Nýsköpunarhádegi í samstarfi við Gulleggið: Engar hindranir

Þriðjudaginn 12. janúar næstkomandi verður haldið Nýsköpunarhádegi sem að þessu sinni er í samstarfi við frumkvöðlakeppnina Gulleggið. Hugmyndin að þessum fundi kviknaði út frá tölfræði niðurstöðum fyrri keppna sem sýna verulega ójafnt kynjahlutfall.

Markmið fundarins er að veita fólki innblástur og sýna fram á að það eru engar hindranir ef fólk veit hvað það vill og hvert það stefnir. Við viljum gefa þeim sem liggja á viðskiptahugmyndum auka spark rassinn til þess að koma sér af stað í þróun hugmyndarinnar. Einnig viljum við skoða það hvers vegna kynjahlutfall þátttakenda Gulleggsins hallar svo á annað kynið eins og fram hefur komið og hvetja fleiri stelpur af stað. Framtíðarsýnin er að jafna hlutfallið.

EngarHindranir

Fundinum verður stýrt af Elínrósu Líndal og í panel munu sitja:

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Hugsmiðjunni

Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Betri Svefn en fyrirtækið tók þátt í Gullegginu á sínum tíma

Sigurður Arnljótsson hjá SA Framtak

Bergur Finnbogason, Sr Creative Producer hjá CCP.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Nýsköpunarhádegi eru haldin reglulega á vegum Nýherja, Klak Innovit og Stjórnvísi.

Kick off fundur stjórna faghópa Stjórnvísi 12.janúar í Ölgerðinni.

Kick off fundur stjórna faghópa Stjórnvísi verður haldinn 12.janúar nk. í Ölgerðinni kl.17:00-19:00.
Fundurinn er bæði fræðslu og skemmtifundur fyrir stjórnir faghópanna.
Tilgangur fundarins er að starta vorönn af krafti. Farið verður yfir ýmis atriði sem létta stjórnendum faghópa starfið í vetur, búinn verður til vettvangur fyrir faghópana til að sameinast um viðburði, rýnt verður í helstu áskoranir faghópastarfsins en umfram allt fá innblástur til þess að gera seinni hluta starfsárs enn öflugra en þau síðustu. Við fáum kynningu á starfsemi Ölgerðarinnar, Ása Karín stjórnunarráðgjafi hjá Capacent ætlar að gefa okkur góð ráð varðandi skilvirkar stjórnir. Ása Karin er með Cand.merc frá Odense Universitet. Hún hefur starfað sem stjórnunarráðgjafi hjá Capcent í síðan árið 2000. Hún hefur mikla reynslu af setu í stjórnum fyrirtækja en þá aðallega í stjórnum nonprofit eininga. Hún var formaður LeiðtogaAuðar frá 2012-2014, situr í stjórn
Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, auk þess situr hún í stjórn Knattspyrnufélags Hauka. Sat í stjórn Capacent á árinu 2013-2015. Ása Karín hefur í ljósi daglegra starfa sinna sem ráðgjafi og verkefna tengdum félagasamtökum, töluverða reynslu af því hvernig virkja á einstaklinga í ólíkum hópum, ná fram virkri þátttöku þeirra og skuldbindingu þannig að verkefnin gangi betur fyrir sig og með skilvirkari hætti.

Mikilvægt er að senda drög að dagskrá faghópanna til framkvæmdastjóra Stjórnvísi gunnhildur@stjornvisi.is fyrir fundinn. Þegar allir hópar eru búnir að senda inn dagskrána verður hún sameinuð í eitt skjal og send út til ykkar allra fyrir fundinn þann 10. janúar nk.
Stefnt er að því að senda út drög að dagskrá vorsins til allra félaga þann 14.janúar 2016.

Hlökkum til að sjá ykkur!
Stjórn Stjórnvísi.

Velheppnuð samfélagsverkefni fyrirtækja

Hvaða þætti ættu fyrirtæki að hafa í huga þegar þau velta fyrir sér að styðja góð, samfélagsleg málefni?

Á fundinum verður fjallað um hvernig velheppnuð samfélagsverkefni fyrirtækja eru annað og meira en auglýsing og skapa virði fyrir annars vegar samfélagið og hins vegar fyrirtækið og starfsfólk þess.

Dagskrá:

Soffía Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi hjá KOM, fer yfir góðar starfsaðferðir við að skipuleggja stuðning fyrirtækja við samfélagsverkefni, s.s. er varða val á verkefnum og innra og ytra kynningarstarf.

Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir frá styrkjastefnu Íslandsbanka og virði verkefnanna Hjálparhönd og Reykjavíkurmaraþon.

Gréta María Bergsdóttir hjá Háskólanum í Reykjavík og Katrín Dóra Þorsteinsdóttir hjá Samtökum iðnaðarins segja frá deginum „Stelpur og tækni“ (Girls in ICT Day) sem haldinn hefur verið á Íslandi síðastliðin tvö ár með þátttöku alls átta upplýsingatæknifyrirtækja. Að deginum standa HR, Ský og SI til að kynna stelpum fyrir ýmsum möguleikum í tækninámi og leyfa þeim að hitta kvenfyrirmyndir í helstu tæknifyrirtækjum landsins.

Fundurinn fer fram í stofu M104.
Kaffi á boðstólum og hægt að kaupa sér hádegisbita í nærliggjandi veitingasölum.

Gæðastjórnun og Lean

Samspil Lean og gæðastjórnunar. Hvernig kemur Lean hugmyndafræðin og verkefni Lean með að vinna með innleiddri gæðastjórnun fyrirtækja eða stofnana?

Umbætur byggjast á stöðluðum vinnubrögðum. Með virku gæðakerfi sem tryggir það hefur hugmyndafræði straumlínustjórnunar nýst vel hjá Ölgerðinni við innleiðingu á stöðugum umbótum, ferlagreiningu, að ná fram hagræðingu og auka ánægju viðskiptavina. Erla Jóna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Ölgerðinni fer yfir hvernig Ölgerðin er að nýta Lean til að styðja við gæðakerfið og til að ná fram hugarfars- og hegðunarbreytingu hjá starfsmönnum með aukinni gæðavitund.

Áskoranir GreenQloud við breyttar áherslur og kynning á Qstack.

GreenQloud er öflugt og framsækið fyrirtæki í þróun hugbúnaðar fyrir skýjaþjónustu (Qstack), en hjá fyrirtækinu starfa í dag um 40 manns. Fyrirtækið hóf starfsemi sína með rekstri á fyrstu umhverfisvænu hýsingarþjónustunni árið 2010 en árið 2014 var tekin ákvörðun um að breyta áherslum fyrirtækisins með því að loka hýsingarþjónustunni og snúa sér alfarið að hugbúnaðarþróun og sölu. Þeim viðsnúningi lauk formlega með lokun hýsingarþjónustunar þann 1. október s.l.

Fyrirtækið hefur gengið í gegnum miklar breytingar að undanförnu til að mæta breyttum áherslum við stjórnun þess og rekstur. Mikil vinna hefur verið lögð í að markaðssetja fyrirtækið og hugbúnaðinn með tilliti til þessara breyttu áherslna.

Þann 19. janúar nk. mun Soffía Theódóra Tryggvadóttir framkvæmdastjóri viðskiptaþróunnar (Chief Business Development Officer) segja okkur frá þeim breytingum sem fyrirtækið hefur tekist á við að undanförnu ásamt því að kynna fyrir okkur framleiðsluvöru fyrirtækisins Qstack.

GreenQloud býður alla velkomna í höfuðstöðvar sínar í Kringlunni 5, þriðjudaginn 19. janúar nk. kl. 8:30 á þetta áhugaverða erindi.

Betri samkeppnisstaða með stefnumótun

Hvernig nær fyrirtæki betri samkeppnisstöðu með stefnumótun? Magnús Ívar Guðfinnsson viðskiptafræðingur tekst á við þessa spurningu í fyrirlestri sínum. Hann ætlar að sýna fram á mikilvægi stefnumótunar til að viðhalda samkeppnishæfni fyrirtækja og kynnir fimm þrep sem nauðsynleg eru við að setja fyrirtækjum stefnu. Magnús deilir með okkur reynslu sinni og kemur með dæmi af fyrirtækjum sem hafa beitt þessari aðferð.

Árangur fyrirtækja byggir á hæfni stjórnenda í að horfa til framtíðar og hvetja starfsmenn til að ná árangri. Fyrirtæki þurfa sífellt að taka breytingum annars er hætt við að þau verði undir í samkeppninni. Þau fyrirtæki sem skynja mikilvægi stefnumótunar og starfa eftir metnaðarfullri framtíðarsýn eru líklegri en önnur til að byggja upp öfluga liðsheild og fara með sigur af hólmi í samkeppni.

Magnús Ívar er höfundur bókarinnar „Horft til framtíðar - stefnumótun í lifandi fyrirtæki“ sem kom út fyrir rúmum áratug, en þar fjallaði hann um þá strauma og stefnur í stefnumótun fyrirtækja. Frá því bókin kom út hefur bæst í reynslubankann hjá Magnúsi og hann mun deila með okkur nýrri reynslu og nýjum dæmum. Hvað hefur breyst og hvað virkar enn? Hvað greinir fyrirtæki sem ná árangri frá þeim fyrirtækjum sem sitja eftir?

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?