Fréttir og pistlar

Orkuveita Reykjavíkur er stærsti matvælaframleiðandi á Íslandi

Orkuveita Reykjavíkur er stærsti matvælaframleiðandi á Íslandi sagði Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri Orkuveitu Reykjavíkur á Leanfundi í morgun. OR skilgreinir sig í dag sem þjónustufyrirtæki í veiturekstri. Þörfin fyrir einfaldleikann varð þess valdandi að farið var af stað í Lean. Hjá OR ríkir mikil ISO menning. Kristjana Kjartansdóttir, gæðastjóri Orkuveitu Reykjavíkur
fór yfir þær miklu skipulagsbreytingarsem OR hefur gengið í gegnum á síðastliðnum misserum. Forsendan fyrir að ferlar virki eru mælingar og fengu fundarmenn að fara í þjónustuver OR og sjá þá mælikvarða sem eru sýnilegir öllum starfsmönnum á töflu.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.327123237355633.77575.110576835676942&type=1

Faghópur um heilbrigðismál

Kæru félagar faghóps um heilbrigðismál

Faghópur um heilbrigðismál er að fara af stað aftur eftir nokkra hvíld. Mikil þörf er á samstöðu og samstarfs milli heilbrigðisstétta og að við höfum vettvang til að deila þekkingu og reynslu um stjórnun, nýsköpun og verðmætasköpun á sviði heilbrigðismála.

Eftir tvær vikur mun Héðinn sjúkraþjálfari hjá Styrk kynna verkefni sitt hreyfiseðla sem styrkt var af Velferðarráðuneytinu. Þetta verkefni er gott dæmi um framþróun á sviði heilbrigðismála.

Að lokum langar mig að nefna að það vantar fleiri aðila í stjórn faghópsins. Aðila sem vilja taka þátt í að byggja upp sterkan og faglegan hóp sem vill láta í sér heyra og taka reglulega púlsinn á spennandi hlutum sem eru að gerast á heilbrigðissviði. Sendið póst á undirritaða á annalara@klak.is.

Virðingarfyllst
Anna Lára Steingrímsdóttir

Nýr faghópur - Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Stofnaður hefur verið nýr faghópur innan Stjórnvísi um samfélagsábyrgð fyrirtækja.
Markmið hópsins er að miðla þekkingu og reynslu á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja. Markmiðið er einnig að kynna stefnumótun á sviði samfélagsábyrgðar, innleiðingu slíkrar stefnu, helstu verkfæri sem eru notuðog nýjar rannsóknir á þessu sviði.
Vinna við stefnumótun um samfélagsábyrgð fyrirtækja er tiltölulega ný í fyrirtækjum á Íslandi. Nýlega hafa sex fyrirtæki sameinast um að setja á laggirnar miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sem ber nafnið Festa. Verkefnið framundan er að efla almenna umræðu um samfélagsábyrgð, bæði innan fyrirtækja og í samfélaginu almennt. Festa er nýr meðlimur í Stjórnvísi og aðilar tengdir Festu, munu leiða faghópinn ásamt öðrum áhugasömum.
Hópurinn kemur saman einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Fundirnir eru oftast með því sniði að sérfræðingar og/eða þeir sem hafa reynslu á þessu sviði eru fengnir til að fjalla um tiltekið málefni sem er nánar kynnt hverju sinni. Ennfremur verða kynntar nýjar íslenskar rannsóknir á þessu sviði, en BS og meistararitgerðum um þetta málefni hefur fjölgað verulega.
Hópurinn er ætlaður
stjórnendum, sérfræðingum, háskólafólki, fulltrúum samtaka og öðrum þeim sem hafa áhuga á samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Stjórnendur
Regína Ásvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja
Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð, Landsbankanum
Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs, Landsvirkjun
Ketill Berg Magnússon, mannauðsstjóri Skipta
Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi, Íslandsbanki

Vel heppnaður morgunverðarfundur um gæðastjórnun í mannvirkjagerð

Gæðastjórnunarhópur Stjórnvísi hélt morgunverðarfund þann 12. apríl um gæðastjórnun í mannvirkjagerð. Aðsókn á fundinn var góð en hann sóttu um 40 manns. Fjallað var um stöðu gæðastjórnunar í mannvirkjagerð, ný mannvirkjalög og kröfur sem þar eru gerðar auk afburðaárangurs í rekstri íslenskra fyrirtækja. Greinilegt er að áhugi er fyrir málefninu og að ósk fundargesta eru nú fyrirlestrar frá fundinum aðgengilegir á innri vef Stjórnvísi. Hérna má sjá myndir af fundinum:
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.324957620905528.77269.110576835676942&type=3

Úthrif - grein í Viðskiptablaði Mbl. höf: Þorsteinn Siglaugsson, Sjónarrönd ehf.

Úthrif

Þegar staða fyrirtækja er greind og stefna mótuð er yfirleitt einblínt á þætti sem tengjast rekstrinum sjálfum, viðskiptavinum, birgjum og samkeppnisumhverfi. Áhrif á umhverfi og samfélag að öðru leyti liggja oftast milli hluta. Þau ættu þó ekki endilega að gera það.
Úthrif (e. externalities) kallast öll þau áhrif, jákvæð eða neikvæð, sem rekstur fyrirtækja og stofnana hefur á umhverfi þeirra, en leiða ekki til kostnaðar fyrir fyrirtækið né hafa áhrif á verðlagningu vöru þess eða þjónustu. Mengun er þekkt dæmi um neikvæð úthrif. Gagnsemi sem nágrannar fyrirtækisins hafa af öryggiseftirliti er aftur dæmi um jákvæð úthrif. (Atvinnusköpun, áhrif á þjóðarframleiðslu eða virði vörumerkja eru hins vegar vitanlega ekki dæmi um úthrif.)
Þótt úthrifin valdi ekki beinum, sýnilegum kostnaði eða ávinningi fyrir fyrirtækið geta þau gefið vísbendingu um atriði sem hafa áhrif á rekstur þess. Fallegar og snyrtilegar höfuðstöðvar sem fegra umhverfið, öllum til hagsbóta, gætu líka laðað að hæft starfsfólk. Óþefur og mengun gætu fælt frá.
Hefðbundin greining stöðu og samkeppnishæfni tekur úthrifin ekki með í reikninginn. Áhrif þeirra geta þó oft verið umtalsverð. Því er skynsamlegt að vinna kerfisbundna greiningu á þeim jafnhliða hinni hefðbundnu greiningu. Hún getur leitt í ljós styrkleika, sýnt fram á tækifæri og afhjúpað veikleika og ógnanir sem haft geta umtalsverð áhrif á rekstur og samkeppnishæfni. Þótt fyrirtæki njóti ekki ávinningsins eða beri kostnaðinn af úthrifunum beint geta þau gefið vísbendingu um atriði sem rétt er að taka tillit til við stefnumótun.

Þorsteinn Siglaugsson
Sjónarrönd ehf.

Gæðastjórnun þarf ekki að kosta neitt.....

Gæðastjórnunar-og ISO hópur Stjórnvísi héldu sameiginlega ráðstefnu nýverið sem nær 100 manns sóttu. Markmið ráðstefnunnar sem bar yfirskriftina "Kostar gæðastjórnun ekki neitt ?" var að sýna fram á að það þarf ekki að kosta mikið og jafnvel ekki neitt að vera með gæðastjórnun. Mikil ánægja var með ráðstefnuna og höfðu ráðstefnugestir fyrir því að senda þakkarbréf. Einn gestanna skrifaði: "Mér fannst mjög gaman að hlusta á fyrirlesarana, allt svo vandað og gott. Stjórnvísi vinnur frábært starf og grasrótarstarfið er mikilvægt og skilar miklu. Það er alltaf gaman að fá að vera með ykkur. " Efni fyrirlesara er meðfylgjandi ásamt myndum af ráðstefnunni.
Meðfylgjandi eru myndir af ráðstefnunni.

http://www.facebook.com/media/set/?set=a.321343404600283.76426.110576835676942&type=1

Markmið og stjórn faghóps um Verkefnastjórnun

Stofnaður hefur verið faghópur um Verkefnastjórnun
Faghópur um verkefnastjórnun starfar á víðu sviði verkefnastjórnunar.
Markmið:
Markmið faghópsins er að skapa vettvang fyrir fræðslu, upplýsingar og þróun fyrir þá sem starfa að verkefnastjórnun eða hafa áhuga á þeim málaflokki.
Hvað er Faghópur um Verkefnastjórnun?
Viðfangsefni hópsins lúta að öllu er varðar verkefnastjórnun m.a. skilgreiningu og umhverfi verkefna, markmiðasetningu, skipulag, stjórnskipulag, upplýsingakerfi, áætlanagerð, ferla, gæðamál, ræs og lúkningu verkefna og reynslusögur.
Hvernig starfar hópurinn:
Faghópurinn er vettvangur fræðslu og umræðna um málefni er varða verkefnastjórnun. Hópurinn á samstarf við MPM félagið, fagfélag á sviði verkefnastjórnunar og stendur fyrir fræðsluerindum og fyrirtækjaheimsóknum þar sem sérfræðingar ræða um málefni á sviðinu. Á fundum skapast vettvangur fyrir þverfaglegar umræður þar sem unnt er að skiptast á skoðunum og deila þekkingu og reynslu á sviði verkefnastjórnunar.
Fyrir hvern
Hópurinn er fyrir verkefnastjóra, stjórnendur fyrirtækja og stofnana, og alla þá sem hafa áhuga á málaflokknum, óháð þekkingu eða reynslu.
Stjórnendur:

Starkaður Örn Arnarson Verkefnastjóri starkadur [hjá] internet.is
Óskar Friðrik Sigmarsson Sviðsstjóri ofs [hjá] staki.is
Anna Kristrún Gunnarsdóttir Verkefnastjóri annakristrun [hjá] gmail.com
Haukur Ingi Jónasson Forstöðumaður haukuringi [hjá] ru.is
Steinunn Linda Jónsdóttir Verkefnastjóri steinunnlinda [hjá] gmail.com
Berglind Björk Hreinsdóttir Deildarstjóri berglind.hreinsdottir [hjá] hagstofa.is

Nýr faghópur um Verkefnastjórnun vekur athygli á ráðstefnu nk.fimmtudag

Fimmtudaginn 12. apríl, stendur MPM félagið, fagfélag á sviði verkefnastjórnunar, fyrir glæsilegri hálfs-dags ráðstefnu á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (gamla Hótel Loftleiðir).
Félagið hefur tekið upp samstarf við nýstofnaðan faghóp á sviði verkefnastjórnunar hjá Stjórnvísi og markar ráðstefnan upphaf þess samstarfs, því eru félagsmenn Stjórnvísi og aðrir áhugasamir hvattir til að koma og taka þátt.
Dagskráin er metnaðarfull og spennandi, sjö fyrirlestrar í tveimur þráðum og þar af eru tveir erlendir fyrirlesarar.

Ráðstefnan ber heitið "Ný tækifæri" og á við öll þau nýju tækifæri sem skapast með hugmyndum, nýjum verkefnum og fyrir verkefnastjórnun á Íslandi.
Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu MPM félagsins, http://www.mpmfelag.is/?page_id=308
Skráningin fer fram hér: http://www.mpmfelag.is/?page_id=291
Ráðstefnan er einnig gott tækifæri til að stækka tengslanetið sitt og kynnast nýjum hugmyndum.

Hlökkum til að sjá ykkur!

MPM félagið
mpmfelag@mpmfelag.is
http://www.mpmfelag.is/

Á að endurvekja Íslensku gæðaverðlaunin?

Gæðastjórnunarhópur og CAF / EFQM Sjálfsmathópur Stjórnvísi stóðu fyrir sameiginlegum morgunverðarfundi þriðjudaginn 31. janúar undir yfirskriftinni: „Þarf að endurvekja íslensku gæðaverðlaunin“. Á fundinum kynnti Þór G. Þórarinsson, sérfræðingur á skrifstofu velferðarþjónustu hjá Velferðarráðuneytinu frá fyrirkomulagi Íslensku gæðaverðlaunin - lærir sem lifir. Á fundinum sagði Sigurjón Þór Árnason, gæða- öryggisstjóri hjá Tryggingastofnun, frá þeirri þróun sem orðið hefur á CAF/EFQM sjálfsmatslíkaninu á síðustu árum og aukinnar notkunar þess innan opinberrar stjórnsýslu í Evrópu. Þá sagði Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar þátttöku í keppninni um gæðaverðlaunin og þá þýðingu sem það hafði að veita þeim viðtöku. Í umræðum sem fram fóru að kynningum loknum kom fram mikill áhugi og vilja fundarmanna á því að taka upp aftur Íslensku gæðaverðlaunin til að efla gæðastarf íslenskra fyrirtækja og stofnana ennfremur áhuga á notkun á CAF/EFQM sjálfsmatslíkaninu. Í lok fundarins skoruðu fundarmenn á stjórn Stjórnvísi að íhuga að taka aftur upp gæðaverðlaunin

Raftákn - verkfræðistofa nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Raftákn er verkfræðistofa á rafmagnssviði stofnuð 1. júní 1976 á Akureyri af þeim Árna V. Friðrikssyni, Gerði Jónsdóttur, Daða Ágústssyni, Gunnari Ámundasyni, Jóhannesi Axelssyni, Sigrúnu Arnsteinsdóttur og Jóni Otta Sigurðssyni.

Núverandi eigendur Raftákns eru Anna Fr. Blöndal, Árni V. Friðriksson, Brynjólfur Jóhannsson, Finnur Víkingsson, Gerður Jónsdóttir, Gunnar H. Reynisson, Jóhannes Sigmundsson, Jóhannes Axelsson, Jón Heiðar Árnason, Jón Viðar Baldursson og Sigrún Arnsteinsdóttir.
Hjá Raftákni eru nú 25 starfsmenn, verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar, tækniteiknarar og skrifstofumaður.

Undanfarið hefur Raftákn verið að koma upp, skjalfesta og innleiða Gæðakerfi og nú er sú vinna það vel á veg komin að kerfið er tilbúið til vottunar. Fyrirtækið hefur samið við Vottun ehf um úttekt og vottun á kerfinu og vonast er til að þeirri vinnu verði lokið fyrir áramót 2010 - 2011.

Fyrirtækið er rekið í þrem deildum eða sviðum, byggingasviði, iðnaðarsviði og fjarskiptasviði.

Byggingasvið sér um hönnun allra almennra raflagna í íbúðarhús og stærri byggingar ásamt grunnlögnum s.s. lögnum í götur og vegi, stofnlagnir að mannvirkjum o.s.frv. Á byggingasviði starfa níu starfsmenn, hönnuðir og teiknarar.

Iðnaðarsvið sér um hönnun stýringa og stjórnkerfa, forritun og prófanir. Þar er um að ræða virkjanir, veitur, jarðgöng ásamt smærri verkum. Á iðnaðarsviði starfa 12 starfsmenn, hönnuðir og teiknarar.

Fjarskiptasvið sér um hönnun jarðsímalagna, gerð tengiskema og skráningar. Á fjarskiptasvið starfa þrír starfsmenn, hönnuðir og teiknari.

Raftákn tekur að sér hönnun raflagna, lýsingar og loftræsikerfa í ýmsar gerðir nýbygginga svo sem skóla, íþróttahús, verslunar- og skrifstofuhús af ýmsum stærðum og gerðum. Fyrir hafnir hefur stofan hannað lýsingu hafnarsvæða og landtenginu skipa.
Raftákn tekur að sér forritun iðntölva fyrir stjórnun verksmiðja, veitna, virkjana og fl. ásamt skjákerfum. Skjákerfin sem Raftákn hefur aðalega forritað eru unnin á hugbúnað frá Seven Technologies í Danmörku og nefnist IGSS. Yfir 90 kerfi eru í notkun á landinu og er allt notendaumhverfið á íslensku. IGSS er eina skjákerfið sem í boði er á íslensku.

Raftákn sá um alla hönnun raflagna í Hvalfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng og Héðinsfjarðargöng, þ.e. alla þætti er lúta að rafmagni. Raftákn sá einnig um hönnun lýsingar- og rafkerfa fyrir Hófsgöngin á Suðurey í Færeyjum, Múlagöng, Strákagöng og Vestfjarðagöng.
Forritun ljósastýrikerfa svo sem Instabus (EIB) hefur verið vaxandi þáttur í starfssemi Raftákns að undanförnu.

Eitt stærsta stýriverkefni Raftákns um þessar mundir er forritun stjórnkerfis fyrir Hellisheiðarvirkjun en það verk er unnið fyrir Siemens í Þýskalandi.

Seðlabanki Íslands - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra (sbr. breytingu á lögum 3. september 2009) er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Að auki skal Seðlabanki Íslands sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Þá hefur Seðlabanki Íslands einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.

Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum og öðrum lánastofnunun.

Helstu verkefni Seðlabanka Íslands eru annars þessi:

Seðlabankinn skal stuðla að stöðugu verðlagi
Seðlabankinn skal stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu
Seðlabankinn gefur út seðla og mynt
Seðlabankinn fer með gengismál
Seðlabankinn annast bankaviðskipti ríkissjóðs og er banki lánastofnana
Seðlabankinn annast lántökur ríkisins
Seðlabankinn varðveitir og sér um ávöxtun gjaldeyrisforða landsmanna
Seðlabankinn safnar upplýsingum um efnahags- og peningamál, gefur álit og er ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál

Virk starfendurhæfingarsjóður - nýtt Stjórnvísifélag

Hlutverk Virk Starfsendurhæfingarsjóðs er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.

Stefna Starfsendurhæfingarsjóðs er að:

skipuleggja ráðgjöf og þjónustu fyrir starfsmenn sem veikjast til lengri tíma eða slasast þannig að vinnugeta skerðist
stuðla að snemmbæru inngripi með starfsendurhæfingarúrræðum í samstarfi við sjúkrasjóði og atvinnurekendur
fjármagna ráðgjöf og fjölbreytt endurhæfingarúrræði sem miða að aukinni virkni starfsmanna sem búa við skerta vinnugetu til viðbótar því sem þegar er veitt af hinni almennu heilbrigðisþjónustu í landinu
stuðla að fjölbreytni og auknu framboði úrræða í starfsendurhæfingu
byggja upp og stuðla að samstarfi allra þeirra aðila sem koma að starfsendurhæfingu viðkomandi einstaklinga
hafa áhrif á viðhorf og athafnir í samfélaginu til að stuðla að aukinni virkni starfsmanna
styðja við rannsóknir og þróunarvinnu á sviði starfsendurhæfingar.
Meginverkefni Starfsendurhæfingarsjóðs eru að:

skipuleggja og hafa umsjón með störfum ráðgjafa sem starfa aðallega á vegum sjúkrasjóða stéttarfélaganna og munu aðstoða einstaklinga sem þurfa á endurhæfingu að halda. Starfsendurhæfingarsjóður greiðir kostnaðinn af störfum ráðgjafanna ásamt því að hafa umsjón og eftirlit með starfi þeirra og veita þeim faglegan stuðning. Sérstök áhersla er lögð á snemmbært inngrip með starfsendurhæfingarúrræðum í samstarfi við sjúkrasjóði og atvinnurekendur
greiða kostnað af ráðgjöf ýmissa fagaðila um mótun sérstakrar einstaklingsbundinnar endurhæfingaráætlunar, s.s. lækna, sálfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa, félagsráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa o.s.frv.
greiða fyrir kostnað við úrræði og endurhæfingu með áherslu á að auka vinnugetuna, til viðbótar því sem þegar er veitt af hinni almennu heilbrigðisþjónustu í landinu.
Önnur verkefni Starfsendurhæfingarsjóðs eru að:

stuðla að aukinni fjölbreytni og framboði úrræða í starfsendurhæfingu
byggja upp og stuðla að samstarfi allra þeirra aðila sem koma að starfsendurhæfingu
hafa áhrif á viðhorf og athafnir í samfélaginu sem stuðla að aukinni virkni einstaklinga
styðja við rannsóknir og þróunarvinnu á sviði starfsendurhæfingar.

Netógnir: Þróun eða stöðnun grein í Viðskiptabl.Mbl. höf:Tryggvi R. Jónsson, CISA Höfundur er liðsst

Netógnir: Þróun eða stöðnun
Talsvert hefur verið rætt um netógnir, tölvuinnbrot, upplýsingaöryggi, gagnaleka og annað slíkt undanfarin misseri. Ljóst er að slíkar ógnir eru að þróast gríðarlega hratt og það er umfangsmikið verkefni fyrir fyrirtæki, einstaklinga, þjóðir og stofnanir að halda í við þá þróun. Hvernig er hægt að bregðast við þessum síbreytilegu og auknu áhættum á árangursríkan og skilvirkan hátt?
Í hugum margra hafa fjárfestingar og fjármunir sem fara í upplýsingaöryggi verið „nauðsynlegur kostnaður“ líkt og iðgjöld trygginga eru, skili engu nema eitthvað komi uppá og eini ávinningur vinnunnar sé að útbúa handbækur til að uppfylla einhverjar ytri reglur eða kröfur. Ef sýn stjórnenda á upplýsingaöryggi er þannig er ávalt verið að bregðast við fortíðinni en ekki verið að undirbúa sig fyrir framtíðina. Því er talsverð hætta á að fjármunum og tíma sé varið í atriði sem eigi ekki lengur við í rekstri og umhverfi fyrirtækisins.
Skilvirkari og árangursríkari nálgun er að taka mið af stefnu, aðstæðum og kröfum hvers fyrirtækis og framkvæma aðstæðumiðað áhættumat. Til að slíkt geti tekist þarf að: Afla upplýsinga jafnt innan sem utan fyrirtækisins, bæði tæknilegra sem og rekstrarlegra upplýsinga; Greina upplýsingar og ráðast í hnitmiðaðar aðgerðir byggðar á grundvelli þeirrar greiningar.
Bætt upplýsingaöryggi felst ekki alltaf í því að gera meira og fylla inn í gátlistana. Það skilar meiri ávinningi með minni tilkostnaði að grípa til aðgerða sem eru í takt við markmið, stefnu og þróun fyrirtækisins og auka um leið skilvirkni og öryggi.
Það er því ekki ástæða til að stökkva til og framkvæma hluti sem mögulega eru óþarfir eða óskilvirkir. Árangursríkara er að staldra við og greina stöðuna og grípa svo til aðgerða. Greining og aðgerðir af þessu tagi taka tíma og því ekki eftir neinu að bíða.

Tryggvi R. Jónsson, CISA
Höfundur er liðsstjóri Áhættuþjónustu Deloitte á Íslandi
og sérfræðingur í upplýsingaöryggi.

Af hverju þurfum við byltingu í skólakerfinu?

Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri Mentor segir að Íslendingar þurfi byltingu í skólakerfinu vegna þess að nú er komin kynslóð sem mun lifa í allt öðru samfélagi en við lifum í dag. Vilborg er fylgjandi þeirri tækni að nemendur vinni og ræði saman í stað þess að þeir sitji eins og staðdeyfðir. Hún hvetur fyrirtæki til að fá nemendur til liðs við sig. Eftir að Mentor fékk til sín nema í MS í stefnumótun gjörbreytti fyrirtækið skiptiriti sínu. Atvinnulífið getur fært skólum mikla þekkingu með því að koma með sögur inn í tíma. Kennarar þurfa að passa sig á að gefa tíma í kennslu til hópavinnu. Það þarf skýra atvinnustefnu og við þurfum að spyrja okkur hvernig þjóðfélagi við viljum vinna í - Velferðastefnu.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.311257085608915.74205.110576835676942&type=1

Næsta Mannamót er 28.mars. Live Project og Hópkaup

Hugmyndin með Mannamóti er að skapa vettvang þar sem fólk spjallar saman í þægilegu og óformlegu umhverfi.

Haustið 2011 setti ÍMARK í gang Mannamót til að koma á laggirnar hlutlausum vettvangi þar sem félagar í hinum ýmsu samtökum geta hist og spjallað, myndað vinskap og styrkt tengslanetið. Stefnt er að því að hefja hvert Mannamót á stuttri kynningu, þar sem sagt er frá reynslusögu fyrirtækis, rannsókn, hugmyndafræði eða öðru áhugaverðu.

Samstarfssamtök: ÍMARK, Almannatengslafélagið, SÍA, SVEF, Hönnunarmiðstöð, Ský, FVH, RUMBA Alumni, MBA félag HÍ, Stjórnvísi, Innovit, Klak,KVENN, SFH og FKA.
Mannamótin verða alltaf síðasta miðvikudag í mánuði í vetur, á sama stað og á sama tíma.

Hvar: Kex hostel á Skúlagötu 28
Hvenær: Síðasta miðvikudag í mánuði
Tími: 17 - 18:30

Athugið að þessi viðburður er ókeypis og ekki þarf að skrá sig - bara mæta!

Næsta Mannamót 28.03.2012:
Fyrra erindið er frá Live Project en Hörður Kristbjörnsson, Daníel Freyr Atlason og Arnar Yngvason stofnuðu fyrirtækið árið 2010. Live Project er vefur er birtir myndefni í rauntíma, en þar getur hver sem er hlaðið upp myndefni til að deila upplifun sinni um leið og hún á sér stað. Live Project vann m.a. "myndavef" fyrir Roskilde Festival í Danmörku þar sem áhugafólk um skemmtun og tónlist gátu fylgst með hátíðinni og stemmingunni þó þeir gátu ekki verið á staðnum. Seinna erindið verður frá Hópkaupum en Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri og einn stofnenda vefsíðunnar Hopkaup.is flytur erindi um nýtt viðskiptamódel í vefsölu og auglýsingamiðlun þar sem samfélagsmiðlar eins og Facebook skipa stórann sess og hefur vakið verðskuldaða athygli á Íslandi að undanförnu.

Hittumst! Gott tengslanet er gulls ígildi!

Staðsetning mannauðsstjóra í skipuriti fyrirtækja. grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Gylfi Dalmann

Staðsetning mannauðsstjóra í skipuriti fyrirtækja
Mikil umræða hefur verið um stöðu mannauðsstjóra í skipuriti fyrirtækja undanfarin misseri. Þessi umræða er alls ekki ný af nálinni og segja má að tilvistarbarátta mannauðsstjóra undanfarna áratugi hafi snúist um það að eiga sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækja. Rökin fyrir því eru einföld, starfsmannamál eru fyrirferðamikill þáttur í rekstri og stjórnun fyrirtækja og það er nánast sama hvaða ákvörðun er tekin varðandi rekstur, sú ákvörðun tengist á einhvern hátt starfsmönnum. Því er mikilvægt að mannauðsstjóri eigi sæti í framkvæmdastjórn og sé þannig næst vettvangi í allri ákvörðunartöku. Eftir efnahagshrunið hér á landi má sjá ákveðna tilhneigingu hjá fyrirtækjum að breyta skipulaginu þannig að yfirmaður eða framkvæmdastjóri mannauðssmála sé færður niður í skipuriti, tekinn út úr framkvæmdastjórn og settur undir þjónustu, rekstrar- eða fjármálasvið. Erfitt er að átta sig á því hvaða rök liggja hér að baki en þessi þróun hefur ekki átt sér stað annars staðar með jafn ríkum hætti. Hugsanleg skýring er að fjöldi nýrra æðstu stjórnenda sem hefur tekið við stjórnartaumum fyrirtækja hefur þann bakgrunn að þeir þekki ekki til mikilvægi mannauðsstjórnunar. Það eru aðallega þrjú svið sem mannauðsstjórnun kemur inn á með einum eða öðrum hætti. Í fyrsta lagi þekking á samskiptum aðila vinnumarkaðarins, gerð kjarasamninga og túlkun þeirra og lausn ágreinings. Í öðru lagi þekking á rekstri og viðskiptum og helstu lykilkennitölum sem tengjast þeim svo sem fjármál og fjárhagsbókhald. Í þriðja lagi mannlegi þátturinn svo sem samskipti, virk hlustun, leiðtogafærni og breytingastjórnun. Hugsanlega er þessi þróun tímabundin og innan skamms munum við sjá þessa þróun snúast við. Það eru ekki eingöngu framkvæmdastjórar framleiðslu, markaðsmála, rannsókna og þróunar eða fjármála og rekstrar sem eru ábyrgir fyrir árangri fyrirtækja ef ætlunin er að ná árangri og þá er mikilvægt að rödd mannauðsstjórans heyrist á réttum stöðum.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent HÍ

Ráðstefnan ábyrgð og skyldur stjórnarmanna

Á annað hundrað manns eru búnir að bóka sig á þessa áhugaverðu ráðstefnu í Natura 22.mars kl.15:00-17:00. Allir velkomnir.
Stjórn faghóps um Stefnumótun og Balanced Scorecard

Þú setur þínar eigin hindranir, enginn annar

"Þú setur þínar eigin hindranir, enginn annar" segir Svanhildur Hall, framkvæmdastjóri Úrvalshesta ehf, sem hefur unnið með markþjálfa í reglulegum, vikulegum viðtölum, undandfarin 5 ár. Lífið snýst um að setja mörk og það er þessi snilld að breyta sér en ekki horfa sífellt á aðra. Hún hvetur fólk til að spyrja sig: "Hvernig manneskja vil ég vera?" Á einlægan og opinskáan hátt sagði hún frá því hvernig markþjálfun hefur hjálpað henni að taka ábyrgð á eigin lifja og skilja betur möguleika sína og takmarkanir. Einnig sagði hún frá því hve markþjálfunin hefur nýst mikið fyrir Úrvalshesta ehf, starfsmenn og hennar stjórnunarstíl.
Hérna má sjá myndir af fundinum

Hvernig á að halda í núverandi viðskiptavini - grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Sigurður Svansson

Hvernig á að halda í núverandi viðskiptavini

Eitt af því sem svo mörg fyrirtæki gera er að einbeita sér of mikið af því að afla sér nýrra viðskiptavina í stað þess að hlúa vel af þeim sem eru nú þegar til staðar. Auðvitað kemur sá tími hjá fyrirtækjum sem að þau verða að ná í nýja viðskiptavini, en þá er mikilvægt að gleyma ekki þeim sem eru nú þegar til staðar. Það er staðreynd að halda í núverandi viðskiptavini og jafnvel fá þá til að auka viðskipti við fyrirtækið getur verið arðbærara en að afla nýrra viðskiptavina.

Til eru margar leiðir til að hlúa betur að núverandi viðskiptavinum og mynda svo kölluð viðskiptatengsl sem auka líkurnar á því að viðskiptavinurinn verði lengur í viðskiptum hjá fyrirtækinu. Skipta má þessum tengslum upp í fjóra flokka.

Fjárhagsleg tengsl :
Útskýrir sig þannig að viðskiptavinur nýtur góðs af því að stunda viðskipti við fyrirtækið. Þetta getur t.d. verið í formi punktakerfis, þar sem viðskiptavinur safnar punktum í hvert skipti sem hann verslar við fyrirtækið sem hann getur svo seinna meir nýtt sér til að versla vöru eða þjónustu frá fyrirtækinu.

Félagsleg tengsl :
Mikilvægt er að viðskiptavinur upplifi sig sem persónu og að fyrirtækið láti sig varða hvernig hann upplifir þjónustuna, eins og t.d þjónustufulltrúi hjá símafyrirtæki. Með því að mynda þessi tengsl eykur fyrirtækið líkurnar á að viðskiptavinur versli meira, eða komi aftur til þeirra.

Aðlögun :
Hérna er fyrirtækið farið að aðlaga sig meira að viðskiptavinunum. Viðskiptavinir hafa margir hverjir sér þarfir og reynir því fyrirtækið að komast á mót við þessari þarfir.

Formbygging
Seinasta skrefið kallast svo formbygging, þar sem fyrirtækið aðlagar hverja einustu þjónustu að óskum viðskiptavinar og er því engin þjónusta eins. Með þessu fangar fyrirtækið viðskiptavininn í viðskiptum en þegar komið er á þetta stig eru viðskiptavinir mjög ólíkelgir til að færa sig yfir í annað fyrirtæki.

Það er þó mismunandi hvernig fyrirtæki fara að því að mynda þessi tengsl en það eru þrjár aðferðir sem fyrirtæki hafa verið að nýta sér sem mér fannst nokkuð áhugaverðar

Stofnaðu til persónulegra tengsla
Ein leið til að auka persónuleg tengsl við viðskiptavini þína er að halda utanum mikilvægar dagsetningar í lífi þeirra eins og t.d. afmælisdaga. Fyrirtæki að nafni The Betty Brigade hefur farið þessa leið og notar til þess Benchmarkemail.com (Newsletter Marketing Tool). Með því að nýta sér þjónustu Benchmarkemail getur eigandi The Betty Brigade sent viðskiptavinum sínum persónuleg skilaboð eða þakkað þeim fyrir hollustuna í gegnum ári hvenær sem þeim hentar.

"This keeps our company in the customers' minds in a positive way,"

Öllum langar að finna fyrir því að þeir séu sérstakir. Þetta er því fín leið til að láta viðskiptavini þína vita að þér er ekki sama um þá, þó að þú sért ekki að reyna að selja þeim eitthvað.

Vertu gegnsær í því sem þú ert að gera
Ef það er eitthvað sem getur aukið ánægju og tengsl viðskiptavinar við fyrirtækið þá er það gegnsæi. Fyrirtæki að nafni KMGI, næstum tvöfaldaði umsvif sín með því að leyfa viðskiptavinum sínum að fylgjast með framleiðslunni á raun tíma. Fyrirtækið opnaði aðgang fyrir viðskiptavini sína til að sjá hvaða verkefni væru tilbúin, meta kostnað fyrir daginn, vikuna eða mánuðinn. Eigandi fyrirtækisins Alex Konanykhin vill meina að þetta auki gegnsæi og traust, sem eru tveir mikilvægir þættir til að halda í viðskiptavini.

"One of the big issues a customer has is that there's too much away time — too much time where the customer feels they don't know what's going on,"

Viðskiptavinir vilja fá að taka þátt í öllu ferlinu. Þess vegna skiptir miklu máli að viðskiptavinurinn sé vel upplýstur. Þetta er því frábær leið til að gefa viðskiptavinunum tækifæri að fylgjast vel með verkefninu og henda inn athugasemdum ef það er eitthvað sem mættir betur fara.

Aðlöguð farsímatilboð
Eigandi Eppis´s, Dan Epstein tók upp á því snjallræði að nýta sér tæknina og byrjaði að senda sérstök tilboð í snjallsíma viðskiptavina sinna með hjálp Cardagin. Viðskiptavinir sem eru reglulegir viðskiptavinir en einhverja hluta vegna hafa ekki látið sjá sig í einhvern tíma geta fengið send skilaboð í snjallsímann sinn til að lokka þá aftur á veitingastaðinn með sérstökum tilboðum á uppáhalds réttum þeirra

"Going mobile sets us apart, and helps us keep our customers engaged."

Dan Epstein er hér að nýta sér stig þrjú í viðskiptatengslunum, aðlögun. Með því að senda viðskiptavinum sérstök tilboð á uppáhalds réttinum þeirra sýnir að fyrirtækið leggur metnað í að þekkja þarfir þeirra og á sama tíma myndar sterkari viðskiptatengsl.

Þó að þessar aðferðir séu sumar hverjar erfitt að herma nákvæmlega efir þá er klárlega hægt að taka hugmyndina og aðlaga hana að því sem fyrirtækið þitt gerir. Vonandi eiga þessir punktar eftir að fá þig til að hugsa betur um hvernig þú lítur á núverandi viðskiptavinina þína og að fyrirtækið fari frekar að einblína á núverandi viðskiptavini í stað þess að eyða allri orkunni í að fjárfesta í nýjum viðskiptavinum.

Grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Sigurður Svansson sölustjóri hjá Símanum

Fengu verðlaun Stjórnvísi

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi.
Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Íslenska gámafélagsins, Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og Þórsteinn Ágústsson, framkvæmdastjóri Sólar ehf. eru handhafar stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2012. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin við virðulega athöfn í Turninum. Dr. Ásta Bjarnadóttir, fulltrúi dómnefndar, flutti ræðu fyrir hönd dómnefndar. Mikið fjölmenni var við afhendingu verðlaunanna.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1.700 félagsmenn og koma þeir frá vel á þriðja hundrað fyrirtækja. Félagið er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun og að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í stjórnun. Félagið er 26 ára á þessu ári og hét áður Gæðastjórnunarfélag Íslands.
Þetta er þriðja árið í röð sem verðlaunin eru veitt og er horft meira til millistjórnenda við útnefningu þessara verðlauna - en flestra annarra verðlauna hér á landi.
Markmið stjórnunarverðlauna er að vekja athygli á faglegu og framúrskarandi starfi hins almenna stjórnenda. Allar nánari upplýsingar um stjórnunarverðlaunin s.s. dómnefnd, rökstuðning og tilnefningar má sjá á heimasíðu Stjórnvísi; www.stjornvisi.is
Myndatexti:
Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands. Frá vinstri: Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Þórsteinn Ágústsson, framkvæmdastjóri Sólar ehf. Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Íslenska gámafélagsins
Hér má sjá myndir frá hátíðinni
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.303756499692307.72357.110576835676942&type=3

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?