Fréttir og pistlar

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012.

Ágætu Stjórnvísifélagar

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012
Til að tilnefna smellið á hlekkinn: http://www.zoomerang.com/Survey/WEB22EMTWGAHPS
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2012 verða veitt í þriðja sinn í mars næstkomandi við hátíðlega athöfn í Turninum í Kópavogi. Þrír verða útnefndir. Stjórnvísifélagar eru hvattir til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja millistjórnendur/yfirstjórnendur í fyrirtækjum innan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr. Frestur til að tilnefna rennur út 18. febrúar. Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; http://www.stjornvisi.is. Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.

Stjórnandinn verður að starfa hjá aðildarfyrirtæki Stjórnvísi - sjá aðildarlista hér.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda sem eru í Stjórnvísi og hvetja félagsmenn til áframhaldandi faglegra starfa og árangurs.

Dómnefnd skipa eftirtaldir:
• Agnes Gunnarsdóttir, situr í stjórn Stjórnvísi og er framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Íslenska Gámafélagsins.
• Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi Capacent.
• Bára Sigurðardóttir formaður dómnefndar og mannauðsstjóri hjá Termu.
• Helgi Þór Ingason, dósent og forstöðumaður MPM náms við HR
• Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar.
• Jón Snorri Snorrason lektor við Háskóla Íslands.
• Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana
Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins http://www.stjornvisi.is.
Með kærri kveðju,
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Erlendar fjárfestingar í nýsköpun - Eru þær líklegar?

Klak í samstarfi við Samtök iðnaðarins bjóða til Nýsköpunarhádegis Klaks, þriðjudaginn 14. febrúar, kl. 12 - 13:00.

Þema: Erlendar fjárfestingar í nýsköpun - Eru þær líklegar?

Frummælendur:

Arnar Guðmundsson, hjá Investment in Iceland - Í hverju vilja erlendir fjárfestar fjárfesta?

Ingvar Stefánsson, hjá OR - Af hverju eiga útlendingar að vilja fjárfesta á Íslandi?

Bala Kamallakharan, hjá Auro Investment Partners - What is the attraction for investments in innovation to Iceland?

Fundarstjóri:

Eyþór Ívar Jónsson, hjá Klak - Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins

Í hverju ertu bestur? Grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Hafdís Erla Bogadóttir, markaðsstjóri Sólarræsti

Í hverju ertu bestur?
Mesti hagnaður fyrirtækja og einstaklinga liggur í því að gera þá hluti sem þau eru best í. Einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni og láta utanaðkomandi fyrirtæki sjá um aðra þætti fyrir sig s.s. bókhald, starfsmannastjórnun, mötuneyti og ræstingar. Þá eru fyrirtæki nú í síauknum mæli að færa rekstur fasteigna alfarið yfir til annarra.
Hvaða hagnaður er í því að fá utanaðkomandi fyrirtæki til að sjá um þessa hluti?
Stjórnendur geta betur einbeitt sér að sinni sérhæfni og meiri fagmennska er viðhöfð þar sem sérþjálfað starfsfólk sinnir störfunum. Með aukinni fagmennsku sparast oft miklir fjármunir þar sem ekki er verið að eyða í óþarfa og reynsla og þekking sérfræðinganna eykur hagkvæmni.
Hvað ræður valinu á þjónustuaðila?
Til að markmið um sparnað og fagmennsku náist þarf að hafa eftirfarandi í huga; Skilgreina vel þarfir og markmið, ekkert er dýrara en óþarfi. Býr þjónustuaðilinn yfir nægjanlegri þekkingu, vönduðum verkferlum og nægilega vel þjálfuðum starfsmönnum til að sinna verkefninu? Ekki hika við að biðja um meðmæli og sýnishorn af vinnubrögðum og verkferlum.
Sólarræsting hefur byggt upp víðtæka þjónustu á sviði ræstinga og fasteignaumsjónar. Á þessum árum hefur fyrirtækið þróað verkferla, gæðaeftirlit, starfsmannaþjálfun og innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis sem fyrirtækið var frumkvöðull í . Það var fyrsta þjónustufyrirtæki landsins sem fékk leyfi til að nota Svaninn, norrænt umhverfismerki sem gerir skýrar kröfur til gæða- og umhverfisstarfs.Fyrirtækið er eitt af stærstu ræstingafyrirtækjunum á höfuðborgarsvæðinu, með 130 starfsmenn. Á þessu ári fagnar fyrirtækið 10 ára afmæli með auknum vexti og framúrskarandi þjónustu að leiðarljósi.
Ertu að eyða orku í réttu hlutina?!

Matarræði skiptir svon sannarlega máli því ....

Matarræði skiptir svon sannarlega máli því 70% orsaka krabbameina er að finna í þeim lífsstíl sem við veljum okkur. Þetta staðhæfir Unnur Guðrún Pálsdóttir, sjúkraþjálfari, MBA og framkvæmdastjóri Happ ehf.. Skilaboðin hennar eru 'Vendu þig á heilbrigði', tengsl lífsvenja og heilbrigðis/sjúkdóma.
Þrjár mikilvægustu ákvarðanir hvers dags eru 1. Hvað ætla ég að borða í morgunmat 2)hádegismat 3)kvöldmat. Anna Lára Steingrímsdóttir, frumkvöðull sagði okkur frá nýsköpun í heilbrigðismálum - verum ábyrg og upplýst um eigin heilsu.
Myndir frá Nýsköpunarhádeginu má sjá hér
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.280342408700383.67383.110576835676942&type=3

Öryggið borgar sig - tækifæri í kreppu Grein e.Gísli Níls Einarsson Forvarnarfulltrúa VÍS

Öryggið borgar sig - tækifæri í kreppu
Við núverandi efnahags- og rekstraraðstæður hefur sjaldan reynt eins mikið á stjórnendur að hlúa að og efla öryggisþáttinn í starfsemi fyrirtækjanna. Stjórnendur fyrirtækja hafa iðulega í mörg horn að líta og á stundum leiðir það til þess að þeir einblína fyrst og fremst á kjarnastarfsemina sem hefur bein áhrif á vöxt fyrirtækisins og fyrir vikið sitja öryggismálin hugsanlega á hakanum.
Há dánartíðni og tugmilljarða tap vegna slysa og heilsutjóns

Í ársskýrslu Vinnueftirlitsins fyrir árið 2010 kemur fram að undanfarin ár hafa að jafnaði 4 - 5 einstaklingar látist við vinnu sína á ári hverju og um 7 - 8000 þurft að leita læknisaðstoðar vegna vinnuslysa. Algengast er að vinnuslys verði við fall á jafnsléttu t.d. á verkpöllum og hálu yfirborði. Sömuleiðis kemur fram í skýrslunni að rannsóknir bendi til þess að allt að jafnvirði 3-5% landsframleiðslu vestrænna ríkja glatist vegna slysa og heilsutjóns við vinnu. Þetta svarar til 40-50 milljarða króna á ári hérlendis. Stór hluti kostnaðarins leggst beint á eða óbeint á íslensk fyrirtæki.

Auðvelt er fyrir fyrirtæki að meta beinan kostnað vegna vinnuslysa svo sem lækniskostnað, fjarvistir og viðgerðarkostnað. Hins vegar getur reynst erfiðara fyrir fyrirtæki að greina óbeinan kostnað vegna slysanna. Til dæmis vegna glataðrar framleiðslu, aukins rekstrarkostnaðar og lakari gæða í kjölfar þess að þurfa að ráða inn eða þjálfa upp nýjan starfsmann. Annar óbeinn kostnaður getur verið töpuð viðskipti í kjölfar vinnuslyssins, sködduð ímynd fyrirtækisins og hugsanleg skaðabótamál.
Tækifæri til efla öryggismál
Þrátt fyrir ríka kröfu eigenda að draga úr rekstrarkostnaði má það alls ekki vera á kostnað öryggismála íslenskra fyrirtækja. Þar er átt við allt sem snýr að öryggi starfsfólks, vinnuumhverfi og framleiðslu. Því miður eru dæmi um að fyrirtæki freistist til að draga úr almennu viðhaldi á húsnæði, starfsumhverfi og framleiðslubúnaði sem getur leitt til þess að öryggi og heilbrigði starfsfólks sé ógnað. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar verða eigendur og stjórnendur fyrirtækja að hafa í huga að það er ekki aðeins skylda þeirra samkvæmt Vinnuverndarlögunum að sinna öryggismálum, heldur einnig siðferðileg og samfélagsleg skylda.
Í erfiðu rekstrarumhverfi og harðnandi samkeppni þurfa fyrirtæki að leita allra leiða til að viðhalda og bæta samkeppnisstöðu sína og framleiðni. Erlendar rannsóknir sýna að starfsfólk á Vesturlöndum hefur aldrei verið eins reiðubúið og nú til að taka þátt í breytingum og innleiða nýjar áherslur í starfsemi fyrirtækja. Óvissa um rekstrarhæfni þeirra og hugsanlegan starfsmissi gerir þetta meðal annars að verkum. Stjórnendur hafa því kjörið tækifæri til að breyta og hagræða þar sem upplagt er að gera öryggismál að ríkum þætti í kjarnastarfsemi fyrirtækisins.
Afhverju eru öryggismál hluti af kjarnastarfsemi?
Reynslan hérlendis og erlendis hefur marg oft sýnt að þegar æðstu stjórnendur leggja áherslu á að öryggismál séu hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækisins stuðlar það ekki einungis að öruggari vinnustað heldur líka að stöðugri og öruggari rekstri og þjónustu. Samkvæmt skráningum tryggingafélaga er minna um slys á starfsfólki og tjón á tækjum, búnaði og húsnæði hjá þeim fyrirtækjum sem sinna öryggismálunum vel en hjá þeim fyrirtækjum sem gera það ekki. Annar ávinningur af því að leggja áherslu á öryggismál er að viðskiptavinir upplifa að þeir skipti við öruggt og áreiðanlegt fyrirtæki. Ímynd fyrirtækisins verður betri og jafnframt verður það eftirsóknarverðari vinnustaður.
Í ljósi þess tuga milljarða kostnaðar sem hlýst af slysum og heilsutjóni við vinnu á Íslandi er ljóst að eftir miklu er að slægjast og í flestum tilfellum má draga úr rekstrarkostnaði með því að efla öryggismálin. Það er áskorun fyrir æðstu stjórnendur að þróa öruggt vinnuumhverfi sem er áhugavert, spennandi og arðbært. Þar sem starfsmenn líta jafnframt á öryggismál sem hagnýt, gagnleg og spennandi í stað hindrunar og kostnaðar við að sinna starfi sínu. Ef forysta og frumkvæði stjórnenda í öryggismálum er sterk þá er hægt að ná miklum árangri í lækka rekstarkostnað fyrirtækja.
Í næstu viku verður fjallað um hagnýtar aðferðir og aðgerðir sem stjórnendur geta ráðist í til að efla öryggismál á sínum vinnustað.

Frumkvæði og forysta í öryggismálum grein e. Gísla Níls Einarsson, forvarnarfulltrúa VÍS

Frumkvæði og forysta í öryggismálum
Reynslan sýnir að öflugir stjórnendur ná árangri jafnt í góðæri sem í hallæri og þeir bestu láta til sín taka á öllum sviðum og þar eru öryggismálin ekki undanskilin. Til að ná árangri í þeim þurfa æðstu stjórnendur að sýna frumkvæði, leiðtogahæfni og vera öðrum starfsmönnum til fyrirmyndar.
Líttu í eigin barm
Áður en stjórnendur hefja vegferð sína í öryggismálum verða þeir að líta í eigin barm og svara nokkrum einföldum spurningum eins og:
• Hvernig haga ég mínum eigin öryggismálum í og utan vinnu?
• Er ég góð fyrirmynd?
Ábyrgðin er mikil og athafnir hafa bein áhrif á starfsemi, starfsfólk og ímynd fyrirtækisins. Móta þarf stefnu um hvernig stuðla skuli að öruggum vinnustað og rekstri. Sífellt fleiri fyrirtæki á Íslandi starfa eftir svokallaðir „núllsýn“. Samkvæmt henni eru öll slys og tjón óviðunandi og litið svo á að unnt sé að koma í veg fyrir þau öll. Skýr sýn og áherslur æðstu stjórnenda fyrirtækja í öryggismálum auðvelda millistjórnendum og starfsmönnum að vinna og breyta samkvæmt þeim, hafa raunhæfar væntingar og sinna starfi sínu með ábyrgum og öruggum hætti.
Mynda traust
Til að fyrirtæki geti starfað í samræmi við eigin sýn í öryggismálum og náð settum markmiðum þarf að vera traust á milli starfsmanna og stjórnenda. Það myndast og vex eftir því hvernig starfsmenn skynja ásetning stjórnenda, samræmi í aðgerðum og eftirfylgni varðandi öryggisáherslur fyrirtækisins. Þetta krefst þess að stjórnendur mæti þörfum starfsmanna fljótt og örugglega, svari spurningum um öryggismál og bregðist vel við beiðnum. Þannig má senda skýr skilaboð um að öryggismál fyrirtækisins séu þeim hugleikin og mikilvæg.
Stundum er sagt að góðir leiðtogar búi ekki til fylgjendur, þeir búi frekar til aðra leiðtoga. Leiðtogar í öryggismálum fá samstarfsmenn sína til að temja sér það viðhorf að allir beri ábyrgð. Hver og einn sé „sinn eigin öryggisstjóri“ hvort sem er í vinnu eða heima fyrir. Einstrengingslegar reglur settar af stjórnanda og fylgt eftir með hálfum huga starfsmanna eru ekki vænlegar til árangurs. Starfsfólk þarf að fá tækifæri til að vera með í hugmyndavinnu um hvernig haga skuli öryggismálum og taka virkan þátt í þeim. Allir eiga að upplifa að þeir séu í sama liði og hafi sömu sýnina.
Athygli, samskipti og hvatning
Til ná árangri, hvort sem það er í íþróttum eða rekstri fyrirtækis þarf einbeitingin að vera 100% á viðfangsefnið. Því þurfa allir að skynja að öryggismálin séu í öndvegi. Sömuleiðis þarf að stuðla að opinni umræðu á vinnustaðnum um þessi atriði og hvetja starfsmenn til þátttöku.
Markvisst þarf að takast á við þær áskoranir og hindranir sem upp koma þegar ný sýn í öryggismálum er innleidd. Lykilatriðið er að ræða öll vafamál strax og leysa sem fyrst í samvinnu við starfsfólk. Sömuleiðis er nauðsynlegt að meta reglulega hvort fjármunir og tíma sem eytt er í öryggismálin skili sér í öruggari vinnustað, betri rekstri og bættri öryggismenningu. Meðal annars þarf að gera innri kannanir sem meta viðhorf, getu og upplifun starfsmanna á öryggismálum, halda reglulega öryggisfundi um stöðu mála og ræða við þá sem eru ekki enn sannfærðir.
Sýnileiki stjórnenda
Æðstu stjórnendur þurfa að sýna forystu og leiðtogahæfni í öryggismálum með einlægum, persónulegum áhuga og skuldbindingu gagnvart þeim. Þeir þurfa að vera sýnilegir á viðburðum sem tengjast öryggismálum vinnustaðarins, nýta öll tækifæri bæði innan og utan fyrirtækisins til að tjá sig um mikilvægi öryggismála og leggja sig fram við að hrósa starfsmönnum fyrir að vera öðrum til fyrirmyndar. Sannir leiðtogar geta stuðlað að bættri öryggismenningu og viðhaldið henni. Það getur þú líka.

Nýsköpun í heilbrigðisgeiranum, hvernig má skapa aukin verðmæti í bættri heilsu

Faghópur um Nýsköpun vekur athygli á nýsköpunarhádegi Klaks kl. 12:00-13:00 í dag í Ofanleiti 2.

Þema: Nýsköpun í heilbrigðisgeiranum, hvernig má skapa aukin verðmæti í bættri heilsu.

Frummælendur:

Unnur Guðrún Pálsdóttir, sjúkraþjálfari, MBA og framkvæmdastjóri Happ ehf.:
'Vendu þig á heilbrigði', tengsl lífsvenja og heilbrigðis/sjúkdóma.

Anna Lára Steingrímsdóttir, frumkvöðull: Nýsköpun í heilbrigðismálum - verum ábyrg og upplýst um eigin heilsu.
Nýsköpunarhádegi Klaks - í samstarfi við Samtök iðnaðarins.
Allir velkomnir

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Hulda Steingrímsdóttir M.Sc. Umhverfiss

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja
Fyrirtæki vinna nú markvissar að samfélagslegri ábyrgð og flétta hana inn í áætlanir til langs tíma. Auk kröfu um aukinn hagnað þurfa stjórnendur að glíma við væntingar hagsmunaaðila og taka ábyrgð á ákvörðunum og aðgerðum sem snerta umhverfi, efnahag og samfélag. Nýlegar rannsóknir sýna að fyrirtæki sem vinna skipulega með samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni vegnar betur, þegar horft er til lengri tíma.

Að vera hluti af lausninni en ekki vandamálinu
Lykillinn að vinnu við samfélagslega ábyrgð er nýskapandi hugsun, að hugsa hlutina út frá nýju sjónarhorni með það fyrir augum að vera hluti af lausninni en ekki vandamálinu. Nýsköpunin hjá fyrirtækjum getur orðið á fimm mismunandi plönum; í þróun vöru og þjónustu, með bættari ferlum í fyrirtækinu, með endurskoðun og breytingum á hagnaðarmódeli fyrirtækisins, með breytingum á viðskiptahugmynd eða breytingum innan atvinnugreinar. Hér á landi hafa fá fyrirtæki unnið skipulega með þessi mál en gera má ráð fyrir að fyrirtæki í útflutningi og/eða erlendu samstarfi séu þau sem fyrst finna fyrir þörfinni. Þá gildir að vera undirbúin.

Skyldu vera tækifæri í þessu?
Ávinningur er margþættur, t.d. betri yfirsýn og fyrirhyggja varðandi komandi kröfur, sem minnkar áhættu. Hagsmunaaðilar eru ánægðari, umhverfisáhrif minni, starfsmannamál betri, tækifæri opnast í vöruþróun, stjórnarhættir og neytendastarf batnar. Bætt samband við samfélag og hagsmunaaðila leiðir til hugmynda að gagnlegum verkefnum og orðsporið batnar.

Hulda Steingrímsdóttir
M.Sc. Umhverfisstjórnun
Ráðgjafi um samfélagslega ábyrgð hjá Alta

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012.

Ágætu Stjórnvísifélagar

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012
Til að tilnefna smellið á hlekkinn: http://www.zoomerang.com/Survey/WEB22EMTWGAHPS
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2012 verða veitt í þriðja sinn í mars næstkomandi við hátíðlega athöfn í Turninum í Kópavogi. Þrír verða útnefndir. Stjórnvísifélagar eru hvattir til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja millistjórnendur/yfirstjórnendur í fyrirtækjum innan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr. Frestur til að tilnefna rennur út 18. febrúar. Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; www.stjornvisi.is. Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.

Stjórnandinn verður að starfa hjá aðildarfyrirtæki Stjórnvísi - sjá aðildarlista hér.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda sem eru í Stjórnvísi og hvetja félagsmenn til áframhaldandi faglegra starfa og árangurs.

Dómnefnd skipa eftirtaldir:
• Agnes Gunnarsdóttir, situr í stjórn Stjórnvísi og er framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Íslenska Gámafélagsins.
• Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi Capacent.
• Bára Sigurðardóttir formaður dómnefndar og mannauðsstjóri hjá Termu.
• Helgi Þór Ingason, dósent og forstöðumaður MPM náms við HR
• Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar.
• Jón Snorri Snorrason lektor við Háskóla Íslands.
• Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana
Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins www.stjornvisi.is.
Með kærri kveðju,
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Stjórn Umhverfis-og öryggishóps vekur athygli á áhugaverðugri ráðstefnu

Stjórn Umhverfis-og öryggishóps vekur athygli á áhugaverðugri ráðstefnu
Forvarnir í fyrirrúmi - opin ráðstefna VÍS og Vinnueftirlitsins
Fimmtudaginn 2. febrúar 13:00 -16:00
Aðalskrifstofa VÍS, Ármúla 3, 5. hæð
Aðgangur ókeypis, takmarkaður sætafjöldi
Smeltu hér til að skrá þig og sjá dagskrá
http://vis.is/fyrirtaeki/forvarnir/radstefnur/forvarnir-i-fyrirrumi-2012/
Með góðri kveðju,
starfsfólk VÍS

Stjórn Nýsköpunarhópsins hittist þann 26. janúar 2012 til að skipuleggja starfið

Þann 26. janúar 2012 hittist stjórn nýsköpunarhóps Stjórnvísis á Kringlukránni í Reykjavík þar sem snæddur var afar gómsætur hádegisverður (gufusteiktur lax). Í stjórninni um þessar mundir eru Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir sem starfar hjá Landsbankanum (nyskopun@landsbankinn.is), Eyþór Ívar Jónsson sem starfar hjá Klak Nýsköpunarmiðstöð (eythor@klak.is) og Magnús Guðmundsson sem starfar hjá Landmælingum Íslands (magnus@lmi.is). Á fundinn mætti einnig Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísis (gunnhildur@stjornvisi.is) .

Eftirfarandi var ákveðið á fundinum:

  1. Að auglýsa eftir fleirum í stjórnina þannig að hún hafi á að skipa u.þ.b. 5 manns. Áhugasamir eru beðnir að lýsa áhuga sínum með því að senda tölvupóst á framkvæmdastjóra Stjórnvísis (gunnhildur@stjórnvisi.is)

  2. Að halda mánaðarlega nýsköpunarfundi með stuttum fyrirlestrum fram til vors, fyrst í Landsbankanum um miðjan febrúar (fjármálatengt), síðan fund í tengslum við verkfræðigeirann um miðjan mars og svo um miðjan apríl fund í tengslum við hugbúnaðargeirann.

  3. Að halda sértakan vorfund í maí þar sem áætlun næsta vetrar verði rædd og ákveðin í stórum dráttum.

Fleira var ekki ákveðið en margt fleira rætt. Gunnhildi er sérstaklega þakkað fyrir stuðningin við að koma þessum nýsköpunarhópi á laggirnar og greinargóð svör varðandi skipulag og tengslanet félagsins.

PS. Myndin með þessari frétt er af Eyþóri Ívari leiðtoga stjórnar Nýsköpunarhópsins, ekki fundust myndir af hinum í stjórninni í bili en það er nú bara til að skapa eftirvæntingu fyrir næstu fréttir af starfinu.

Ritari stjórnar
Magnús Guðmundsson

Fréttir frá fyrsta fundi ISO í janúar 2012

Fyrsti fundur ISO hóps var haldinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur fimmtudaginn 26. janúar. Þetta var umræðufundur um virkni og líf gæðakerfis og sérstaklega var rýnt í aðkomu stjórnenda og áhrif þeirra á uppbyggingu og virkni gæðakerfa. Sérstaklega var því velt upp hvernig æðstu stjórnendur takast á við meiri háttar breytingar sem verða hjá fyrirtækjum t.d. þegar nýir forstjórar eða stjórnendur koma inn í það skipulag sem lýst er í þróuðum gæðakerfum.

Guðmundur S. Pétursson gæðastjóri Landsvirkjunar var með framsögu og spunnust skemmtilegar og áhugaverðar umræður nánast allan tíman sem hann fór yfir mjög svo athyglisverða þætti og dróg fram sýn sem ekki er venjulega í umræðunni.

Vond færð og veður setti mark sitt á fundarsókn en aðeins helmingur þeirra sem skráð voru á fundinn komu.

Nýtt hráefni til stefnumótunar fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Karl

Nýtt hráefni til stefnumótunar fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi
Þverfaglegt samstarf í verkefninu Ísland allt árið hefur meðal annars skilað sér í útgáfu á fjölda skýrslna þar sem einstaka þættir í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið greindir. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Íslandsstofa hafa stýrt greiningarvinnunni í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar en vinnan sjálf var unnin í samvinnu við Ferðamálastofu, Byggðastofnun og Háskólann á Hólum. Skýrslurnar sem hér um ræðir eru átta talsins, þrjár þeirra beinast að innviðum ferðaþjónustunnar og fjalla meðal annars um samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á alþjóðavísu, niðurstöður netkönnunar sem unnin var síðastliðið sumar og auk þess um sérstöðu ákveðinna svæða og umfjöllun um klasa og almenna tölfræði. Fimm skýrslur voru unnar á sviði hagnýtra viðmiða (e.benchmarking) þar sem gerð var úttekt á stöðu fimm landa á sviði ferðaþjónustu. Samanburðarlöndin voru Finnland, Kanada, Noregur, Nýja Sjáland og Ísland. Allar þessar skýrslur er hægt að nálgast gjaldfrjálst á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Íslandsstofu og hjá Ferðamálastofu.
Meginmarkmið þessarar vinnu er að afla hráefni í almenna stefnumótun fyrir greinina en jafnframt nýtist þessi vinna einstaka ferðaþjónustuaðilum við að móta sér ramma um sína eigin starfsemi og einstaka samstarfsverkefnum við að ná enn frekari árangri. Ljóst er að verulegur vöxtur er í ferðaþjónustu hér á landi og býr greinin við alla kosti og galla þess að vaxa hratt. Áskorunin snýst ekki eingöngu um að lengja ferðamannatímabilið og brúa tómarúm vetrarmánuðanna heldur einnig að greina hvort greinin sé að ná til þeirra ferðamanna sem hún sækist eftir og hvernig eigi að standa að uppbyggingu á innviði, upplifun og afþreyingu. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að líta til framtíðar, ekki bara til næsta tímabils og miða uppbyggingu og markaðssetningu með hliðsjón af framtíðartækifærum.
Nefna má nokkur atriði sem huga þarf sérstaklega að í þessu sambandi. Það fyrsta er arðsemi greinarinnar sem ekki er viðunandi. Meginástæða þess er léleg nýting fjárfestingar í greininni á lágönn. Fleira hefur áhrif og má þar nefna markhópaval greinarinnar og val og skipulag upplifunar og afþreyingar. Gæðamál í viðtækri merkingu þess orðs er annað atriði. Þarna kemur innri viðmið um góða stjórnunarþætti og þjónustu ferðaþjónustustaða inn í myndina, umgengni um náttúruperlur og uppbygging á þeim. Síðan og ekki síst er það þolinmæði og þrautseiga að leyfa langtímasjónarmiðum að ráða för við þróun greinarinnar og markaðssetningu og nýta þannig sem best það fjármagn sem greinin hefur til umráða til að ná ásættanlegum árangri. Meðal annars á grundvelli framangreindra gagna er núna verið að vinna að stefnumótun greinarinnar og verða umrædd atriði tekin til umfjöllunar þar og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Á velheppnuðu Ferðamálaþingi sem haldið var á Ísafirði á haustmánuðum 2011 komu fram mörg áhugaverð sjónarmið og nýjar víddir sem ekki hafa verið ofarlega í umræðunni síðustu ár. Skoða má erindin á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Ísland: www.nmi.is. Nauðsynlegt er fyrir grein eins og ferðaþjónustuna að tileinka sér nýja hugsun við lausn sinna viðfangsefna í stað hefðbundinna lausna þar að segja „að gera meira í dag miðað við það sem gert var áður“.
Höfundur er Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstofu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Undirritun samstarfssamnings milli Endurmenntunar Háskóla Íslands og Stjórnvísi

Kristín Jónsdóttir Njarðvík endurmenntunarstjóri EHÍ og Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi undirrituðu nýlega samstarfssamning sem gildir fram í janúar 2014. Stjórnvísi vekur athygli félagsmanna sinna á því að Endurmenntun lánar Stjórnvísi kennslustofur fyrir fundi faghópa að því tilskyldu að þær séu lausar og býður faghópum Stjórnvísi að framkvæma fræðslukönnun þeim að kostnaðarlausu. Markmið könnunarinnar er að auðvelda stjórn faghópsins og Endurmenntun að koma enn betur til móts við þarfir félagsmanna með öflugum fagfundum faghópsins eða námskeiðum Endurmenntunar. Félagsmenn fá 15% afslátt af þeim námskeiðum sem auglýst eru sem samstarfsverkefni Endurmenntunar og Stjórnvísi.

Velferðaráðuneytið er með 43,6% af útgjöldum ríkisins

Fjóla María Ágústsdóttir formaður faghóps um Stefnumótun og Balanced Scorecard kynnti stefnumótunarvinnu sem velferðaráðuneytið hefur verið að vinna í ásamt því að fara yfir starfshætti og verklag ráðuneytisins. Áhugavert var að heyra að velferðaráðuneytið er með 43,6% af heildarútgjöldum ríkisins og að 13% af heildarútgjöldum ríkisins eru vextir. Efni frá fundinum verður birt á innrivef og er það einkar áhugavert.
Hér má sjá myndir af fundinum

Á annað hundrað manns sóttu Hrós-fundinn hjá Stjórnvísi í ófærðinni

Það ríkti mikill áhugi og kátína á fundi Stjórnvísi í morgun um Hrós sem stjórntæki á vegum Þjónustu-og markaðsstjórnunarhóps. Örn Árnason kenndi okkur kúnstina að hrósa á réttan hátt fyrir það sem vel er gert. Hann fór jafnframt í grunnreglurnar um hvernig á að hrósa þannig að það fari ekki á milli mála hvað er hrósað fyrir. Það var fyrirtækið Gerum betur www.gerumbetur.is sem bauð Stjórnvísifélögum upp á þennan áhugaverða fyrirlestur í fannkomunni.
Hér má sjá myndir frá fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.270629083005049.65806.110576835676942&type=1

Metnaðarfull og spennandi vordagskrá

Stjórnir faghópa kynntu vordagskrá sína í Nauthól á fimmtudag. Dagskrá Stjórnvísi verður bæði metnaðarfull og spennandi seinni hluta vetrar og verða strax í næstu viku fjórir áhugaverðir og ólíkir fundir.
Myndir af fundinum má sjá hér
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.269316853136272.65552.110576835676942&type=3

Leiðtogar í landsliðinu

Leiðtogar í landsliðinu
Leiðtogafræði eru fyrirferðamikil innan stjórnunar og oftar en ekki er rætt um mismunandi leiðtogastíla. Ég segi á bókarkápu nýútkominnar bókar Sigurðar Ragnarssonar háskólakennara um forystu og samskipti að tískustraumar samtímans í stjórnun snúist um að straumlínulaga rekstur fyrirtækja og að gefa starfsfólki meiri völd til að taka ákvarðanir. Við þær aðstæður sé hins vegar aldrei eins mikilvægt að hafa stekra leiðtoga sem setja stefnuna, hafa hana skýra, fái fólk til að ganga í sömu átt og hvetji það til dáða að sameiginlegu markmiði.

Íslenska landsliðið keppir núna á Evrópumótinu í handbolta í Serbíu. Nokkuð hefur verið rætt um að leiðtoginn í liðinu sé fjarverandi, þ.e. Ólafur Stefánsson. Guðjón Valur Sigurðsson er núna fyrirliði liðsins. En er Guðjón Valur leiðtogi eða verkstjóri hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni? Þeir eru báðir leiðtogar. Í leiknum á móti Króötum sást vel að Guðjón býr bæði yfir eiginleikum leiðtoga og stjórnanda. Hann hvatti, fór fyrir liðinu, stuðlaði að liðsheild og tók af skarið. Eftir leikinn kom hann vel fyrir í sjónvarpi, svarði fyrir hópinn, útskýrði herfræðina, var bjartsýnn og uppbyggilegur þótt fyrsti leikurinn hefði tapast naumlega. Ekki efa ég að utan vallar er Guðjón prímusmótor sem ýtir undir jákvæð og uppbyggjandi samskipti leikmanna - og að þeir leggist á eitt. Hann er góð fyrirmynd.

Um íslenska landsliðið í knattspyrnu hafa blaðamenn sagt að þar vanti hinn sterka leiðtoga, utan vallar sem innan, og það sé hluti af vandanum. Þetta leiðtogavandamál eigi líka við um 21 árs liðið.

Það er mikilvægt að þora að vera öðruvísi. Guðjón Valur reynir ekki að vera Ólafur Stefánsson. Þeir hafa mismunandi stíl. Báðir bera það með sér að vera leiðtogar - sem og auðvitað Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari liðsins. Einhver segði að hann væri hinn eini sanni leiðtogi liðsins. Hann væri liðið. Hann hefur náð afburðagóðum árangri. Hefur skýra stefnu, vit á því sem hann er að gera og lætur leikmenn ganga í sömu átt. Leiðtogar liðsins í Serbíu eru þess vegna tveir.

Vissir þú að ef Henry Ford hefði verið kona þá myndum við öll keyra um á rafbílum í dag

Gísli Gíslason stjórnarformaður Northern Light Energy tók vel á móti Stjórnvísifélögum í morgun. Hann kom hópnum á óvart með því að segja okkur frá því að Clara Bryant eiginkona Henry Ford hefði einungis ekið um á rafmagnsbíl. Hvað ef Henry Ford hefði verið kona, þá myndum við keyra um á rafbílum í dag. Árið 2012 er árið þar sem allt mun gerast hjá Northern Light Energy "Nýtt upphaf". Árið 2011 var rafbíll bíll ársins í Evrópu. Það var áhugavert að heyra að það þarf einungis einn hverfil eða túrbínu í Kárahnjúkavirkjun til að keyra allan bílaflota landsmanna þ.e. ef allir skipta yfir í rafmagnsbíl.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.266612296740061.64998.110576835676942&type=3

Hefur þú áhuga á að skrifa grein í Viðskiptablað Mbl.?

Vikulega birtast áhugaverðar greinar í Viðskiptablaði Mbl. skrifaðar af Stjórnvísifélögum. Þessar greinar eru mikið lesnar og því áhugi fyrir að halda samstarfinu áfram.
Markmiðið er að þetta séu greinar um hagnýtt efni fyrir fyrirtæki til að lesa ásamt því að vera kynning á Stjórnvísi, ykkur sem einstaklingum og þeim fyrirtækjum sem þið starfið hjá.
Greinarnar hafa verið birtar á bls. 8 í Viðskiptablaðinu og lengdin er 1.640 slög með línubilum (characters with spaces) ásamt ljósmynd af viðkomandi.
Greinarnar óskast sendar á póstfangið gunnhildur@stjornvisi.is

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?