Fréttir og pistlar

Lyfjastofnun ríkisins -nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Lyfjastofnun er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir velferðarráðuneytið. Hjá Lyfjastofnun eru flestir starfsmenn háskólamenntaðir og/eða með sérþekkingu á lyfjamálum. Krafist er fyllsta hlutleysis í störfum starfsmanna.

Á Lyfjastofnun er m.a. unnið að:

•mati á gæðum og öryggi lyfja
•eftirliti að kröfum heilbrigðisyfirvalda
•upplýsingagjöf fyrir heilbrigðisstéttir og almenning
•neytendavernd
Lyfjastofnun vill laða að sér vel menntað og metnaðarfullt starfsfólk og bjóða því góða aðstöðu til að þroskast í starfi.

Upplýsingaleki: oksakir og afleiðingar - grein Tryggva R. Jónssonar í Mbl.

Upplýsingaleki er þegar trúnaðarupplýsingar komast í hendur óviðeigandi aðila. Slíkt getur gerst af ýmsum ástæðum, hvort heldur sem er viljandi eða óviljandi, af völdum innri eða ytri aðila og óháð því hvort upplýsingar séu á rafrænu formi eða ekki.

Trúnaðarupplýsingar geta verið af mörgu tagi, svo sem viðskiptaáætlanir eða persónuupplýsingar. Upplýsingaleki getur haft óæskilegar afleiðingar í för með sér, svo sem beint fjárhagslegt tjón, lögsóknir eða skaðað orðspor.
Hvernig er hægt að bregðast við þessum áhættum á skilvirkan og markvissan hátt? Þegar búið er að skilgreina hvaða upplýsingar séu trúnaðarmál þarf að huga að því hvar þær eru geymdar, hvernig þær eru fluttar á milli staða, hverjir og hvernig þær eru notaðar. Notkun upplýsinga er orðin fjölbreyttari með aukinni útbreiðslu fjarvinnu og stóraukinni notkun á spjaldtölvum og snjallsímum.

Byggt á áhættumati og eftir greiningu á geymslu, flutningi og notkun upplýsinga þarf að grípa til viðeigandi úrbóta til að bregðast við þeim áhættum sem taldar eru óásættanlegar. Slíkar úrbætur geta verið af ýmsu tagi og ekki allar tæknilegar.
Huga þarf að þætti þeirra einstaklinga sem koma að geymslu, notkun eða flutningi upplýsinga auk þess að þeir hafi þau úrræði sem nauðsynleg eru til að meðhöndla trúnaðarupplýsingar á öruggan hátt.
Að mörgu er að hyggja til að takmarka áhættu vegna upplýsingaleka. Velja þarf réttu úrræðin til að verja fjármunum á sem hagkvæmastan hátt. Nauðsynleg forsenda þess er greining á gagnaflæði trúnaðarupplýsinga og áhættumat til að forgangsraða aðgerðum. Varasamt getur verið að innleiða öryggisúrræði án slíks undirbúnings þar sem illa ígrunduð öryggisúrræði geta valdið því að notendur fari að leita nýrra og óöruggari leiða til að komast hjá þeim öryggisúrræðum sem eru til staðar.

Tryggvi R. Jónsson, CISA
Höfundur er liðsstjóri Áhættuþjónustu Deloitte á Íslandi
og sérfræðingur í upplýsingaöryggi.

Áhugaverð dagskrá ISO í vetur

Á aðalfundi faghóps um ISO sem haldinn var á Neyðarlínunni í morgun var rædd dagskrá vetrarins ásamt því að kosin var ný stjórn. Einnig var farið yfir markmið, hlutverk og stefnu ISO faghópsins sem er að vera með umfjöllun um þau málefni sem forsvarsmenn ISO vottaðra fyrirtækja eða þeirra sem eru með þroskuð gæðakerfi eru að fást við hverju sinni. Hugmyndir að dagskrá voru m.a.:
Hvernig lfiir gæðakerfi af breytingar í/á fyrirtækjum - umræðufundur
Samþætting stjórnkerfa hjá Alcoa
Kynning á útskriftarverkefnum nemenda í gæðastjórnun o.fl.
Stjórn ISO hvetur félaga til að koma með hugmyndir að áhugaverðum fundum og þakkar Svölu Rún Sigurðardóttur hjartanlega fyrir stjórnarsetu í hópnum og býður Guðmund S. Pétursson gæðastjóra Landsvirkjunar velkominn í stjórn hópsins á nýjan leik.

Myndir frá fundinum hjá CCP

Við höfum sett myndir af fundinum hjá CCP inn á Facebook síðuna okkar. Slóðin er: http://www.facebook.com/media/set/?set=a.153479861386639.38829.110576835676942&type=1

Frábær árangur: Kafbáturinn Freyja í 4.sæti í San Diego

Á faghópi Hugbúnaðarprófana í morgun hjá Símanum kynnti Stefán Freyr Harðarson kafbátaverkefni sem hlaut 4.sæti í aðalúrslitum í San Diego sem er stórkostlegur árangur. Kafbátaverkefnið er þverfaglegt verkefni í Háskólanum í Reykjavík sem hófst á haustönn 2009 en þá fóru fjórir nemendur af stað í verkfræðideild HR með verkefnið. Að vori 2010 fæddist Keikó og keppti í þessari sömu keppni. Keikó hlaut "Þrjóskuverðlaunin 2010" því þrátt fyrir að leki kæmi upp í bátnum gafst liðið aldeilis ekki upp. Árið 2011 þegar kafbáturinn Freyja var sendur í keppnina kom einnig upp leki og eins og áður sagði hafnaði liðið í 4.sæti í aðalúrslitum. Liðinu dreymir um að komast úr árið 2012 og leitar að styrktaraðilum.

ELLA - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

ELLA - gæði og virðing.
Fágun, virðing og ábyrgð eru einkunnarorð ELLU - sem er framleiðslufyrirtæki er vinnur eftir hugmyndafræði "Slow Fashion". Fyrirtækið var búið til af Elínrós Líndal, sem starfar einnig sem listrænn stjórnandi þess. En yfirhönnuður fyrirtækisins er Katrín María Káradóttir.

Við hugsum um viðskiptavin ELLU - þig - og hvernig við getum búið til fatnað sem ýtir undir kvenlega fegurð þína og sjálfstæði.

Fyrirtæki líkt og ELLA sem fjárfestir í gæðum, eru í þeim forréttindahóp að vinna með klassíska hönnun og þess vegna ekki í stöðugri keppni við síbreytileika tískunnar.

Að tilheyra ,,Slow Fashion" þýðir að huga að sínu nánasta umhverfi með virðingu í huga. Virðingu fyrir starfsfólkinu er sýnd með því að huga að góðu starfsumhverfi og mannsæmandi launum. Virðing fyrir umhverfinu er sýnd með því að búa til fatnað sem stenst tímans tönn og svo berum við mikla virðingu fyrir þér - viðskiptavini okkar.

Það er ELLA.

Takmarkalaust líf - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Ásgeir Jónsson stofnaði fyrirtækið Takmarkalaust Líf ehf. á vormánuðum árið 2011. Fyrir þann tíma hafði hann starfað hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Það hafði verið draumur Ásgeirs í þó nokkurn tíma að stofna eigið fyrirtæki sem hefði meðal annars að markmiði sínu að auka lífsgæði fólks með því að kynna það fyrir jákvæðri sýn á lífið og tilveruna og sýna því framá hvað það eitt að breyta viðhorfi okkar getur breytt líðan okkar.

Í störfum sínum hefur Ásgeir öðlast mikla stjórnunarreynslu og nýtir hann hana í þeim námskeiðum sínum sem lúta að stjórnun fólks, tíma- og fundarstjórnun svo eitthvað sé nefnt.

is-Project nýtt Stjórnvísifyrirtæki

is-Prject smíðar flóknar veflausnir því þær eru þeira ær og kýr. is-Project veitir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum bestu fáanlegu veflausnir sem henta hverjum og einum. Því hver og einn er einstakur!

Oft á tíðum eru veflausnir einstakra fyrirtækja það flóknar, að ekki er hægt að kaupa tilbúnar lausnir beint úr kassanum. Oft er um að ræða flókna gagnaöflun eða birtingu gagna, hafa þarf samskipti við önnur kerfi, eða lausnin á einn eða annan hátt ekki augljós.

Jafnvel þótt fyrirtækið sé ungt er reynsla starfsmanna þess mikil. Báðir forritararnir hafa unnið í mörg ár við hönnun á flóknum veflausnum og því vel í stakk búnir til að takast á við hvert það verkefni sem rekur á fjörur þeirra.

Ekkert verkefni er það flókið að á þeim finnist ekki lausn. Við hvetjum þig til að hafa samband við okkur í síma: 847-7653 eða í tölvupósti: hilmar@is-project.org, nú eða líta við á skrifstofu okkar að Ingólfsstræti 5, 3ju hæð. Hjá okkur er alltaf heitt á könnunni og við tökum vel á móti þér

Tern Systems - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Tern System var stofnað haustið 1997 af Kerfisverkfræðistofu Háskóla Íslands og Flugmálastjórn Íslands og byggðist reksturinn á tveggja áratuga samstarfsvinnu þessara aðila við þróun, rannsóknir og hvers konar þekkingaröflun á sviði flugstjórnar- og flugleiðsögutækni.

Upphaflegur tilgangur stofnun Flugkerfa var að taka við þróunarstarfsemi sem vaxið hafði upp á sviði flugstjórnartækni. Í ársbyrjun 2007 þegar ábyrgð á rekstri flugvalla-, flugleiðsögu- og flugumferðarþjónustu færðist í hendur Flugstoða færðist eignarhlutur Flugmálastjórnar yfir til Flugstoða og er Háskóli Íslands áfram hluthafi. 1. maí 2010 færðist svo hlutur Flugstoða til Isavia.

Tern Systems sérhæfir sig í kerfislausnum sem lúta að flugumferðarstjórn. Markmið fyrirtækisins hefur frá upphafi verið að efla rannsóknir, þróun og þekkingaröflun á sviði flugsamgöngutækni.

Tern Systems, Flugstoðir og Háskóli Íslands hafa alla tíð starfað saman að ýmsum þróunarverkefnum fyrir flugmálayfirvöld og hafa veitt sérfræðiþjónustu sem snýr að þessum málaflokkum. Þessi samvinna hefur leitt af sér samstarfsverkefni víða um heim. Þar má nefna rannsóknarsamstarf með ýmsum fyrirtækjum og stofnunum innan Evrópu, sem fjármögnuð hafa verið af Evrópuráðinu.

Tern Systems hefur unnið að þróun kerfislausna fyrir flugstjórn. Um er að ræða lausnir sem notaðar eru í rekstri flugstjórnarmiðstöðva, flugturna og við þjálfun flugumferðarstjóra. Kerfi frá Tern Systems eru meðal annars notuð á Íslandi, Írlandi, Suður-Kóreu, Sýrlandi, Namibíu og Indónesíu.

Stjórnendahandbók - verkfærakista stjórnandans - grein í Viðskiptabl.Mbl.

Það hefur færst í vöxt að mannauðsstjórar fyrirtækja útbúi stjórnendahandbækur fyrir stjórnendur fyrirtækja. Flestar stjórnendahandbækur eru í dag í formi stjórnendavefja. Markmið handbókanna er að tryggja að allar upplýsingar sem stjórnandinn þarf á að halda séu á einum stað og að allir séu í takt þvert yfir fyrirtækið.
En hvað er stjórnendahandbók og hvað inniheldur hún?
Stjórnendahandbókin er verkfærakista stjórnandans og ómissandi fyrir nýjan stjórnanda. Hún hefur að geyma hvert hlutverk stjórnandans er sem er fjölþætt; hann ber ábyrgð á innkaupum, hagmálum, fjármálum, mannauðsmálum, upplýsingatækni og fjármálum.
Til að þarfagreina hvað stjórnendahandbókin á að innihalda er gott að fara þá leið að biðja stjórnendur að þarfagreina - hvað viltu sjá í stjórnendahandbókinni?
Þarfagreiningar hafa sýnt að stjórnendur vilja sjá ferli og fræðsluefni. Einnig óska þeir eftir að hafa í sinni stjórnendagátt upplýsingar um áætlun og rauntölur, upplýsingar um þá starfsmenn sem heyra undir þá eins og fjölda, stöðugildi, kynjaskiptingu, upplýsingar um laun, yfirvinnu, veikindi, menntun, fræðslu og starfsánægju. Stjórnendahandbókin gefur því stjórnandanum góðar upplýsingar um þann mannskap sem hann er ábyrgur fyrir og þá mælikvarða sem hann á að nota og eykur öryggi því ekki er verið að senda viðkvæmar upplýsingar í tölvupóstum. Þar er líka sett inn efni eins og stjórnendafræðsla, leiðbeiningar, spurt og svarað, áhugaverðar greinar og tenglar. Stjórnendhandbókin er því sannkölluð verkfærakista stjórnandans.
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Haustráðstefna Verkefnastjórnunarfélagsins 22.september 2011

Haustráðstefna VSF verður haldin í Truningum Kópaovogi 22.september 2011. Ráðstefnan er hálfan dag og hefst klukkan 13:00.
Yfirskrift ráðstefnunnar er Verkefnateymið og kostnaðarstýring eða Project Team Management & Cost Enigneering og eru fyrirlesarar úr hinum ýmsu geirum atvinnulífsins með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu sem þeir deila með ráðstefnugestum. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna má sjá á www.verkefnastjórnun.is

Mannvirkjastofnun, nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Mannvirkjastofnun tók til starfa þann 1. Janúar 2011. Hún starfar skv. lögum nr. 160/2010. Stofnunin skal tryggja samræmingu á byggingar- og eldvarnareftirliti og starfsemi slökkviliða í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum. Meðal helstu verkefna Mannvirkjastofnunar eru:

  1. að annast gerð leiðbeininga, verklagsreglna og skoðunarhandbóka á fagsviði stofnunarinnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila,

  2. að bera ábyrgð á markaðseftirliti með byggingarvörum,

  3. að annast aðgengismál,

  4. að hafa eftirlit með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af þeirra völdum o.fl.

Felur kvörtun í sér verðmæti? Grein Kristínar Lúðvíksdóttur í Viðskiptablaði Mbl.

Felur kvörtun í sér verðmæti?

Viðskiptavinur er óánægður ef hann upplifir þjónustu undir væntingum og sýna flestar kannanir að fæstir kvarta með formlegum hætti. Að kvarta kostar tíma og fyrirhöfn og oft vita viðskiptavinir ekki hvar á að koma kvörtunum á framfæri. Þeir sem láta þjónustuveitanda ekki vita af óánægju sinni eru líklegri til að segja vinum og vandamönnum frá og geta margföldunaráhrif slíkrar umræðu orðið veruleg. Sumir túlka hugtakið kvörtun á neikvæðan hátt, en í raun á það fremur skylt við jákvæð hugtök, endurgjöf, ábendingu, ráðgjöf o.s.frv. Sá sem leggur fram kvörtun er að standa vörð um réttindi sín. Hann fer ýmist fram á leiðréttingu á umræddum mistökum, skaðabætur eða vill einfaldlega koma ábendingu á framfæri. Vel framsett kvörtun eykur líkur á farsælli úrlausn. Æskilegt er að kvörtun sé hnitmiðuð, að hún lýsi helstu staðreyndum máls og skýrt sé hverjar væntingar um úrlausn eru. Mikilvægt er að sá sem kvartar dragi ekki úr mikilvægi kvörtunarinnar því hann er að gera þjónustuveitandanum greiða. Þjónustuveitandi sem tekur faglega á móti kvörtunum og hefur gott aðgengi fyrir slík erindi gefst tækifæri til að bæta fyrir það sem miður fer. Ef viðskiptavini er gert erfitt fyrir að koma kvörtun á framfæri eru meiri líkur á að óánægja hans aukist, hann gefist upp og segi öðrum frá upplifun sinni.Kvörtun getur falið í sér mikil verðmæti ef hún er meðhöndluð rétt. Með faglegri meðhöndlun kvörtunar nær þjónustuveitandi að koma í veg fyrir frekari skaða, gera óánægðan viðskiptavin ánægðan og læra af mistökum. Að taka fagnandi á móti kvörtun og leysa hana á farsælan hátt felur í sér þau verðmæti að þjónustuveitandinn stendur uppi með ánægðan og tryggan viðskiptavin og bætt þjónustustig

Samskipti hafa mestu áhrif á ánægju verkkaupa

Samtök iðnaðarins tóku rausnarlega á móti Stjórnvísifélögum á þessum fallega haustdegi í höfuðborginni. Anna Hulda Ólafsdóttir kynnnti niðurstöður meistaraverkefnis síns "Áhrif gæðastjórnunar á mannvirkjagerð". Anna Hulda nefndi að almennt væri staða gæðastjórnunar í mannvirkjagerð frekar slök og finnst 61% verktaka vanta stöðlun í útboðsgerð. Helstu vandamálin við innleiðingu á gæðastjórnun í mannvirkjagerð er skortur á ISO 9001. Mjög sterk fylgni er á milli öryggismála og þess hvort verktaki vinnur eftir stöðluðu gæðastjórnunarkerfi. Þeir þættir sem hafa mestu áhrif á ánægju verkkaupa eru 1. verkfundir, því fleiri fundir eða samskipti því meiri ángæja 2) þjónustulund 3)gæði verksins 4)gæðatrygging 5)vönduð tímaáætlun 6)umgengni 7)öryggismál 8)starfslýsingar. Verkefni Önnu Huldu er einstaklega vel unnið og niðurstöðurnar áhugaverðar. Slæður af fundinum munu birtast á innrivef Stjórvísi.

Farðu í mat! Grein Unnar Valborgar birtist í Viðskiptablaði Mbl. 8.sept.2011

Farðu í mat!
Það kannast flestir við þá tilfinningu að koma til vinnu að nýju eftir gott sumarfrí. Vissulega bíður margt afgreiðslu en eftir frí getum við tekist á við nánast hvað sem er. Við erum uppfull orku og krafti og höfum jafnvel fengið ótrúlega góðar hugmyndir í fríinu sem við erum spennt að hrinda í framkvæmd (Þeir sem ekki kannast við þessa tilfinningu ættu kannski að íhuga að taka lengra sumarfrí eða skipta um vinnu!). Nokkur fyrirtæki erlendis sáu sér leik á borði eru farin að bjóða starfsfólki meira frí en lög gera ráð fyrir til að auka afköst. Það er vissulega ein leið til að viðhalda „eftirsumarleyfisorkuskotinu“ en til eru einfaldari og ódýrari leiðir.
Tony Schwartz og rannsóknarteymi hans í The Energy Project, sérhæfa sig í því að viðhalda háu orkustigi starfsmanna fyrirtækja og auka þar með árangur þeirra. Þau hafa sýnt fram á að með einföldum aðgerðum geti fyrirtæki og starfsmenn margfaldað afköst og aukið starfsánægju svo um munar. Hér eru örfá einföld ráð frá Tony og hans fólki:

  1. Farðu alltaf í mat - stattu upp frá vinnunni, farðu út af vinnustaðnum, teygðu úr þér og talaðu við fólk um eitthvað annað en vinnuna.
  2. Hreyfðu þig - fátt viðheldur orkunni betur en regluleg líkamleg áreynsla.
  3. Borðaðu reglulega yfir daginn - hollar, litlar máltíðir til að koma í veg fyrir orkuleysi og slappleika sökum of- eða sykuráts.
  4. Gefðu þér 90 mínútur - byrjaðu alltaf daginn á því að verja 90 mínútum í að skipuleggja verkefni þín. Þannig tryggir þú vinnu við mikilvægustu verkefnin hverju sinni og þar með aukinn árangur.
    Hugsaðu þér...það er ekki flóknara en þetta að koma meiru í verk! Því ekki að prófa?
    Unnur Valborg Hilmarsdóttir, stjórnendamarkþjálfi hjá Vendum ehf.

Nýstárleg leið til að kynna framtíðarsýn Marel

Marel tók vel á móti Stjórnvísifélögum í morgun á fyrsta viðburði á vegum Lean faghópsins þetta starfsárið. Pétur Arason kynnti nýja leið til að kynna framtíðarsýn félagsins fyrir starfsfólki sem var einstaklega áhugaverð. Pétur sagði jafnframt frá því hvað það væri sem sameinaði starfsmenn alls staðar í heiminum og hvernig Marel byggir upp traust. Axel Jóhannsson sagði frá því helsta sem Marel hefur verið að vinna við í straumlínustjórnun og að lokum fór Rósa Björg Ólafsdóttir yfir það helsta sem vöruþróunarferli Marel hefur verið að vinna að í Agile/Lean málum.

Dynax ehf., nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Dynax ehf. er rúmlega ársgamalt hugbúnaðarfyrirtæki sem samanstendur af öflugum hópi sérfræðinga með áratuga reynslu í upplýsingatækni. Þekking og reynsla starfsmanna spannar vítt svið og má þar m.a. nefna rekstur tölvu- og hugbúnaðarkerfa, smíði og innleiðingu hugbúnaðarlausna, smíði og innleiðingu gæðakerfa, verkefnastjórnun hugbúnaðar- og gæðaverkefna, stjórnun tölvudeilda fyrirtækja, þjónustu við upplýsingakerfi, ráðgjöf við val á hug- og vélbúnaðarlausnum, fræðslu og námskeið í upplýsingatækni ofl..
Helstu vörur og þjónusta eru:
• Þjónusta við Microsoft Dynamics AX (Axapta) ásamt smíði á sérlausnum og vörum.
• Söluaðilar Microsoft Dynamics AX.
• Rekstur Microsoft Dynamics (AX / NAV) viðskiptakerfa 365 daga á ári fyrir fast mánaðargjald.
• Smíði veflausna m.a. innri vefir, ytri vefir sem byggja á SharePoint eða öðrum vefumsjónarkerfum.
• Smíði vefþjónusta fyrir t.d. tengingar milli kerfa þ.e. samþætting upplýsingakerfa.
• Nori, skráningar- og greiðslukerfi fyrir tómstundastarf, ráðstefnur, fundi ofl.
• Verkefnastjórnun hugbúnaðar- og gæðaverkefna
• Ráðgjöf í upplýsingatækni t.d. val á vélbúnaði, hugbúnaði, gagnagrunnum ofl.
• Ráðgjöf i gæðamálum
• Sérhæfð fræðsla og námskeið í upplýsingatækni

Það ríkir mikill hugur í stjórn og forsvarsmönnum faghópa Stjórnvísi

Það ríkti mikill hugur í stjórn og forsvarsmönnum faghópa Stjórnvísi þegar þeir kynntu metnaðarfulla haustdagskrá sína á sameiginlegum fundi í gær. Góð mæting var og dæmi um fundi sem eru framundan: Hvernig á að stjórna stjörnum? Stefnumótun og framkvæmd hjá Velferðaráðuneytinu, Stefnumiðuð stjórnun og árangur Landspítalans, Stjórnun mismundandi kynslóða á vinnumarkaði, Árangur í stefnumótun, Heilsustefnu o.m.fl. Fjöldi spennandi ráðstefna og funda er framundan og félagar því hvattir til að fylgjast vel með viðburðum sem birtast á heimasíðu félagsins.

Við erum ólík - pistill Helgu Fjólu Sæmundsdóttur í Mb l. 1.sept.2011

Ég tel mig vera lánsama að vinna í fyrirtæki þar sem ég fæ og næ að vera ég sjálf. Ég þyki svolítið hávær, tala mikið, hlæja hátt og vera blátt áfram. Svo á ég það til að vera örlítið þrjósk - hver er það ekki? Þetta eru »eiginleikar« sem sjálfsagt stuða einhverja; sumir hafa gaman af og aðrir umbera.

Það er hins vegar hluti af fyrirtækjamenningu Íslenska gámafélagsins að við berum virðingu fyrir því gildi að við erum ólík. Við einbeitum okkur að styrkleikum okkar, gerum grín að veikleikum og höfum rétt á að vera við sjálf.

Fræðimenn rökræða enn um raunverulega skilgreiningu á fyrirtækjamenningu og merkingu hugtaksins. Hún byggist á fjölmörgum þáttum eins og gildum, viðhorfum, trú, samskiptamynstri og hegðun. Erfitt er að kortleggja hana vegna þess að hún er flókin. Það er heldur ekki hægt að tala um rétta eða ranga fyrirtækjamenningu; í rauninni er engin betri eða verri. Menninguna þarf að skoða út frá því hvernig fyrirtækið er og umhverfinu sem það starfar í.

Sterk og sveigjanleg fyrirtækjamenning er hins vegar oft talin skýringin á góðum langtímarekstri og hefur verið sýnt fram á að hún skilar t.d. minni starfsmannaveltu og aukinni framleiðni svo eitthvað sé nefnt. Þar sem fyrirtækjamenning er flókið fyrirbæri verða stjórnendur að vera meðvitaðir um að menningin verður til í samskiptum manna og aðstæðna á löngum tíma og því ekki raunhæft að ætlast til skjótra breytinga.

Ég hvet alla stjórnendur til að íhuga þá menningu, sem er í fyrirtækjum þeirra, og reyna að kortleggja hana þrátt fyrir flækjustig. Það eykur skilning á sjálfu fyrirtækinu og kemur sér vel við ýmis tækifæri s.s. í ráðningum og þjálfun nýrra starfsmanna

Kveðja frá Jóni G. Haukssyni formanni stjórnar Stjórnvísi

Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.

Starfið í Stjórnvísi er að komast á skrið aftur eftir sumarfrí.

Staða félagsins er sterk og það er mikill einhugur í stjórninni um að viðhalda því kraftmikla starfi faghópa sem var svo áberandi síðasta vetur.

Ég hvet alla félagasmenn til að mæta á fund stjórnar með forráðamönnum faghópa næstkomandi fimmtudag, 1. september, að Ofanleiti 2. Fundurinn hefst kl. 15:30 og munu stjórn og faghópar ræða um það sem verður efst á baugi í félaginu næstu mánuði.

Þetta er sams konar fundur og var haldinn í byrjun september í fyrra og gafst hann einstaklega vel - auk þess sem ánægjulegt var að sjá hversu margir almennir félagar sáu sér fært að mæta.

Stjórnvísi fagnar 25 ára afmæli á þessu ári og er við hæfi að halda upp á þau tímamót á þessu starfsári.

Rétt er að geta þess að á síðasta stjórnarfundi tilkynnti einn stjórnarmanna, Einar Skúli Hafberg, að hann væri að flytjast til Noregs og að hætta í stjórninni.

Einari Skúla eru þökkuð afar vönduð og góð störf fyrir félagið - ekki síst hefur hann látið vef félagsins til sín taka.

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á fundinum í Ofanleiti nk. fimmtudag.

Dugmikið og gefandi starf er framundan.

Með kveðju,
Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?