Í þessu erindi fjallar sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg um tækifæri sem starfsfólk með annað móðurmál en íslensku hefur til að sækja íslenskunám og fræðslu.
Reykjavíkurborg er bæði stærsta sveitarfélag og vinnustaður landsins. Hjá borginni starfa um 10.000 manns á um 375 fjölbreyttum starfsstöðum. Um 12% starfsfólks hefur erlendan bakgrunn. Hjá Reykjavíkurborg er litið á margbreytileika mannlífsins og tungumálakunnáttu sem auðlind. Meta skal þekkingu og menntun starfsfólks af erlendum uppruna að verðleikum og veita því aðstoð til að nýta hana samhliða því að ná góðum tökum á íslensku máli. Starfsfólk, sem er í beinum samskiptum við borgarbúa, skal hafa grundvallarfærni í íslensku, samanber námskrá i íslensku fyrir útlendinga. Íslenska skal vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða Reykjavíkurborgar.
Tungumálið er lykillinn að samfélagslegri þátttöku. Fyrir starfsfólk í nýju landi getur það skipt sköpum fyrir líðan og starfsþróun að geta tjáð sig á tungumáli vinnustaðarins. Því leggur Reykjavíkurborg ríka áherslu á að styðja starfsfólk í að læra íslensku og efla færni sína í starfi. Í erindinu verður fjallað um þau úrræði sem í boði eru.
Fyrirlesari er Kristín Salín Þorhallsdóttir - sérfræðingur á mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar