Fréttir og pistlar

Áhugaverð haustdagskrá Stjórnvísi kynnt 1.september

Allir Stjórnvísifélagar eru hvattir til að mæta þegar stjórnir faghópa kynna áhugaverða haustdagskrá sína. Kynningin verður haldin fimmtudaginn 1.september kl.15:30 í Ofanleiti 2.

Nýr vefur Stjórnvísi opnaður

Það er Stjórnvísi mikil ánægja að tilkynna félgsmönnum að nýr vefur hefur verið opnaður. Vefurinn er í vinnslu og verið er að setja inn upplýsingar.

Mannauður er sterkasta vopnið

Grein skrifuð af Júlíu Þorvaldsdóttir, sviðsstjóra farþegaþjónustusviðs Strætó birtist í Viðskiptablaði Mbl. 12.maí. 

Mótun mannauðsstefnu:  Það er nauðsynlegt að fyrirtæki geri upp við sig hvernig það vill kynna og sýna mannauð sinn fyrir hagsmunaðilum. Hægt er að segja að þau fyrirtæki sem aðhyllast nútíma stjórnunarháttum hafi mörg hver valið að kynna sig í gegnum mannauð sinn og tefla honum fram sem sterkasta vopninu til árangurs.
Mannauðsstefna segir til um hvernig fyrirtæki vill líta út gagnvart starfsfólki sínu og getur verið öflugt tæki sem tengir saman leið starfsfólks og stjórnenda að sameiginlegum markmiðum og leggur að jöfnu hagsmuni stefnu fyrirtækis og starfsfólks. Hægt er að líta á mannauðsstefnu sem áætlun í mannauðsmálum sem byggir á að fyrirtæki hafi rétta aðila, á réttum stað, í réttum störfum hverju sinni. Tilgangur mannauðsstefnu innan fyrirtækja styður við nýtingu mannauðsins til að ná settum markmiðum, því skýrari sem hún er því auðveldara ætti að vera fyrir starfsfólk að fylgja heildarstefnu fyrirtækisins. Mannauðsstefna ætti að geta upplýst starfsfólk um hverju það getur átt von á frá því fyrirtæki sem það starfar hjá. Ásamt því ætti stefnan að innihalda væntingar fyrirtækisins til starfsfólks svo það geri sér grein fyrir hvers er vænst af því.
Hægt er að líta á mannauðsstefnu hvers fyrirtækis sem einstaka, að því leyti að starfsmannahópurinn er hvergi eins. Þau fyrirtæki sem skilgreina sig sem þjónustufyrirtæki gætu skapað aukið virði meðal viðskiptavina sinna með uppbyggingu góðrar þjónustu sem erfitt er að leika eftir fyrir önnur fyrirtæki. Velgegni þessara fyrirtækja ræðst oft af hæfileikum þeirra til að bæta starfsemi sína og styrkja hana. Við þá vinnu er samsetning mannauðs gífurlega mikilvæg og mikilvægi mannauðsstefnu ljós.
Við mótun mannauðsstefnu er skynsamlegt að þeir stjórnendur sem bera ábyrgð á henni hvetji starfsfólk til þátttöku við vinnuna. Við þá vinnu er æskilegt er að ná til hóps starfsfólks sem mannauðsstefnan á að tilheyra. Ef það á að takast þarf að vera góð samvinna á milli aðila svo gagnkvæmur skilningur verði á sýn mannauðsmála innan fyrirtækisins. Með því eykst virðing starfsfólksins fyrir stefnunni, það upplifir frekar eignarhald sitt á hönnun hennar, gagnkvæmur skilningur skapast á milli stjórnenda og starfsfólks ásamt því að það finnur til sín vegna þeirrar vinnu sem það hefur lagt til. Til viðbótar við stjórnendur og starfsfólk er mikilvægt að ólíkir aðilar komi að vinnunni, þar sem hver og einn kemur sjónarmiðum sínum og áherslum á framfæri. Hægt að nefna utanaðkomandi aðila í því samhengi líkt og sérhæfða ráðgjafa og fræðimenn á því sviði sem mannauðsstefna tilheyrir.
Skynsamlegt er talið að þegar kemur að mótun mannauðsstefnu ætti að hafa skýra áætlun um tiltekna hönnun, áætlanagerð mannauðs. Þá er oft á tíðum horft til stefnumiðaðrar mannauðsstjórnunar og stefnumótunar. Áætlanagerð getur virkað sem öflugt stjórntæki sem er til margs nýtt, sem dæmi má nefna ólíkar hugmyndir við stefnumótunarvinnuna þar sem settar eru fram orsakir og afleiðingar. Ekki má gleyma að oft á tíðum getur áætlanagerð virkað hvetjandi á stjórnendur og ýtt undir skapandi hugsun.
Með nýrri og breyttri áherslu í stjórnun fjölmargra fyrirtækja gera stjórnendur sér grein fyrir hversu dýrmætt það er að búa yfir stöðugleika í starfsumhverfinu og að hlúa að starfsfólki eflir starfsmannahópinn. Með mótun og innleiðingu mannauðsstefnu getur fyrirtæki vænst þess að nýir þættir komi fram eða að þeir sem fyrir eru eflist, þeir þættir geta verið fléttaðir saman við innihald mannauðsstefnu eða geta verið bein afurð virkrar mannauðsstefnu.
Mannauðsstefna er eins og allar aðrar stefnur, áætlun um það sem verða vill. Mannauðsstefnan ætti að endurspegla heildarstefnu hvers fyrirtækis og vera óaðskiljanlegur partur af henni. Mannauðsstefna er undirstefna og nær aldrei lengra en heildarstefna hvers fyrirtækis, ef fyrirtækið hefur ekki skýra framtíðaráætlun er ekki hægt að sjá hver framtíðaráætlun þess er í mannauðsmálum.

Júlía Þorvaldsdóttir.
Sviðsstjóri farþegaþjónustusviðs Strætó.
 

Grein eftir Vilhjálm Kára Haraldsson:Hvað gefst vel í stjórnun?

Grein eftir Vilhjálm Kára Haraldsson "Hvað gefst vel í Stjónun" birtist í Viðskiptablaði Mbl. nýlega.  Að mati margra er eftirsóknarvert að stjórna. Flestum finnst það krefjandi en umfram allt gefandi og stjórnendur eru alla ævi að móta sinn stjórnunarstíl. Í stjórnunarnámi mínu opnaðist mér fjársjóðskista full verkfæra til að nýta í stjórnunarstarfinu. Þegar síðan á hólminn var komið og stjórnunarstarfið tók við kom margt í ljós, það sem átti að gefast vel virkaði ekki alltaf. Ég hef fengið tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu og þróun þjónustu- og mannauðsmála hjá sveitarfélaginu Garðabæ og langar að deila reynslu minni um hvað hefur gefist vel?
Margar stofnanir setja sér gildi til að starfa eftir en það er ekki nóg, gildin þurfa að vera skýr, endurspegla menningu vinnustaðarins og vera sýnileg.  Flestum tekst vel upp við gerð gilda en oft er erfitt að fá starfsmenn til að lifa gildin. Hvort sem verið er að innleiða gildi eða huga að öðrum þáttum stjórnunar er mikilvægt að hlusta á raddir fólksins. Árangursrík leið til að hlusta á þessar raddir eru mælingar.
Mælingar eru öflugt tæki til að hafa áhrif á stjórnun. Mælt er með því að leggja fyrir kannanir eða hafa rýnihópa en stærsta áskorunin felst í hvað gera eigi við niðurstöðurnar?
Í fræðslumálum þarf að nýta vel fjármuni og skilgreina þarfir því margt er í boði. Að nýta þekkinguna sem býr í starfsmannahópnum er ein leið sem hægt er að fara því allir einstaklingar búa yfir hæfileikum og geta miðlað því sem þeir eru góðir í til hinna í hópnum. Miklum fjármunum er varið í námskeið en sjaldan er það krufið til mergjar hvort námskeiðið skilar einhverju til starfsmannahópsins. Mikilvægt er að hafa markmiðin skýr, kerfisbundnar mælingar fari fram og málum sé fylgt eftir til að tryggja árangursríka stjórnun.
Þrátt fyrir ógrynni verkfæra til að bæta stjórnun kemur ekkert í staðinn fyrir hið mannlega innsæi, því þegar öllu er á botninn hvolft þá er verkefni stjórnanda að stýra fólki sem hefur tilfinningar.
Vilhjálmur Kári Haraldsson
mannauðsstjóri Garðabæjar

Aðalfundur Stjórnvísi 2011

Ný stjórn Stjórnvísi var kjörin á aðalfundi félagsins á dögunum. Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, var kjörinn nýr formaður félagsins til eins árs og tók hann við af Margréti Reynisdóttur sem gegnt hefur formennskunni sl. tvö ár.
 
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir ellefu hundruð félagsmenn sem koma frá á þriðja hundrað fyrirtækja. Það er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
 
Félagið er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun – og vilja fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í stjórnun hverju sinni. Félagið er tuttugu og fimm ára á þessu ári og hét áður Gæðastjórnunarfélag Íslands. Kjarnastarfið fer fram í nítján faghópum um stjórnun.
 
Mikill kraftur var í félaginu á síðasta ári. Það hélt átta ráðstefnur og fluttu 135 fyrirlesarar erindi á ráðstefnum og fundum faghópa og voru gestir yfir 2.600 talsins.
 
Eftirfarandi eru í nýrri stjórn Stjórnvísi: Jón G. Hauksson formaður, Einar Skúli Hafberg, Guðmundur S. Pétursson, Hrefna Briem, Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, Einars S. Einarsson og Teitur Guðmundsson.
 
Varamenn í stjórn eru Agnes Gunnarsdóttir og Fjóla María Ágústsdóttir.
 
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi er Gunnhildur Arnardóttir.
 

Boot Camp nýtt fyrirtæki í Stjórnvísi

Stjórnvísi býður Boot Camp hjartanlega velkomið í hóp Stjórnvísifyrirtækja. Boot Camp er sérþróuð æfingaraðferð sem byggist á æfingum og þekkingu þeirra Arnalds Birgis Konráðssonar og Róberts Traustasonar sem upphaflega mótuðu kerfið.
Með tilkomu Boot Camp árið 2004 varð vakning í líkamsræktargeiranum á Íslandi. Í áraraðir höfðu Íslendingar sótt í stóra tækjasali og æft þar á hlaupabrettum og í hinum ýmsu tækjum. Boot Camp vakti aftur upp áhugann á því að þjálfa á einfaldan og árangursríkan hátt og fólk áttaði sig á því að það er hægt að hafa gaman af því að æfa.
Allir þjálfarar Boot Camp hafa klárað sérstakt þjálfaranámskeið Boot Camp sem byggir á þeim kröfum sem Boot Camp gerir til allra þjálfara sinna; að þeir hafi sjálfir upplifað æfingarnar og meira til. Þjálfararnir læra því fljótt á mörk hvers og eins og  skiptir þá engu máli í hvernig formi fólk er. Hver og einn kemur hingað með því markmiði að fá sem mest út úr hverri æfingu og með ákveðnum en jákvæðum hvatningum þjálfara er öruggt að allir fara þreyttir en ánægðir út.
Höfuðstöðvar Boot Camp eru að Suðurlandsbraut 6b og eru meðlimir stöðvarinnar um 1000. Boot Camp hefur náð mikilli útrbreiðslu á landsbyggðinni og má þar nefna Akureyri, Akranes, Bifröst, Hveragerði, Hellu, Hvolsvöll, Keflavík og Selfoss.
Fyritækjaþjálfun er stór hluti af starfsemi Boot Camp. Má þar nefna samstarf við Marel, KPMG, VÍS, Samskip og fleiri fyrirtæki. Boot Camp hefur frá árinu 2010 unnið með Vinnumálastofnun
í þeim tilgangi að styrkja einstaklinga í atvinnuleit.
Stofnendur Boot Camp þeir Arnaldur Birgir og Róbert hafa gefið út tvær bækur í samstarfi við Forlagið. Fyrri bókin kom út árið 2009 og er uppseld. Sú seinni kom út árið 2011.
Það er markmið okkar að vera leiðandi á sviði líkamsræktar og í því sem við gerum best, að bjóða trausta og góða þjónustu

Grein eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur: Tækifæri í öllum aðstæðum

Grein eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, markaðsstjóra hjá Kjörís og stjórnarmaður í SI birtist í Viðskiptablaði Mbl. 28.apríl sl.
Efnahagslegt umhverfi Íslendinga ætti að hvetja okkur til að finna þau tækifæri í viðskiptalífinu sem eru allt í kringum okkur. Síðustu misseri hefur verið  einblínt um of á það sem hefur farið úrskeiðis; hvað okkur vantar í stað þess sjá hvað við höfum og hvað við eigum til að spila úr; -  sem er heilmikið. Í þessu ljósi langar mig að rifja upp nokkra örlagaþætti sem höfðu mikil áhrif á rekstur þess fyrirtækis sem ég tengist, Kjörís. Þeir eiga það sammerkt að finna tækifæri í stöðu sem oft á tíðum virtist vonlaus.
Þegar niðurgreiðslur á smjöri til ísgerðar voru afnumdar 1969 var tekin sú ákvörðun að nota jurtafitu í ísinn í stað smjörs. Þarna náðist að snúa ógnun upp í tækifæri.
Starfsmenn Kjörís sáu fyrstir tækifæri í að framleiða frostpinna á Íslandi sem styrkti grunn fyrirtækisins svo um munaði.
Þrátt fyrir úrtöluraddir fólst tækifæri í því að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins í Reykjavík og færa reksturinn undir eitt þak í Hveragerði.   
Þegar plastverð hækkaði eftir efnahagshrunið sáu starfsmenn tækifæri í því að hverfa til fortíðar og bjóða upp á ís á nýjan leik í umhverfisvænum pappaöskjum. Neytendum líkaði þetta vel og við náðum að halda verðinu í horfinu.
Vegna hækkandi verðs leituðum við leiða til að framleiða í auknum mæli hráefni til framleiðslunnar; hráefni sem áður voru flutt inn.
Í upphafi efnahagshrunsins voru allir starfsmenn fyrirtækisins virkjaðir og beðnir um að koma auga á mögulegan sparnað. Fjöldi verkefna, stórra sem smárra, komu út úr þeirri vinnu. Öll hafa þau átt sinn þátt í því að fleyta fyrirtækinu í gegnum öldusjó núverandi efnahagslægðar.
Þetta eru aðeins lítil brot sem sýna okkur að tækifærin eru alltaf handan við hornið. Það er skylda okkar allra að horfa á aðalatriðin og sjá skóginn í heild en einblína ekki á einstök tré. 

Aðalfundur Stjórnvísi

AÐALFUNDUR STJÓRNVÍSI 
Aðalfundur Stjórnvísi 2011 verður haldinn fimmtudaginn 5. maí kl. 16.00 til 18.00 í Ofanleiti 2. í fyrirlestrasal á fyrstu hæð.  Fundarstjóri verður Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri Opna háskólans og heiðursfélagi Stjórnvísi 2011.  Að loknum aðalfundarstörfum verður áhugaverð dagskrá: Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins mun koma með innlegg um hvernig Háskólinn og atvinnulífið geta starfað saman báðum til hagsbóta.  Síðan munu Hrefna Briem, Sigríður Þrúður Stefánsdóttir og Agnes Gunnarsdóttir sjá um tengslanetsumræður. 

Ferðaþjónusta og þjónustugæði

Þessi áhugaverða grein eftir Áslaugu Briem biritist í Mbl. 18.apríl sl.  Ferðaþjónusta hefur á undanförnum árum öðlast aukið vægi í íslensku þjóðfélagi ekki síst vegna hins slæma efnahagsástands sem hér ríkir í kjölfar bankahrunsins. Ferðaþjónusta er bæði gjaldeyris- og atvinnuskapandi og telst nú ein af þremur helstu atvinnugreinum landsins.  Það skiptir því miklu máli að hlúa vel að greininni og leggja vinnu í að vanda alla þætti sem snúa að henni, en aðeins þannig mun uppbygging íslenskrar ferðaþjónustu skila árangri til framtíðar. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að flest bendir til þess að ferðamönnum muni fjölga mjög mikið á næstu árum.
Gæði þjónustu skipta miklu máli í alþjóðlegri samkeppni ferðaþjónustu og mikilvægt að huga stöðugt að því sem gera má betur í því tilliti. Þjónustugæði er einnig sá þáttur í rekstri fyrirtækja sem verður sífellt mikilvægari í harðnandi samkeppni nútímans. Þjónustugæði hafa mikil áhrif á ánægju viðskiptavina og geta verið leið til þess að skapa fyrirtækjum samkeppnisforskot og sérstöðu á meðal samkeppnisaðila. Margar rannsóknir fræðimanna hafa auk þess sýnt fram á sterk tengsl á milli ánægju viðskiptavina og velgengni þjónustufyrirtækja.
Í rannsókn á þjónustugæðum í íslenskri ferðaþjónustu sem undirrituð gerði í lok síðasta árs, í tengslum við lokaverkefni sitt í meistaranámi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum, kom í ljós að talsvert svigrúm er til úrbóta á þessu sviði og nauðsynlegt að huga sífellt vandlega að því sem gera má betur. Þess ber að geta að í rannsókninni var einkum horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Það sem helst reyndist vera ábótavant snerti þjálfun framlínustarfsmanna, þjónustu á veitingastöðum, tregðu til að bæta við sig þekkingu og skort á markaðsrannsóknum og könnunum. Helstu styrkleikar íslenskrar ferðaþjónustu voru viðmót gestgjafa, framboð náms og matreiðsla.  Greinina má sjá í heild sinni í vef-Dropanum

Starfsmannasamtöl og frammistöðumat

Nýlega birtist grein í Viðskiptablaði Mbl. eftir Ingu Guðrúnu Birgisdóttur, mannauðsstjóra hjá 1912-samstæðunni sem ber heitið Starfsmannasamtöl og frammistöðumat. Þetta er sá tími ársins sem mörg fyrirtæki nýta í starfsmannasamtöl. Tilgangur slíkra samtala er að skapa vettvang fyrir stjórnendur og starfsmenn til þess að ræða ákveðin málefni með það að markmiði að bæta vinnuumhverfið og auka árangur og ánægju í starfi.
Samtalið sjálft er aðeins toppurinn á ísjakanum því í undirbúningi og eftirfylgni þarf að vera skýrt hver stefna fyrirtækis er varðandi starfsmannasamtöl; þ.e. markmið þeirra, tíðni, hverjir tala saman, fyrirkomulag, umræðuramma, þátttöku allra starfsmanna, að unnið sé með niðurstöðurnar, þjálfun stjórnenda og hvað á að kynna fyrir starfsmönnum.
Hjá 1912 er rík hefð fyrir árlegum starfsmannasamtölum þar sem starfsmaður og næsti yfirmaður ræða saman í 45-60 mínútur. Markmið samtalanna eru að: auka skilning á gagnkvæmum kröfum og væntingum, veita endurgjöf um frammistöðu starfsfólks, gefa starfsfólki tækifæri til að tjá sig um vinnuumhverfið og setja sér markmið í starfi. Nýlega var  einföldu frammistöðumati bætt inn í samtölin til að beina sjónum að mikilvægum hæfnisþáttum og hegðun í starfi. Þannig er skapaður grundvöllur til að ræða það sem út af ber og hrósa fyrir það sem vel gengur. Milli hinna árlegu samtala eiga sér stað eitt til tvö stutt stöðusamtöl þar sem ræddur er framgangur markmiða og fylgst með árangri.
Inga Guðrún Birgisdóttir, mannauðsstjóri hjá 1912-samstæðunni
 

Glærur komnar í vef-Dropann frá ráðstefnu um gæðastarf

Fimmtudaginn 24. mars 2011 stóð Stjórnvísi og Háskóli Íslands fyrir ráðstefnu um gæðastarf undir yfirskriftinni „Gegnsæi, rekjanleiki og skilvirkni: Ávinningur af markvissu gæðastarfi“. Á annað hundrað manns sóttu ráðstefnuna og komust færri að en vildu.  Efni frá fyrirlesurum má nálgast í vef-Dropanum.

Saldo - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Stjórnvísi býður Saldo, bókhaldsþjónustu hjartanlega velkomið í hópinn.  Saldo býður upp á alla almenna bókhaldsþjónustu, skattskil, ráðgjöf og uppgjör fyrir einstaklinga og lögaðila.  Ennfremur sér Saldo um útskrift reikninga og launakeyrslur fyrir fyrirtæki.  Saldó byggir á áratuga langri reynslu í bókhaldsvinnu, uppgjörum og skattskilum. Faglegum og traustum vinnubrögðum og einsetur sér að bjóða viðskiptavinum upp á alhliða bókhaldsþjónustu og ráðgjöf

Verkfæri starfsþróunar

Grein eftir Sigríði Þrúði Stefánsdóttur aðstoðarskólastjóra og sérfræðing í mannauðsmálum birtist í Viðskptablaði Mbl. á fimmtudag.  Starfsþróun er vítt hugtak og felur í sér þróun starfsferils einstaklinga til langs tíma og þróun þekkingar sem skipulagsheild þarfnast í framtíðinni.Starfsfólk þróar hæfni sína, þekkingu og viðhorf annað hvort í núverandi starfi eða færist í nýtt starf. 
Starfsþróun og þjálfun eru tengd hugtök en mikilvægt er að greina hér á milli. Starfsþróun veitir starfsfólki tækifæri til að öðlast þá hæfni sem fyrirtæki eða stofnun mun þarfnast í framtíðinni og er því ekki alltaf tengd núverandi starfi. Þjálfun, á hinn bóginn er oft beintengd núverandi starfi  eða skýrt afmörkuðum verkefnum og stendur oft yfir í takmarkaðan tíma.  Þjálfun er þannig þrengra hugtak og vísar til þess að einstaklingar leitast við að þjálfa ákveðna færni  á afmörkuðum sviðum. Horft er til skemmri tíma og viðfangsefna í núverandi starfi.
En hvaða tæki og tól má skilgreina sem verkfæri starfsþróunar?  Svör við því og greinina í heild sinni má sjá í vefDropanum á heimasíðu Stjórnvísi.

Flugfélag Íslands - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

 Flugfélag Íslands er öflugt en sveigjanlegt flugfélag sem starfar á innanlandsmarkaði en þjónar einnig öðrum vest-norrænum löndum svo sem Færeyjum og Grænlandi.
Flugfélagið býður margs konar þjónustu bæði innanlands sem utan. Félagið hefur aukið hlut sinn í ferðaþjónustu innanlands með sérferðum til ýmissa staða, þar sem í boði eru skipulagðar skoðunarferðir sem hæfa öllum ferðalöngum. Félagið er í mikilli samvinnu við alla ferðaþjónustu á Íslandi.
Fraktflug Flugfélagsins býður upp á fljóta og örugga afgreiðslu,flutning ýmis konar varnings sem kemst til skila á mettíma.
Flugfélagið leigir flugvélar sínar í ýmis verkefni bæði með og án áhafna, innan lands sem utan, allt eftir óskum viðskiptavinarins.
Í Reykjavík rekur félagið viðhaldsþjónustu sína sem sinnir flugflotanum, bæði Fokker 50 og Dash8 flugvélunum.  Þrautþjálfaðir starfsmenn fást þar við allar hugsanlegar viðgerðir á vélum félagsins sem og annarra flugfélaga erlendis frá sem hingað leita.  
Eitt af markmiðum félagsins er að hafa ætíð á að skipa hæfum og liprum liðsmönnum sem sýna frumkvæði og hafa jákvætt viðhorf.
 
Hjá Flugfélagi Íslands starfa um 240 manns sem allir gegna lykilhlutverki í starfsemi þess.

Áskoranir í rekstri upplýsingatækni

Grein eftir Guðmund Örn Óskarsson sem stýrir upplýsingatæknimálum hjá Össuri birtist í Viðskiptablaði Mbl. sl.fimmtudag.  Í greininni kemur m.a. fram að oftast starfa sölu-og þjónustuaðilar í upplýsingatækni eftir landfræðilegum mörkum. t.d. milli Ameríku og Evrópu.  Þegar um er að ræða kaup á hugbúnaði getur þessi uppskipting verið nytsöm þar  flestir söluaðilar horfa eingöngu til þess hvert á að senda reikninginn.  Greinin birtist í heild sinni í vefDropanum. 

Vistor - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Stjórnvísi býður Vistor hf. velkomið í hópinn.  Vistor hf. er leiðandi fyrirtæki á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum og dýraheilbrigðisvörum á Íslandi.   Vistor er samstarfsaðili fjölmargra alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og veitir þeim þjónustu við skráningar og sölu- og markaðsmál, auk þess að hafa milligöngu um innflutnings- og dreifingarstarfsemi. Með því að leggja áherslu á skilvirka og hnitmiðaða starfsemi og skapa starfsumhverfi sem laðar að hæfa einstaklinga til starfa gerir Vistor samstarfsaðilum sínum kleift að ná settum markmiðum. Ennfremur er kaupendum og neytendum varanna tryggt auðvelt og áreiðanlegt aðgengi.   Markmið Vistor er að vera ákjósanlegasti samstarfsaðilinn á íslenska lyfjamarkaðinum, í huga viðskiptavina, birgja, starfsmanna og samfélagsins.

Að innleiða, miðla og fylgjast með framgangi stefnu

Grein eftir Hrefnu Briem, birtist í Viðskiptablaði Mbl. fimmtudaginn 17.mars sl. Stefnumiðað árangursmat (e.balanced scorecard) er aðferðafræði innan stjórnunar sem nýtist vel til að ná góðum árangri í rekstri og hjálpar stjórnendum við að innleiða, miðla og fylgjast með framgangi heildarstefnu.  Svokölluð stefnukort eru nýtt til að draga fram mikilvægustu þættina fyrir árangur fyrirtækisins og eru þeir mældir með mælikvörðum með stuðningi skorkorta.  Greinina má sjá í heild sinni í vef-Dropanum.

Fengu verðlaun Stjórnvísi

Björn Zoega, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss, Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar og Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, eru handhafar stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2011. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin við virðulega athöfn í Turninum. Bára Sigurðardóttir, formaður dómnefndar, flutti ræðu fyrir hönd dómnefndar. Mikið fjölmenni var við afhendingu verðlaunanna.
 
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1.100 félagsmenn og koma þeir frá vel á þriðja hundrað fyrirtækja. Félagið er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun og að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í stjórnun. Félagið er 25 ára á þessu ári og hét áður Gæðastjórnunarfélag Íslands.
 
Þetta er annað árið í röð sem verðlaunin eru veitt og er horft meira til millistjórnenda við útnefningu þessara verðlauna - en flestra annarra verðlauna hér á landi.
 
Björn Zoega fékk verðlaunin í flokki fjármálastjórnunar, Guðmundur S. Pétursson í flokki gæðastjórnunar og Liv Bergþórsdóttir í flokki markaðsstjórnunar. Aðeins félagar í Stjórnvísi koma til greina við útnefningu verðlaunanna. Liv er erlendis og tók Joakim Reynisson við verðlaununum fyrir hennar hönd.
 
 
Markmið stjórnunarverðlauna er að vekja athygli á faglegu og framúrskarandi starfi hins almenna stjórnenda. Allar nánari upplýsingar um stjórnunarverðlaunin s.s. dómnefnd, rökstuðning og tilnefningar má sjá á heimasíðu Stjórnvísi; www.stjornvisi.is
 
Myndir af hátíðinni má sjá hér
 
 
 
Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands. Frá vinstri: Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Bára Sigurðardóttir, formaður dómnefndar, Joakim Reynisson framkvæmdastjóri tæknisviðs Nova sem tók við verlaununum fyrir hönd Liv Bergþórsdóttur, Björn Zoega, forstjóri Landspítalans og Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar   
 

Stjórnendaverðlaun Stjórnvísi verða afhent í dag

Stjórnendaverðlaun Stjórnvísi verða afhent í dag á glæsilegri hátíð í Turninum í Kópavogi kl.16:00-18:00.  Forseti Íslands hr.Ólafur Ragnar Grímsson mun afhenda verðlaunin.  Allir stjórnvísifélagar eru boðnir hjartanlega velkomnir.  Skráning fer fram á eftirtalinni slóð: http://www.stjornvisi.is/eventcalendar/entry/eventcalendarid/252
 
 

Það kostar ekkert að brosa! - grein í Mbl.

"Það kostar ekkert að brosa" er heiti pistils Sólveigar Hjaltadóttur framkvæmdastjóra réttindasviðs Tryggingastofnunar ríkisins.    TR vinnur markvisst að því að auka gæði þjónustu við lifeyrisþega, þrátt fyrir að haf eins og aðrar stofnanir og fyrirtæki þurft að hagræða og spara undanfarin ár.  Gripið hefur verið til ýmissa hagræðingaráðstafana.  Greinina má sjá í heild sinni í vef-Dropanum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?