Nýársfagnaður stjórna faghópa Stjórnvísi verður að þessu sinni í Marel. Boðið verður upp á léttar veitingar og gefst félögum tækifæri til að spjalla saman og eiga góða stund. Á kick off fundi faghópanna í lok ágúst komu fram góðar umbótahugmyndir og mun Þórunn M. Óðinsdóttir formaður stjórnar fara örstutt yfir hvernig unnið hefur verið úr þeim. Þá fáum við frábæran fyrirlesara Sigurjón Þórðarson stjórnunarráðgjafa með: "HVERNIG LEGGJA MÁ GRUNN AÐ GÓÐRI LIÐSHEILD".
Ef skapa á sterkt lið er mikilvægt að byggja á góðum grunni. Þessi kraftmikli fyrirlestur fjallar um þrjú grunnþrep sem skapa undirstöður góðrar liðsheildar. Útskýrt er hvernig þættirnir þrír leggja grunn að góðu liði og hvað hver einstaklingur þarf að tileinka sér til að verða góður liðsfélagi.
Með fyrsta skrefinu er fólki hjálpað að kynnast, tala saman og sýna hvert öðru vinsemd. Þetta felst meðal annars í því að heilsa fólki við komu og kveðja við brottför. Mikilvægt er að leggja nöfn á minnið og nota þau rétt af því að það er einföld leið til að sýna fólki virðingu. Nauðsynlegt er að leggja sig fram um að fá að vita aðeins meira um hvern og einn en þó aldrei meira en fólk vill deila.
- Í fyrirlestrinum er fjallað er um grunnatriðin og hvernig má nýta sér þau til gæfu
- Þátttakendur öðlast skilning á því hvað þarf til að leggja grunn að góðu liði og fá hugmyndir um hvernig hægt er að bæta eigið lið
- Fyrirlesturinn höfðar til allra sem vilja verða betri liðsfélagar og bæta lið sitt
- Lengd: 60 mín
Sigurjón er stjórnunarráðgjafi með fjölbreyttan bakgrunn. Hann hóf feril sinn sem matreiðslumaður, stjórnandi og rekstraraðili í hótel- og veitingageiranum. Sigurjón hefur kennt fjölda námskeiða á vinnustöðum en einnig í grunn-, framhalds- og háskólum og með íþróttaliðum auk þess að hafa starfað sem ævintýraleiðsögumaður á Íslandi og á Grænlandi. Sem stjórnunarráðgjafi hefur Sigurjón lagt sérstaka áherslu á samskipti, liðsheild og leiðtogahæfni og unnið að umbótastarfi með mörgum fyrirtækjum. Sigurjón lauk MBA námi frá RU árið 2011 og MA diplómanámi í jákvæðri sálfræði frá EHÍ árið 2016 auk þess að vera matreiðslumeistari með meirapróf.
Stjórn hvetur alla í stjórnum faghópa til að mæta á nýársfagnaðinn í Marel, fræðast og eiga saman góða stund.
Viðburðurinn er opinn öllum Stjórnvísifélögum og allir hjartanlega velkomnir.
Hlökkum til samstarfsins á árinu 2019.
Stjórn Stjórnvísi.