8. nóvember 2018 09:52
Faghópar um stefnumótun og árangursmat og samfélagsábyrgð fyrirtækja buðu Stjórnvísifélögum í Innovation House í morgun þar sem umræðuefnið var „Stefnumótun út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna“. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun snúa að því að búa til betri heim fyrir alla. Ríkisstjórnin samþykkti nýverið 65 undirmarkmið sem sett verða í forgang á Íslandi og gaf út stöðuskýrslu um stöðu Íslands gagnvart öllum 17 yfirmarkmiðunum. Tilgangur fundarins var að gefa félögum tækifæri til þess að kynnast stefnumótun og aðferðafræði stjórnvalda þegar kom að því að velja forgangsmarkmið og hvernig sú vinna getur gagnast fyrirtækjum og stofnunum til að innleiða Heimsmarkmiðin. Nánari bakgrunnsupplýsingar um Heimsmarkmiðin er að finna á: heimsmarkmidin.is. Fyrirlesarar voru Fanney Karlsdóttir frá forsætisráðuneytinu og Herdís Helga Schopka frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Fanney sagði markmiðin snúa m.a. að menntun fyrir alla, góðan hagvöxt o.fl. Markmiðin hafa samverkandi áhrif og einnig mótverkandi. Búið er stofna verkefnastjórn um heimsmarkmiðin en hana skipa aðilar frá öllum ráðuneytum, Hagstofunni, SÍS og einnig er ungmennaráð. Nýja menntastefna Íslands er tengd Heimsmarkmiðunum sem og umhverfisstefnan. Kópavogsbær skilgreinir sig algjörlega í samræmi við Heimsmarkmiðin sem og Snæfellsnes. Skátarnir setja fram allt sitt efni í samræmi við Heimsmarkmiðin. Isavia og Mannvit eru dæmi um fyrirtæki sem máta Heimsmarkmiðin við núverandi markmið og mælikvarða. Ábyrg ferðaþjónusta er einnig að tengja sig við Heimsmarkmiðin. Fanney sagði að allir ættu að geta innleitt Heimsmarkmiðin.
Herdís Helga Schopka ræddi hversu mikilvægt er að byrja á verkefnum sem snúa að rótinni t.d. fátækt og jafnrétti. Umhverfis-og auðlindaráðuneytið var ráðlagt að skoða hvert og eitt markmið fyrir sig og máta það við ráðuneytið. Áður en byrjað er að taka ákvarðanir þá voru skilgreind viðmið. Þau eru ekki að forgangsraða yfirmarkmiðunum 17 heldur undirmarkmiðum. Hægt er mæla undirmarkmið í átt að aðalmarkmiðum og þannig sjá hvernig gengur. Ef ekki er hægt að mæla er ómögulegt að sjá hvernig gengur. Notuð var SMART aðferðin. Mikið var um fyrirspurnir bæði á meðan fundi stóð og eins í lokin. Fundurinn var einstaklega upplýsandi og áhugaverður.