Bætt samskipti - Sáttamiðlun sem verkfæri til lausnar ágreinings

Faghópar um gæðastjórnun og ISO héldu fund í morgun í Innovation House um bætt samskipti og að nota sáttamiðlun sem verkfæri til lausnar ágreinings. Góð samskipti á vinnustað eru grundvöllur þess að hægt sé að koma á gæðastjórnun og viðhalda henni. Fyrirlesarinn Lilja Bjarnadóttir fjallaði um hvenær og hvernig fyrirtæki geta nýtt sér sáttamiðlun ásamt því hvernig hægt er hægt að nýta sáttamiðlun til þess að leysa úr ágreiningsmálum og draga úr kostnaði. Hugmyndafræði sáttamiðlunar byggir á því að deiluaðilar séu sérfræðingar í sinni deilu og því best til fallnir að leysa úr henni, t.d. með aðstoð hlutlauss sáttamiðlara.
Lilja fjallaði um kosti sáttamiðlunar og hvernig við getum lært að koma í veg fyrir að deilur stigmagnist. Lilja Bjarnadóttir er sáttamiðlari, lögfræðingur og sérfræðingur í lausn deilumála. Lilja er stofnandi Sáttaleiðarinnar, sem er fyrsta íslenska fyrirtækið sem sérhæfir sig í sáttamiðlun fyrir viðskiptalífið.
Til að innleiða sáttamiðlun þarf að byrja að ákveða hvar hún passar inn. Varðandi forvarnir þarf að horfa hvernig hægt er að leysa úr ágreiningi á fyrri stigum.
Sáttamiðlun er ferli þar sem hlutlaus sáttamiðlari hjálpar deiluaðilum að eiga samskipti svo þeir skilji hvorn annan. Sáttamiðlun er valkvætt ferli, allir aðilar þurfa að samþykkja að fara í sáttamiðlun. Sáttamiðlun sparar tíma og peninga, starfsandi verður betri sem og samskipti, engin gögn verða til um sáttamiðlun.
Sáttamiðlun snýst um samskipti. Ekki er hægt að leysa vandamál ef þau eru ekki rædd. Því fyrr sem náð er að grípa inn í því betra. Alltaf skal byrja á að horfa inn á við. Helstu mistökin sem við gerum eru að við gleymum að hugsa, flestir læra að tala og halda ræður. Þegar við hlustum fáum við tækifæri til að læra eitthvað nýtt, þegar við tölum erum við að segja eitthvað sem við þegar vitum. Þrjár leiðir til að æfa hlustun: Æfa sig í að stela ekki sögunni, æfa sig að hlusta án þess að vera að gera neitt annað á meðan og æfðu þig að hlusta án þess að vera að æfa svarið þitt á meðan. Við höldum að við höfum alltaf rétt fyrir okkur en fyrir hvern og einn er hegðun hans rökrétt. Heilinn okkar virkar þannig að við réttlætum hegðun okkar út frá aðstæðum en hegðun annarra út frá öðru þ.e. setjum oft miða t.d. leti ef viðkomandi er of seinn Þegar okkur finnst að aðrir hagi sér eins og „api“ þá þurfum við að vera forvitin og spyrja spurninga áður en við dæmum. Við þurfum að varast að draga ályktanir um hvað aðrir vilja út frá því sem okkur finnst best eða skynsamlegast.

Um viðburðinn

Bætt samskipti - Sáttamiðlun sem verkfæri til lausnar ágreinings

Góð samskipti á vinnustað eru grundvöllur þess að hægt sé að koma á gæðastjórnun og viðhalda henni. Hvernig er hægt að nýta sáttamiðlun til þess að leysa úr ágreiningsmálum og draga úr kostnaði? Sáttamiðlun er vaxandi leið við lausn ágreiningsmála út um allan heim en á fundinum mun Lilja Bjarnadóttir fjalla um hvenær og hvernig fyrirtæki geta nýtt sér sáttamiðlun. Hugmyndafræði sáttamiðlunar byggir á því að deiluaðilar séu sérfræðingar í sinni deilu og því best til fallnir að leysa úr henni, t.d. með aðstoð hlutlauss sáttamiðlara. Fjallað verður um kosti sáttamiðlunar og hvernig við getum lært að koma í veg fyrir að deilur stigmagnist. Þá verður fjallað um innleiðingu ferla á vinnustað og fræðslu um bætt samskipti til þess að koma í veg fyrir stigmögnun ágreiningsmála.
Lilja Bjarnadóttir er sáttamiðlari, lögfræðingur og sérfræðingur í lausn deilumála. Lilja er stofnandi Sáttaleiðarinnar, sem er fyrsta íslenska fyrirtækið sem sérhæfir sig í sáttamiðlun fyrir viðskiptalífið. Hún hefur einnig starfað sem gæðastjóri hjá Verkfræðistofu Bjarna Viðarssonar (VBV ehf.)

Fleiri fréttir og pistlar

Upptaka frá viðburðinum: Can your dreams improve your leadership skills.

Í gær fjallaði Michael Rohde, sérfræðingur í draumum hvernig við getum nýtt draumana okkar til að skilja djúpvitund eða ómeðvitaða greind okkar og hvernig við getum nýtt þessa vitneskju í okkar daglega lífi til að auka persónulegan þroska. 

Michael hefur helgað feril sinn því að kanna djúpstæð áhrif drauma á líf okkar í vöku, sérstaklega á sviði leiðtoga og persónulegs þroska. 

Hægt er að horfa á upptöku af viðburðinum næstu vikuna og hlekk á hana og glærurnar má finna á síðu viðburðsins hér

AI straumar, þróun og fróðleikur – Skýrsla undanfari ráðstefnu

Í annarri viku febrúar verður áhugaverð ráðstefna um alþjóðlega þróun gervigreindar, tækifæri og ógnir https://www.elysee.fr/en/sommet-pour-l-action-sur-l-ia Verulegur undirbúningur hefur farið fram þannig að ráðstefnan skil einhverjum áfanga í „vegferð gervigreindarinnar.“

Í gær var gefin út umfangsmikil skýrsla í tengslum við ráðstefnuna The International Scientific Report on the Safety of Advanced AI. Hægt er að nálgast skýrsluna þessari vefslóð:

 https://assets.publishing.service.gov.uk/media/679a0c48a77d250007d313ee/International_AI_Safety_Report_2025_accessible_f.pdf

Um er að ræða 298 blaðsíðna skýrslu, með um 1366 tilvitnum. Höfundarnir, sem eru 96 eru allir sérfræðingar í gervigreind. Teymisstjóri hópsins er  Yoshua Bengio.

Hér er stutt kynning á Twitter:

 https://x.com/Yoshua_Bengio/status/1884593469265502482

 Að lokum þá mun Yoshua Bingio vera með fyrirlestur frá París 9 febrúar. Hægt er að fylgjast með honum í beinu streymi á vefslóðinni: https://www.youtube.com/live/qBdox9VTRcs

Verðlaunahafar Íslensku ánægjuvogarinnar 2024

Hér er linkur á streymið, á örmyndbönd, myndir, frétt á visi, mbl, vb.is,  Þann 16. janúar 2025 voru niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2024 kynntar og er þetta tuttugasta og sjötta árið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti.

Ánægjuvogin verðlaunar þau fyrirtæki sem skara fram úr í ánægju á sínum markaði

„Mikill heiður er fyrir fyrirtæki að vera hæst á sínum markaði í Íslensku ánægjuvoginni. Íslenska ánægjuvogin er mælikvarði á ánægju viðskiptavina sem er mæld reglulega yfir árið og gagnast fyrirtækjum sem mælikvarði á þeirra frammistöðu á milli ára og í samanburði við helstu samkeppnisaðila“

Segir Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Íslensku ánægjuvogarinnar og Stjórnvísi.

Þau fyrirtæki sem vinna á sínum markaði fá að nota merki Íslensku ánægjuvogarinnar í sínu markaðsefni sem og að njóta heiðursins.

Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 48 fyrirtæki í 15 atvinnugreinum, þar af eru tíu fyrirtæki sem ekki hafa verið áður. Nokkur munur er á ánægju þeirra fyrirtækja sem voru mæld og eru einkunnir frá 58,6 til 84,4 af 100 mögulegum.

indó sigurvegarinn í ár

indó er sigurvegari Ánægjuvogarinnar árið 2024 með 84,4 stig og er þetta í fyrsta skiptir sem niðurstöður hafa verið birtar fyrir bankann. Í öðru sæti og einungis tveimur stigum frá er Dropp með 84,2 stig. Dropp var sigurvegari Ánægjuvogarinnar í fyrra.

Tíu fyrirtæki marktækt hæst á sínum markaði

Gyllta merkið er einungis veitt þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina á viðkomandi markaði, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina. Þessir sigurvegarar mega þar af leiðandi segjast vera með ánægðustu viðskiptavinina.

Sigurvegarar Íslensku ánægjuvogarinnar 2024 – Gullhafar

  • Indó, 84,4 stig meðal banka
  • Dropp 84,2 stig meðal póstþjónustufyrirtækja
  • Costco eldsneyti 81,0 stig meðal eldsneytis- og hraðhleðslustöðva
  • IKEA 78,2 stig meðal húsgagnaverslana
  • Nova 77,9 stig meðal fjarskiptafyrirtækja
  • Krónan 74,1 stig meðal matvöruverslana
  • A4 73,8 stig meðal ritfangaverslana
  • Icelandair 72,3 stig meðal flugfélaga
  • BYKO 71,5 stig meðal byggingavöruverslana
  • Sjóvá 69,1 stig meðal tryggingafélaga

Vinningshafar í sinni atvinnugrein 2024 – Blátt merki

Efstu fyrirtæki á mörkuðum þar sem ekki var marktækur munur á efsta og næstefsta sæti fengu einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur.

  • Lyfjaver 76,6 stig meðal apóteka
  • ELKO 76,2 stig meðal raftækjaverslana
  • Orka náttúrunnar 69,1 stig meðal raforkusala
  • Smáralind 65,2 stig meðal verslunarmiðstöðva

Kvartanir hafa áhrif á tryggð viðskiptavina

Tvær spurningar um kvartanir eru í líkaninu. Annars vegar er spurt hvort að viðskiptavinir hafi kvartað eða haft ástæðu til að kvarta og hins vegar um hversu ánægðir þeir voru með úrlausn kvörtunarinnar. Samkvæmt bandarísku ánægjuvoginni hefur þessi málaflokkur mikil áhrif á tryggð viðskiptavina og því fleiri sem hafa kvartað því minni er tryggðin. Niðurstöður hérlendis sýna að hlutfall þeirra sem kvörtuðu var 5% en 18% höfðu ástæðu til að kvarta en gerðu það ekki.

Íslenska Ánægjuvogin í meira en aldarfjórðung

Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en mælingarnar byggja á erlendu líkani og aðferðafræði. Nokkrir þættir eru mældir sem hafa áhrif á ánægju viðskiptavina, þ.e. væntingar, ímynd, mat á gæðum og virði þjónustu.

Mæling sem þessi er mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur fyrirtækið gert sér vonir um.“

Segir Gunnhildur að lokum.

 

Breyting á upphafsspurningu í takt við breytta tíma

Í takt við breytta tíma og í samræmi við evrópsku (ECSI) og bandarísku ánægjuvogina (ACSI) var ákveðið að breyta upphafsspurningu um hvar svarendur eru í viðskiptum. Fyrir breytingu voru þátttakendur spurðir í hvaða matvöruverslun þeir fari oftast og svöruðu ánægjuvogarspurningum fyrir viðkomandi verslun. Árið 2024 voru þátttakendur í staðinn spurðir í hvaða verslunum þeir hafi keypt matvöru á síðastliðnum þremur mánuðum og svöruðu þeir svo handahófskennt fyrir eina af þeim verslunum. Upphafsspurningin er mismunandi eftir mörkuðum, til dæmis er spurt um kaup á raftækjum á síðastliðnum tveimur árum, og á bankamarkaði eru þátttakendur spurðir hjá hvaða banka þeir eru með virkan bankareikning, sparnaðarreikning eða bankalán. Þess má geta að 46% Íslendinga eru í viðskiptum við fleiri en einn banka.

Um framkvæmd rannsóknar

Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi og sá Prósent um framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni árið 2024. Gögnum var safnað frá apríl til desember árið 2024. Könnunin var send í tölvupósti á könnunarhóp Prósents á um 3.000 manna úrtak á hverjum markað. 175 til 1000 svör bárust fyrir hvert fyrirtæki. Niðurstöður voru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu þýðisins.

Ánægjuvogin samanstendur af þremur spurningum:

  1. Á heildina litið, hversu ánæg(ð/ður/t) eða óánæg(ð/ður/t) ert þú með reynslu þína af [fyrirtæki]?
  2. Hugleiddu allar væntingar þínar til [fyrirtækis] annars vegar og reynslu þína af fyrirtækinu hins vegar. Að hve miklu leyti uppfyllir [fyrirtæki] væntingar þínar?
  3. Núna biðjum við þig um að ímynda þér hið fullkomna [fyrirtæki á viðkomandi markaði]. Hversu nálægt slíku fyrirtæki er [fyrirtæki]?

Ánægjuvogareinkunnin tekur gildi á kvarðanum 0-100, þar sem hærri einkunn gefur til kynna meiri ánægju.

Merki Íslensku ánægjuvogarinnar

Athygli er vakin á siða- og viðmiðunarreglum um notkun á merki Íslensku ánægjuvogarinnar sem finna má á https://www.stjornvisi.is/is/anaegjuvogin ásamt öðrum upplýsingum um Íslensku ánægjuvogina.

Uppskeruhátíðin á Grand hóteli

Uppskeruhátíð Íslensku ánægjuvogarinnar 2024 var haldin á Grand hótel í morgun, fimmtudaginn 16. janúar 2025, klukkan 8:30 til 9:25. Upptöku af viðburðinum má nálgast hér: https://www.youtube.com/live/nQ4tIf6DFsE

Nánari upplýsingar

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, sími 840 4990, netfang: gunnhildur@stjornvisi.is

Trausti Heiðar Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, sími 546 1008 / 859 9130, netfang: trausti@prosent.is.

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2025.

Til að tilnefna fyrir árið 2025 smellið hér
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2025 verða veitt í sextánda sinn þann 10. febrúar næstkomandi við hátíðlega athöfn á Grand hótel, Háteigi, kl.16:00-17:10. Forseti Íslands Frú Halla Tómasdóttir afhendir verðlaunin og flytur stutt ávarp. Þrír stjórnendur verða verðlaunaðir.

Stjórnvísifélagar eru hvattir til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja millistjórnendur/yfirstjórnendur/frumkvöðul í fyrirtækjum innan sem utan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr á sínu sviði. Dómnefnd birtir lista yfir þá sem hljóta lágmarksfjölda tilnefninga.
Frestur til að tilnefna rennur út 22. janúar 2025.
Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill innan sem utan síns fyrirtækis. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; https://www.stjornvisi.is/is/faghopar
Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu:
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.
Markmið Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda, örva umræðu um faglega stjórnun og hvetja félagsfólk til að auka þekkingu sína, hæfni og færni sem stjórnendur. Þannig vill Stjórnvísi stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi.

Dómnefnd. 
Það er Stjórnvísi mikið í mun að verðlaunin séu byggð á faglegu mati og því eru viðmið og ferli verðlaunanna vel skilgreind og dómnefnd er skipuð sérfræðingum og reynslumiklum stjórnendum.
Dómnefnd 2025 skipa eftirtaldir:

Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Katrín S. Óladóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hagvangs. 
Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma hf.,og stjórnarkona.
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Justikal. 
Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi. 

Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins:  https://www.stjornvisi.is/is/stjornunarverdlaun

Nýárskveðja Stjórnvísi 2025

Stjórn Stjórnvísi óskar þér og fjölskyldu þinni farsældar á nýju ári og þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða. 

Megi nýja árið reynast ykkur gæfuríkt.  

Stjórn og framkvæmdastjóri Stjórnvísi.

Anna Kristín Kristinsdóttir, Auður Daníelsdóttir, Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri, Haraldur Bjarnason,  Ingibjörg Loftsdóttir, Laufey Guðmundsdóttir, Lilja Gunnarsdóttir, Matthías Ásgeirsson, Snorri Páll Sigurðsson og Stefán Hrafn Hagalín

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?