Við heyrum frá tveimur vinnustöðum - Hvað er verið að gera í heilsueflingu?
Hér má finna hlekk á viðburðinn
Að þessu sinni fáum við fréttir af nýrri heilsustefnu Reykjavíkurborgar og því sem er helst á döfinni hjá Isavia í heilsueflingu.
Heilsustefna fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg var í fyrsta sinn samþykkt haustið 2023. Stefnan gildir fyrir alla 11.000 starfsmenn borgarinnar og er undirstefna gildandi mannauðsstefnu Reykjavíkurborgar, þar sem leiðarljósin eru m.a. að vera mannvæn, traust og samræmd.
Framtíðarsýn heilsustefnunnar er að Reykjavíkurborg sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólk finnur með áþreifanlegum hætti að vinnustaðnum er annt um heilsu þeirra og vellíðan. Vinnustaðurinn sýnir þessa umhyggju í verki með fjölbreyttum leiðum sem fela í sér hvatningu, stuðning, fræðslu og forvarnir. Lögð er áhersla á bæði líkamlega, andlega og félagslega heilsu, meðal annars gegnum þrjár grunnstoðir heilsu; hreyfingu, næringu og svefn. Jafnræði ríkir í aðgengi starfsfólks að heilsueflandi úrræðum og aðstæðum. Fyrstu aðgerðirnar byggt á heilsustefnunni tóku gildi í byrjun árs 2024 en stefnt er að því að innleiða áframhaldandi aðgerðir og úrræði næstu árin.
Fyrirlesari:
Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg.
Isavia er 1400 manna vinnustaður og leggur ríka áherslu á líkamlega, andlega og félagslega heilsu starfsmanna sinna og að vinnuumhverfi og aðbúnaður séu eins og best verður á kosið. Isavia er bæði annt um heilsu og öryggi starfsmanna sinna og vill efla meðvitund starfsfólks um mikilvægi þess að lifa heilbrigðu líferni. Í erindinu verður greint frá heilsueflandi úrræðum sem starfsfólk hefur aðgengi að.
Fyrirlesari:
Margrét Theodórsdóttir mannauðsráðgjafi Isavia.