29. september 2016 22:09
Faghópar um gæðastjórnun og ISO héldu fund í morgun í Innovation House um bætt samskipti og að nota sáttamiðlun sem verkfæri til lausnar ágreinings. Góð samskipti á vinnustað eru grundvöllur þess að hægt sé að koma á gæðastjórnun og viðhalda henni. Fyrirlesarinn Lilja Bjarnadóttir fjallaði um hvenær og hvernig fyrirtæki geta nýtt sér sáttamiðlun ásamt því hvernig hægt er hægt að nýta sáttamiðlun til þess að leysa úr ágreiningsmálum og draga úr kostnaði. Hugmyndafræði sáttamiðlunar byggir á því að deiluaðilar séu sérfræðingar í sinni deilu og því best til fallnir að leysa úr henni, t.d. með aðstoð hlutlauss sáttamiðlara.
Lilja fjallaði um kosti sáttamiðlunar og hvernig við getum lært að koma í veg fyrir að deilur stigmagnist. Lilja Bjarnadóttir er sáttamiðlari, lögfræðingur og sérfræðingur í lausn deilumála. Lilja er stofnandi Sáttaleiðarinnar, sem er fyrsta íslenska fyrirtækið sem sérhæfir sig í sáttamiðlun fyrir viðskiptalífið.
Til að innleiða sáttamiðlun þarf að byrja að ákveða hvar hún passar inn. Varðandi forvarnir þarf að horfa hvernig hægt er að leysa úr ágreiningi á fyrri stigum.
Sáttamiðlun er ferli þar sem hlutlaus sáttamiðlari hjálpar deiluaðilum að eiga samskipti svo þeir skilji hvorn annan. Sáttamiðlun er valkvætt ferli, allir aðilar þurfa að samþykkja að fara í sáttamiðlun. Sáttamiðlun sparar tíma og peninga, starfsandi verður betri sem og samskipti, engin gögn verða til um sáttamiðlun.
Sáttamiðlun snýst um samskipti. Ekki er hægt að leysa vandamál ef þau eru ekki rædd. Því fyrr sem náð er að grípa inn í því betra. Alltaf skal byrja á að horfa inn á við. Helstu mistökin sem við gerum eru að við gleymum að hugsa, flestir læra að tala og halda ræður. Þegar við hlustum fáum við tækifæri til að læra eitthvað nýtt, þegar við tölum erum við að segja eitthvað sem við þegar vitum. Þrjár leiðir til að æfa hlustun: Æfa sig í að stela ekki sögunni, æfa sig að hlusta án þess að vera að gera neitt annað á meðan og æfðu þig að hlusta án þess að vera að æfa svarið þitt á meðan. Við höldum að við höfum alltaf rétt fyrir okkur en fyrir hvern og einn er hegðun hans rökrétt. Heilinn okkar virkar þannig að við réttlætum hegðun okkar út frá aðstæðum en hegðun annarra út frá öðru þ.e. setjum oft miða t.d. leti ef viðkomandi er of seinn Þegar okkur finnst að aðrir hagi sér eins og „api“ þá þurfum við að vera forvitin og spyrja spurninga áður en við dæmum. Við þurfum að varast að draga ályktanir um hvað aðrir vilja út frá því sem okkur finnst best eða skynsamlegast.