23. maí 2019 15:01
Fyrsti fundur nýstofnaðs faghóps um málefni erlendra starfsmanna var haldinn í dag í húsakynnum Reykjavíkurborgar í Borgartúni. Fundurinn bar yfirskriftina Fjölþjóðlegur vinnustaður – auður og áskoranir og var streymt af Facebooksíðu Stjórnvísi. Fyrirlesari dagsins var Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur og framkvæmdastjóri Mirru, fræðslu og rannsóknarseturs.
Hallfríður sagði að mestur núningur í samskiptum væri í tímaskynjun, mismunandi skilningi á umhverfi og tíma. Helstu áskoranirnar væru að aðlagast og mætast á miðri leið, árekstrar í samskiptum, þekkingarleysi og ólíkur skilningur, fordómar og mismunun eru oft fylgifiskar margbreytileikans, fordómar og mismunun ekki náttúrulögmál og að mannfólkið er meira líkt en ólíkt. Mikilvægt er að spyrja sig stöðugt hvaðan okkar eigin hugmyndir koma. Á Íslandi ríkir mikil einsleitni. Vinnustaðir endurspegla þjóðfélagið sem við búum í. Innflytjendum hefur fjölgað um 80% frá árinu 2000. Í dag er 5 hver manneskja á vinnumarkaði af erlendum uppruna. Þetta hefur gerst á 20 árum á meðan það gerist á 60-80 árum annar staðar. Þetta eru því gríðarlegar breytingar á stuttum tíma.
Menning er manngerð, lærð og lifandi. Ef hún væri það ekki gætum við engu breytt. Viðhorf breytast og við erum stöðugt að breyta menningunni t.d. til kvenna með kvennabaráttunni. Við sjáum ekki breytinguna fyrr en við berum saman eitt tímabil við annað.