna en í því ferli hægist ósjálfrátt á heilabylgjutíðni. Í jóga Nidra eru þátttakendur leiddir í gegnum þessar breytingar á heilabylgjutíðni en markmiðið er þó ekki að sofna, heldur halda vakandi vitund og dvelja í djúpri slökun milli svefns og vöku. Í þessu ástandi fara þátttakendur frá hinum hugsandi huga, inn í þögnina sem býr í okkur öllum, tengjast sínu sanna sjálfi og öðlast frelsi frá stöðugum hugsunum. Þeir fara frá því að hugsa og gera yfir í það að finna og vera (núvitund). Með reglulegri ástundun á Jóga Nidra er hægt að öðlast meiri hæfni í að taka eftir hugsunum, tilfinningum og viðbrögðum og læra betur að stýra eigin huga og líðan. Þegar hugurinn er kyrr er sem dæmi hægt að taka mun betri og skýrari ákvarðanir en þegar hugurinn er á fullri ferð.
Jóga Nidra virkjar heilunar- og endurnýjunarmátt líkamans, losar um spennu og streitu og kemur jafnvægi á ósjálfráða taugakerfið. Í Jóga Nidra losnar um hormón og taugaboðefni sem gera okkur hamingjusamari, afslappaðri, heilsuhraustari, lækka háan blóðþrýsting og draga úr bólgum í líkamanum sem í dag eru taldar orsök lífsstilssjúkdóma. Streita sem orsakast fyrst og fremst af of virkum huga og of mikilli spennu safnast upp í líkamanum ef við náum aldrei djúpri slökun inn á milli og veldur bæði líkamlegum og andlegum einkennum. Herbert Benson, MD hjartalæknir í Harvard hefur rannsakað það sem hann kallar „slökunarviðbragðið“ (e. relaxation response) í yfir 40 ár, en þar fer líkaminn í svokallað „parasympatískt“ ástand en það er slökunarhluti ósjálfráða taugakerfisins (sefkerfið) þar sem líkaminn gerir við sig. Hans viðfangsefni hefur verið að rannsaka áhrif hugleiðslu á þetta viðbragð og staðfesta niðurstöður ótvírætt ofangreind áhrif.
Það sem einkennir Jóga Nidra er ásetningur sem hver og einn setur sér fyrir hugleiðsluna og er nýttur í dýpsta hugleiðsluástandinu til að breyta neikvæðum forritum í undirmeðvitund yfir í styrkjandi jákvæðar staðhæfingar sem þjóna einstaklingum vel. Ásetningur er fræ sem við viljum sá til þess að leiða okkur á þá leið sem við viljum fara í lífinu. Í fyrstu tímunum setur leiðbeinandi vanalega ásetning það er jákvæðar og styrkjandi staðhæfingar sem geta átt við alla.
Jóga Nidra tímarnir byrja á stuttri hugleiðslu, nokkrum jógaæfingum eða teygjum og síðan leggjast þátttakendur á dýnu á gólfinu með púða og teppi og hugleiðslan fer fram í liggjandi stöðu.
Talað er um að 45 mínútna Jóga Nidra jafngildi 3 klukkutímum í svefni.
Jóhanna Briem hefur verið með námskeið í jóga Nidra í Endurmenntun Háskóla Íslands, auk námskeiða í tengslum við áhrif hugar á heilsu. Jóhanna hefur unnið við heilsueflingu í áratugi á mismunandi sviðum. Hún er með MA gráðu í áhættuhegðun og forvörnum, nám í náms- og starfsráðgjöf og er löggiltur sjúkranuddari. Forvarnir hafa lengi verið hennar áhugasvið og fellur jóga Nidra vel inn á það svið.