Click here to join the meeting
Félagsleg samskipti á vinnustað hafa mikil áhrif á líðan starfsfólks og árangur. Stundum gleymist að það er fólk á vinnustaðnum sem leggur allt sitt í sölurnar til að allt gangi upp, fólki líði eins vel og mögulegt er og að hámarksárangur náist.
Sigríður Indriðadóttir er með B.Ed í grunnskólakennarafræði og MSsc í mannauðsfræði. Hún býr yfir 15 ára reynslu úr atvinnulífinu, lengst af sem forstöðumanneskja mannauðsmála hjá Mosfellsbæ, Mannviti og Íslandspósti. Hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki, SAGA Competence árið 2021 og hefur sem stjórnendaráðgjafi, námskeiðshaldari og fyrirlesari unnið mikið með líðan, liðsheild og hegðun fólks inni á vinnustöðum. Sigríður styður þannig við bæði stjórnendur og starfsfólk á þeirri vegferð að vera meðvitaðra um sjálft sig með það að markmiði að byggja upp traust, bæta samskipti, efla liðsheild og auka bæði hamingju og árangur.
Í erindi sínu leitar Sigríður svara við þeirri spurningu ”Hver hugsar um fólkið sem hugsar um fólkið” og veltir í því samhengi upp ólíkum nálgunum og umræðupunktum sem geta stuðlað að enn betri heilsueflandi vinnustað.
Helga Lára er ráðgjafi og klínískur sálfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Attentus. Helga hefur lokið meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í félags- og vinnusálfræði frá Háskóla Íslands. Helga Lára hefur áralanga reynslu sem ráðgjafi í mannauðsmálum en sinnir einnig greiningu og meðferð á sálrænum vanda hjá fullorðnum.
Í erindi sínu ræðir Helga Lára um mikilvægi þess að mannauðsfólk gangi fram með góðu fordæmi þegar kemur að því að passa upp á okkur sjálf. Hún fer yfir einkenni kulnunar og tengsl þeirra við persónuleikaeinkenni. Hún mun einnig segja stuttlega frá rannsókn sem hún gerði sjálf, sem snýr að tengslum fullkomnunaráttu og þrautseigju við kulnun.
Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi vinnustaðar hjá Hafnarfjarðarbæ, stýrir viðburðinum.