Miriam Petra Ómarsdóttir Awad sérfræðingur hjá Rannís og inngildingarfulltrúi Landskrifstofu Erasmus+ býður í rafrænt kaffispjall og umræður um fordóma á íslenskum vinnumarkaði. Spjallið er hugsað til þess að leiða saman sérfræðinga um málefnið á hversdagslegum nótum, þ.e. ekki verða haldnir eiginlegir fyrirlestrar heldur einfaldlega gefið rými fyrir vangaveltur þeirra sem velta málefninu mikið fyrir sér - sem þátttakendum gefst færi á að hlusta á og senda inn spurningar sem brenna á þeim.
Í pallborðinu verða Achola Otieno stofnandi Inclusive Iceland, en Achola er ráðgjafi sem aðstoðar fyrirtæki við að vinna heildrænar inngildingarstefnur, Jovana Pavlović, fjölmenningarfulltrúi hjá Símenntun á Vesturlandi en Jovana heldur fræðsluerindi um fjölmenningarfærni fyrir fyrirtæki á Vesturlandi og starfar einnig við rannsókn um afnýlenduvæðingu háskólanáms hjá Háskóla Íslands og Tanya Korolenko sem er menningarmiðlari hjá Reykjavíkurborg sem vinnur að því að tengja úkraínskt flóttafólk við íslenskt samfélag, en Tanya hefur einnig skrifað greinar fyrir Heimildina um reynslu sína af því að vera kona á flótta.