Fréttir og pistlar
Í tilefni afhendingar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012 hinn 13. mars nk. býður Stjórnvísi til hátíðarmóttöku í Turninum í Kópavogi kl. 16.00 til 18.00
Þetta er í senn verðlaunahátíð og ráðstefna þar sem þrír kunnir framkvæmdastjórar úr atvinnulífinu flytja erindi um mikilvægi fjárfestinga við endurreisn atvinnulífsins.
Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhendir verðlaunin og flytur stutt ávarp.
Þrír stjórnendur verða verðlaunaðir en yfir fjörutíu stjórnendur hlutu tilnefningu til verðlaunanna og má sjá nöfn þeirra á vefnum www.stjornvisi.is.
Yfirskrift erinda:
Mikilvægi fjárfestinga við endurreisn atvinnulífsins
- Hversu langt er fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja komin?
Dagskrá:
Setning hátíðar:
Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar og formaður Stjórnvísi.
Ráðstefnustjóri: Sigríður Þrúður Stefánsdóttir,
sérfræðingur á mannauðssviði Marels.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka: Fjárfestingar á
Íslandi - skrefin fram á við.
Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland: Við mótum framtíðina.
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: Ekki eftir neinu að bíða.
Dr. Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent, gerir grein fyrir vali dómnefndar á stjórnendum ársins 2012.
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhendir verðlaunin og flytur stutt ávarp.
Félagsmenn Stjórnvísi eru sérstaklega boðnir velkomnir ásamt öllu fag- og áhugafólki um stjórnun.Ókeypis aðgangur.
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2012 verða veitt í þriðja sinn 13. mars næstkomandi við hátíðlega athöfn í Turninum í Kópavogi. Forseti Íslands hr.Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin. Þrír verða útnefndir.
Stjórnvísifélagar voru hvattir til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja millistjórnendur/yfirstjórnendur í fyrirtækjum innan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr. Frestur til að tilnefna rann út 22. febrúar. Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; http://www.stjornvisi.is. Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.
Stjórnandinn verður að starfa hjá aðildarfyrirtæki Stjórnvísi - sjá aðildarlista hér.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda sem eru í Stjórnvísi og hvetja félagsmenn til áframhaldandi faglegra starfa og árangurs.
Dómnefnd skipa eftirtaldir:
Agnes Gunnarsdóttir, situr í stjórn Stjórnvísi og er framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Íslenska Gámafélagsins.
Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi Capacent.
Bára Sigurðardóttir formaður dómnefndar og mannauðsstjóri hjá Termu.
Helgi Þór Ingason, dósent og forstöðumaður MPM náms við HR
Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar.
Jón Snorri Snorrason lektor við Háskóla Íslands.
Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana
Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins http://www.stjornvisi.is.
Með kærri kveðju,
Gunnhildur Arnardóttir
Mímir-símenntun er fræðslufyrirtæki sem starfar á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar. Fyrirtækið hóf starfsemi sína í janúar 2003 og er í eigu Alþýðusambands Íslands. Fastráðnir starfsmenn eru tæplega 30 en auk þess kenna margir verktakar hjá Mími og vinna að fjölþættum verkefnum á vegum fyrirtækisins.
Meginmarkmið Mímis-símenntunar er að skapa tækifæri til náms fyrir fólk með stutta formlega skólagöngu og hvetja fólk á vinnumarkaði til símenntunar og starfsþróunar. Annað meginmarkmið er að bjóða upp á fjölbreytta íslenskukennslu fyrir útlendinga svo og margs konar tungumála- og frístundanámskeið.
Í námstilboðum Mímis-símenntunar er unnið markvisst að því að efla færni fólks og bæta þannig stöðu þess á vinnumarkaði. Skipulag námsins tekur bæði mið að þörfum vinnandi fólks og atvinnulífsins hverju sinni. Áhersla er lögð á samstarf við atvinnulífið um þróun fjölbreyttra námstilboða.
Mímir-símenntun er með þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem m.a. kveður á um að Mímir fylgi gæðakerfi og gæðamati sem Fræðslumiðstöðin þróar. Einnig er lögð áhersla á kennsluaðferðir sem henta fullorðnu fólki.
Það var aldeilis fjör á fundi faghóps um Sköpunargleði í morgun
Hér má sjá myndir frá sköpunargleðifundinum 6.mars 2012
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.298639733537317.71064.110576835676942&type=1
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, þetta á svo sannarlega við þegar litið er til þess hvað einstaklingar og fyrirtæki geta gert til að stuðla að umhverfisvænna samfélagi.
Þann 15. mars n.k.| klukkan 08:25 - 10:00 hjá N1, Dalvegi 10-14, 201 Kópavogur. 3 hæð ætlar Elva Rakel Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, að fræða okkur á lifandi og áhugaverðan hátt hvernig við getum sjálf verið drifkraftar breytinga í átt að umhverfisvænna samfélagi.
Hverjum vantar ekki „Road-map“ í gegnum umhverfismerkjafrumskóginn? Elva leiðir okkur í gegnum hann og kynnir einnig umhverfismerkið Svaninn.
Ekki missa af þessum áhugaverða fyrirlestri.
Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð var stofnuð í október 2011. Markmið með stofnun miðstöðvarinnar er að leita bestu aðferða fyrir fyrirtæki við innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð, stuðla að vitundarvakningu um samfélagsábyrgð fyrirtækja og hvetja til rannsókna á viðfangsefninu í samstarfi við háskólasamfélagið.
Það eru margvíslegar skilgreiningar á hugtakinu samfélagsábyrgð fyrirtækja en í sinni einföldustu mynd má segja að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð þegar það ákveður, að eigin frumkvæði, að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar samfélagsins. Fyrirtækið gerir meira en því er skylt samkvæmt lögum. Löng hefð er fyrir því að fyrirtæki styrki ýmiskonar starfsemi, á sviði menningar, íþrótta og ýmissa góðgerðarmála. Hugtakið samfélagasábyrgð hefur þróast frá því að snúast aðallega um góðgerðarmál yfir í að snerta alla þætti starfseminnar. Samfélagsábyrgð snýst því ekki eingöngu um hvernig fyrirtækin ráðstafa hagnaðinum heldur einnig hvernig þau starfa til að ná fram hagnaðarkröfum. Viðskiptasiðferði, umhverfismál, vinnuvernd, mannréttindi og aðgerðir gegn spillingu eru lykilhugtök þegar kemur að samfélagsábyrgð.
Stofnaðilar Festu eru Síminn, Landsbankinn, Lansvirkjun, Össur, Alcan og Íslandsbanki. Fulltrúar þessara fyrirtækjanna sitja í stjórn Festu og er Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs Símans stjórnarformaður. Framkvæmdastjóri Festu er Regína Ásvaldsdóttir M.Sc í viðskiptafræði (stjórnun og nýsköpun).
Festa er til húsa í Háskólanum í Reykjavík, að Menntavegi 1. Hægt er að nálgast upplýsingar um Festu á heimasíðunni http://festasamfelagsabyrgd.is/og á fésbókarsíðu Festu. Síminn er 5996600 og 6179600. Netfang framkvæmdastjóra er regina@ru.is
Sameiginlegur fundur gæðastjórnunar-, ISO- og CAF/EFQM hóps var haldinn í Landsbankanum fimmtudaginn 1. Mars undir yfirskriftinni: Samfélagsleg ábyrgð og viðmið til grundvallar innleiðingar. Hulda Steingrímsdóttir ráðgjafi hjá Alta, Finnur Sveinsson sérfræðingur Landsbankans í samfélagslegri ábyrgð og Sigurjón Þór Árnason frá Tryggingastofnun héldu öll fróðleg og skemmtileg erindi sem leiddu af sér afar áhugaverðar umræður. Fjallað var um ISO 26000 staðalinn um samfélagsleg ábyrgð, sagt frá stefnu Landsbankans í þeim efnum og hvaða viðmið eru þar til grundvallar, og að lokum var litið til sjálfsmatslíkana CAF/EFQM og hvernig mögulegt er að meta samfélagslegan árangur út frá þeim. Mæting á fundinn var mjög góð og sýnir hversu áhugaverður þessi málaflokkur er.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.296143320453625.70414.110576835676942&type=1
Nýsköpunarhádegi Klaks er haldið í hádeginu á hverjum þriðjudegi í Ofanleiti 2 (2.hæð) frá 12 - 13:00. Klak - Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins býður upp á hádegið í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Stjórnvísi. Nýsköpunarhópur Stjórnvísi boðar til fundarins.
Þema fundarins 6. mars nk. verður: Hugmyndaverkvangur - Hvað þarf til að háskólar, atvinnulíf og stofnanir skapi saman? Þegar hafa tveir frummælendur staðfest komu sína; Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors og Gísli Hjálmtýrsson, framkvæmdastjóri Thule investments. Bæði hafa þau mikla þekkingu úr skólakerfinu og atvinnulífinu og hafa áður lagt til aukna áherslu á samstarf atvinnulífs og skóla á Íslandi.
Fundarstjóri er Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks.
Bókhaldið oft vannýtt stjórntæki hjá smærri fyrirtækjum
Undanfarin misseri hefur efnahagsumhverfið á Íslandi breyst talsvert og hefur stærri fyrirtækjum farið fækkandi á meðan frumkvöðlar á hinum ýmsu sviðum hafa stofnað til eigin reksturs. Margir þeirra eru fyrst og fremst drifnir áfram af ástríðu sem tengist vörunni eða þjónustunni sem þeir eru að framleiða en skortir oft og tíðum þekkingu og/eða áhuga á sviði fjármála og reksturs fyrirtækja.
Eins og við vitum er meginreglan sú að allir þeir sem stundi rekstur, séu skyldugir til að halda utan um reksturinn með tvíhliða bókhaldi. Í starfi mínu vinn ég með mörgum stjórnendum smærri og meðalstórra fyrirtækja auk sjálfstæðra atvinnurekenda eða einyrkja. Í því starfi hef ég rekið mig á að bókhald er talsvert vannýtt stjórntæki hjá þessum hópi. Allt of algengt er að bókhaldið sé fyrst og fremst unnið af lagalegri skyldu eða „fyrir skattinn“ á meðan raunin er sú að bókhaldið er mikilvægt upplýsingakerfi sem ætti að nýtast sem kompás rekstursins. Í því eru upplýsingar sem ættu að hjálpa stjórnendum við að bregðast hraðar við breytingum í ytra og innra umhverfi fyrirtækisins. Nýta má það til að halda vel utan um framleiðslu og verkbókhald, þannig að hver króna og hver klukkustund nýtist sem best.
Í stað þess að vinna ársreikninga eftir á er mikilvægt að láta þá safnast upp jafnóðum og upplýsingar í þeim séu nýttar jafnóðum sem stjórntæki. Við, sem sinnum fjármálum þessa hóps atvinnurekenda, þurfum að leggja okkur fram við að upplýsingarnar frá okkur séu aðgengilegar og settar fram þannig að þær nýtist sem best þessum hópi. Þá er mikilvægt að smærri atvinnurekendur losni við hræðslu hvað bókhald varðar og læri að nýta sér fyrirspurnakerfi í bókhaldskerfum eða biðji þá sem sinna bókhaldi sínu um að setja upplýsingarnar upp með þeim hætti sem nýtist þeim.
Bókhaldið má ekki eingöngu nýtast sem sögulegar upplýsingar, árinu á eftir - heldur sem stjórntæki sem veitir upplýsingar í rauntíma um hvað megi betur fara til þess að reksturinn skili sem mestum árangri.
Brynhildur S. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Hagsýn bókhalds- og reksgtrarþjónustu og M.Sc. í Viðskiptafræði (stjórnun og stefnumótun).
Icelandair tók vel á móti faghópi um upplýsingaöryggi í morgun í NATURA. Hákon Ágústsson sérfræðingur Icelandair sagði frá því að nú væru að koma viðskiptavinir sem þekkja ekkert annað en Facbook, Twitter og aðra samféalgsmiðla. Mikilvægt er fyrir fyrirtæki að búa sér til leibeingar 1. hvernig
Hér má sjá myndir af fundinum:
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.294942257240398.70104.110576835676942&type=3
Það var fullt út úr dyrum á Nýsköpunarhádegi Klaks, SI og Stjórnvísi í dag enda þrír frábærir frummælendur á ferðinni sem bæði fræddu gesti og skemmtu á einstakan hátt eins og sjá má af myndum af fundinum. Þema dagsins var: Innganga á erlenda markaði - Hvaða leiðir eru færar?. Frosti Sigurjónsson, stofnandi Dohop hvetur frumkvöðla til að vera sem mest á vefnum, nota leitarvélabestun og nýta sér öll tækifæri sem gefast til þess að vera fyrirlesari og ræða um fyrirtækið sitt. Markaðssetning á vefnum er þolinmæðisvinna sem tekur a.m.k. fimm ár. Hjá Dohop kom vöxturinn smátt og smátt og nú er fræið þeirra byrjað að spíra. Vefsíða Dohop er í dag þýdd á 22 tungumálum. Áhugavert var að heyra að erlendis vill enginn versla við nýtt fyrirtæki en hérlendis eru allir hrifnir að því sem er nýtt. Að komast inn í heiminn þar sem ákarðanirnar eru teknar reynir á þolinmæðina og það er betra að vera númer eitt á einum stað en vera 0,01% í heiminum.
Þorgeir Pálsson, hjá Þróunarfélaginu hvatti fundarmenn til að spyrja sig af hverju ætla ég á markað og á hvaða markað. Mikilvægt væri að passa sig á að segja ekki frá hugmundum sínum eins og Teymi gerði þegar þeir sögðu með sex mánaða fyrirvara að þeir ætluðu að verða fyrstir með frítt dagblað í Danmörku, það urðu aðrir á undan þeim. Einnig væri mikilvægt að stíga ekki of stór skref í einu. Baldvin Jónsson hjá Sustainable Iceland kynntist lambakjötinu í gegnum fegurðarsamkeppnirnar. Forsenda allra góðra viðskipta er trúnaður og þolinmæði er það sem öllu máli skiptir þegar verið er að byggja upp traust. Baldvin segir Ísland eigi að móta sér þá stefnu að verða fyrsta sjálfbæra land í heimi, við erum með sjálfbært fiskstjórnunarkerfi og við stöndum okkur vel í orkumálum.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.294613467273277.70033.110576835676942&type=3
Þjónustu-og markaðsstjórnunarhópur Stjórnvísi hélt fjölmenna og einstaklega áhugaverða ráðstefnu í samráði við Íslandsstofu í febrúar. Friðrik Pálsson framkvæmdastjóri Hótels Rangár og formaður stjórnar Íslandsstofu stjórnaði ráðstefnunni af stakri snilld. Ingi Heiðar Bergþórsson þjónustustjóri hjá Hertz ræddi um mikilvægi þjónustu við innri viðskiptavini og mikilvægi þess að framlínan þurfi að vera í lagi. Hertz notar meðal annars þá aðferð að senda sitt fólk til annarra fyrirtækja til að meta þjónustu þeirra. Allir ferlar fyrirtækisins eru í myndrænu formi og þau nota NPS-skor, Net Promoter Score til að meta þjónustuna. Hertz hefur þá stefnu að veita framúrskarandi þjónustu og reynir ávallt að greina vanda viðskipta strax og leysa hann. Það ánægjulega er að samfara þessari stefnu hefur fyrirtækið greint aukinn hagnað.
Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Radisson Blu Hótel Sögu fræddi okkur um þjónustuhugtak Radison keðjunnar "Yes, I can" og sveigjanleika í þjónustu eftir þjóðernum. Mikið er lagt upp úr að allt sé í lagi með gestina og starfsmenn hvattir til að vera lausnarmiðaðir og að sýna frumkvæði að samskiptum við gestina. Ingibjörg nefndi að Englendingar væru þægilegir og seinir til vandræða, Bandaríkjamenn láta strax í sér heyra ef eitthvað er að á meðan að Þjóðverjar láta vita bréfleiðis eftir að heim er komið ef ekki var allt eins og talað var um. Radison notar þjónustukönnun sem heitir MEDALIA og er gerð í tölvupósti. Mikið er lagt í þjálfun starfsmanna því ánægt starfsfólk leiðir af sér ánægða gesti sem koma aftur og aftur.
Rögnvaldur Guðmundsson sem sér um rannsóknir og ráðgjöf innan ferðaþjónustunnar greindi frá einstaklega áhugaverðum staðreyndum um ferðaþjónustuna. Árlega fjölgar ferðamönnum sem koma til landsins um 8% og árið 2011 komu 540 þúsund ferðamenn til landsins. Norðurlandabúar eru fjölmennastir ferðamanna bæði á sumrin og veturna. Rögnvaldur hefur undir höndum ótrúlegt magn af gögnum um ferðaiðnaðinn.
Bjarnheiður Hallsdóttir framkvæmdastjóri hjá Katla Travel greindi frá því að skrifstofan er staðsett bæði í Þýskalandi og á Íslandi. Katla Travel hefur sérhæft sig í þýskum ferðamönnum sem fóru hvorki meira né minna en í 156 milljónir ferða árið 2010.
Á þessari slóð eru glærur og upptaka af ráðstefnunni
http://www.iceland.is/fundir/feb22
Hér má sjá myndir af ráðstefnunni
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.294592763942014.70027.110576835676942&type=1
Stjórnvísi boðar til fundar um nýsköpun í tæknigeiranum miðvikudaginn 14. mars nk. kl. 8:30- 10:00 hjá verkfræðistofunni Mannvit, Grensásvegi 1 í Reykavík.
Verkfræðistofan Mannvit býður til morgunverðar á húsnæði fyrirtækisins og í kjölfarið munu þrír fyrirlesarar halda erindi um nýsköpun í tæknigeiranum.
Eftirfarandi erindi verða flutt:
Gestur Valgarðsson hjá verkfræðistofunni Mannvit fjallar um „verkefnastjórnun“
Árni Geirsson, verkfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta fjallar um „Nýjar leiðir í atvinnuþróun á dreifbýlum svæðum“
Edda S. P. Aradóttir forðafræðingu og verkefnisstjóri CarbFix fjallar um „Bindingu koltvísýrings í berggrunni“
Með bestu kveðju og von um góða mætingu
Nýsköpunarhópur Stjórnvísi
Eyþór Ívar Jónsson
Margrét Ormslev
Magnús Guðmundsson
Nótt Thorberg
Sigríður Indriðadóttir
Málaflokkurinn öryggi er oft eins og óskilgetin afurð fyrirtækis; fáir vilja kannast við hann og enn færri vilja vera sá starfsmaður sem sinnir honum. Það að öryggismál séu oft litin hornauga, hindrar fólk í að sjá þá staðreynd að góð öryggisstjórnun eykur virði viðkomandi félags á margan hátt. Öryggis- og áhættustjórnun ætti að vera óaðskiljanlegur hluti af allri starfsemi fyrirtækisins en ekki utan við meginstarfsemina og líta skal á öryggi sem virðisaukandi framlag til allra vinnsluþátta frekar en að það þjóni aðeins þeim tilgangi að koma í veg fyrir tjón/tap.
Almennt getuleysi öryggisstjórnunar til að færa sönnur á virði sitt er alþjóðlegt vandamál. Sú staðreynd að oft er erfitt að sanna hvernig öryggi eykur arðsemi fyrirtækisins verður til þess að málaflokkurinn er oftar en ekki settur til hliðar og gerir hann að auðveldu skotmarki t.d. þegar niðurskurður er nauðsynlegur. Sumir þeirra öryggisstjóra sem hér starfa sætta sig við þá hugmynd að öryggismál séu fyrst og fremst kostnaður fyrir fyrirtækið þeirra og þeir koma ekki auga á samhengið á milli þess að minnka kostnað/tjón og að auka arðsemi/hagnað. Einnig stendur það öryggisstjórnun oft fyrir þrifum að margir „öryggisstjórar“ eru með öryggi á sinni könnu samhliða öðru aðalstarfi því oft er ekki kostnaðarlegt rými eða þörf fyrir öryggisstjóra í fullu starfi hjá minni og meðalstórum fyrirtækjum. Þetta getur dregið úr virði öryggis hjá viðkomandi fyrirtæki ef ekkert er að gert. Mörg fyrirtæki hafa því farið þá leið að fá utanaðkomandi sérfræðinga til að sinna málaflokknum eftir þörfum hverju sinni enda getur slíkt verið mjög hagkvæmt í mörgum tilfellum.
Öryggismál eru flókin málaflokkur sem tekur aldrei enda og er sífellt breytingum háður. Þeir sem vinna við hann þurfa margir aðstoð við vinnu sína og er VSI - öryggishönnun & ráðgjöf sérhæft fyrirtæki á því sviði sem sérhæfir sig í óháðri verkfræðiráðgjöf á sviði öryggismála.
Eyþór Víðisson.
Höfundur er löggæslu- og öryggisfræðingur hjá VSI - öryggishönnun & ráðgjöf
Nýsköpunarhópur Stjórnvísi kynnir Nýsköpunarhádegi Klaks á þriðjudaginn 28. febrúar, kl. 12 - 13:00 í O2 - ofanleiti 2 (st. 201). Þema dagsins er: Innganga á erlenda markaði - Hvaða leiðir eru færar. Frummælendur eru Frosti Sigurjónsson, stofnandi Dohop, Þorgeir Pálsson, hjá Þróunarfélaginu og Baldvin Jónsson hjá Sustainable Iceland. Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks er fundarstjóri.
Fundurinn er opinn öllum og hvetur nýsköpunarhópur Stjórnvísi meðlimi til þess að mæta og taka þátt í uppbyggilegum umræðum.
Í dag, 23. febrúar 2012, voru kynntar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2011 og er þetta þrettánda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 26 fyrirtæki í 9 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 200-700 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Tvær nýjar atvinnugreinar eru mældar í ár, flugfélög og matvöruverslanir.
Hæstu einkunn allra fyrirtækja hlýtur Nova, 73,4 stig af 100 mögulegum. Nova er því heildarsigurvegari Íslensku ánægjuvogarinnar árið 2011 og þar með einnig sigurvegari í flokki farsímafyrirtækja. Í fyrsta sæti í flokki banka er Íslandsbanki með einkunnina 59,7 og í flokki tryggingafélaga er Tryggingamiðstöðin með hæstu einkunnina, 69,0. HS orka er í fyrsta sæti raforkusala með einkunnina 63,3 og ÁTVR er efst í flokki smásölufyrirtækja með einkunnina 72,4. Atlantsolía er efst á meðal olíufélaga með einkunnina 70,1 og Byko er með hæstu einkunnina meðal mældra byggingavöruverslana, 60,1. Bónus er í fyrsta sæti í flokki matvöruverslana með einkunnina 65,3 og Icelandair sigrar í flokki flugfélaga með einkunnina 68,4.
Einkunn flestra geira og fyrirtækja hækkar á milli mælinga. Mesta hækkun atvinnugreinar milli ára er hjá olíufélögum, þar sem einkunn allra félaga hækkar frá árinu á undan. Þar er einnig að finna hástökkvara ársins, Orkuna, en ánægjuvogareinkunn fyrirtækisins hækkar um tæp 6 stig milli ára.
Hérna má sjá myndir frá Uppskeruhátíð Íslensku ánægjuvogarinnar 2011
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.291338767600747.69266.110576835676942&type=3
Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi, Samtaka iðnaðarins og Capacent. Nánari upplýsingar veita Davíð Lúðvíksson hjá SI í síma 5910114/8246114, netfang david@si.is og Jóna Karen Sverrisdóttir hjá Capacent Gallup í síma 5401018/8601018, netfang jona.sverrisdottir@capacent.is. Upplýsingar um Íslensku ánægjuvogina má finna á: http://stjornvisi.is/anaegjuvogin
Á nýsköpunarhádegi Klaks, SI og Stjórnvísi í dag var umræðuefnið Árangursrík fyrirtæki og voru þrír áhugaverðir fyrirlesarar; Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims og ritstjóri Vísbendingar, Gylfi Dalmann, dósent við Háskóla Íslands og Hilmar Janusson, þróunarstjóri hjá Össurri. Benedikt fjallaði um hversu auðvelt væri fyrir fyrirtæki að búa til ný störf og af hverju búa þau þá ekki til fullt af störfum? Það er vegna þess að fyrirtæki eru að búa til verðmæti þ.e. hagræða. Nýsköpun sem er árangursrík er þegar farið var að nýta roð og bein sem áður fyrr var öllu hent. Nýherji er einnig gott dæmi um innrivöxt hjá fyrirtæki, Titan var stofnað innan Nýherja og skapaði Nýherja mikinn hagnað þegar það var selt fyrir 300 milljónir. Gylfi Dalmann skrifaði grein í Vísbendingu um hvernig hægt væri að búa til ný störf. Hann hvatti fundarmenn til að lesa The Halo Effect, The Living Company höf: Arie de Geus, The fifth Discipline og margar fleiri bækur sem sjást á myndum sem teknar voru á fundinum. Hilmar fræddi okkur á því að 1% verðhækkun á vöru leiðir til 12% meiri arðsemi í EBITDU. Þegar ráðgjafar koma til fyrirtækja eins og Boston Consulting þá byrja þeir alltaf á að hvetja fyrirtækin til að byrja á að hækka vöruna. Í kreppunni hefur fjölda góðrar fyrirtækja verið sturtað niður. Það einkennir íslensk fyrirtæki að þau eru ekki með neina sölustjórnun. Árangursrík sölustjórnun skiptir öllu, árangursrík fyrirtæki laða til sín flott starfsfólk, Það þarf að auka sjálfstraust íslenskra fyrirtækja. Besta leiðin til að læra er að kenna.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.289986331069324.68992.110576835676942&type=1
Nýsköpunarhópur býður í samstarfi við Klak til Nýsköpunarhádegis á þriðjudögum í Ofanleiti 2, 2. hæð (st. 201). Að þessu sinni er þemað: Árangursrík fyrirtæki og atvinnusköpun.
Frummælendur eru Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heimur og ritstjóri Vísbendingar, Gylfi Dalmann, dósent við Háskóla Íslands og Hilmar Janusson, þróunarstjóri hjá Össurri. Þeir munu fjalla um árangursrík fyrirtæki og hvernig þau geta ýtt undir atvinnusköpun
Fundarstjóri er Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks.
Bráðalækningar eru ung sérgrein í læknisfræði segir Elísabet Benedikz yfirlæknir bráðamóttöku LHS sem tók vel á móti Stjórnvísifélögum í morgun. Elísabet ásamt Hilmari Kjartanssyni sérfræðingi í bráða-og almennum lyflækningum fræddu hópinn um að bráðalækningar einbeita sér að öllum bráðum veikindum og áverkum. Bráðadeild LHS hefur sett upp hjá sér gæðavísa og er dæmi um þá: komufjöldi sjúklinga, innlagnahlutfall og endurkomur. Um allan heim fer fjöldi á bráðamóttöku hækkandi, árið 2002 komu 52.900 á bráðamóttöku LHS og fjölgaði í 72.400 árið 2011. Innleiðing þessarar nýrru sérgreinar bráðalækninga hefur leitt til öflugri hliðvörslu, fækkun innlagna, aukins öryggis og betri þjónustu. Einstaklega vel var tekið á móti hópnum sem fékk skoðunarferð um alla bráðamóttöku LHS sjá myndir
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.289219851145972.68869.110576835676942&type=3
Siðferðileg ábyrgð fyrirtækja
Bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman sagði eitt sinn að eina siðferðilega skylda fyrirtækja væri að þau hámörkuðu hagnað sinn. Með þessu átti Friedman vitanlega ekki við að fyrirtæki ættu að fara sínu fram án tillits til laga og regnla, né að stjórnendur þeirra bæru ekki siðferðilega ábyrgð sem einstaklingar, heldur að fyrirtæki sem slík lytu aðeins hagnaðarmarkmiðum - annað væri blekking.
Margir hafa andmælt þessu og sagt að fyrirtæki sem slík geti haft siðferðisskyldur sem ganga lengra en lagaramminn. Setning siðareglna og fræðsla um siðfræði er nú vaxandi aukabúgrein ráðgjafa og háskólakennara.
En þótt fyrirtæki lúti lögum og reglum og þótt innan þeirra mótist venjur og menning, eru þau ekki siðferðisverur. Fyrirtæki taka ekki ákvarðanir, það gera stjórnendur þeirra og starfsmenn. Hegðun fyrirtækis má ávallt rekja til ákvarðana einstaklinga, þótt auðvitað geti greining þeirra stundum verið snúin.
Setning siðareglna getur vissulega verið gagnleg ef eftir þeim er farið. Sterk rök hníga þó að því að til að bæta hegðun fyrirtækja sé gagnlegast að bæta siðferði einstaklinganna, sem innan þeirra starfa. Þar er kannski mikilvægast að tryggja þeim frelsi til að breyta í samræmi við eigin samvisku.
Það er rétt hjá Milton Friedman að fyrirtæki hafa ekki siðferðisskyldur. Þær hafa aðeins stjórnendur og starfsmenn og skyldurnar eru nákvæmlega þær sömu í vinnunni og utan hennar. En það breytir ekki því að rétt eins og við getum sagt að samfélag sé gott eða slæmt getum við sagt að fyrirtæki sé gott eða slæmt. Þar ræður mestu hvort þeir sem starfa innan þess hafa frelsi til að breyta rétt og hugrekki til að gera það.
Þorsteinn Siglaugsson
Einungis 10-30% fyrirtækja ná þeim árangri sem stefnt er segir Sigrún Þorleifsdóttir ráðgjafi hjá Vendum og vísar þar í niðurstöður meistararitgerðar sinnar. Þar kemur jafnframt fram að 50-70% stjórnenda segja að þá skorti hæfni til að ná meiri árangri. Sigrún vísaði jafnframt í rannsóknir sem sína að fyrirtæki sem leggja áherslu á samskipti ná 47% betri rekstarniðurstöðu. Til þess að allt gangi upp þarf að vera áhugi til að framkvæma og allir þurfa að þekkja stefnu fyrirtækisins.
Eyþór Eðvarðsson ráðgjafi hjá Þekkingamiðlun segir ekkert betra en almennilegt vandamál til að þjappa hóp saman og ná árangursríkri niðurstöðu því þá eru allir með og skilja allt. Menn tala saman og leysa vandamálið. Eyþór vísaði í góðar bækur s.s. The wisdom of Teams, Leading outsides the lines, Five disfunction of a team, Built to Last, Good to Great og Living Company.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.285776694823621.68280.110576835676942&type=3