30. nóvember 2017 09:14
Faghópur Stjórnvísi um góða stjórnarhætti hélt fund í samvinnu við fræðslunefnd FKA í Húsi Atvinnulífsins. Á fundinum var fjallað almennt um einkenni stjórna og þá vitundarvakningu sem orðið hefur á síðustu árum um góða stjórnarhætti.
Jón Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi frá PwC fjallaði um hvernig má flokka stjórnir í fjórar tegundir stjórna, málamyndastjórn, leppstjórn/stimpilstjórn, ráðgefandi stjórn og virka stjórn. Jón kynnti helstu kenningar í stjórnarháttum (sjá ítarefni). Stjórnir geta verið umboðsmannastjórnir, managerial-hegemony theory þ.e. stjórn til skrauts sem er stýrð af framkvæmdastjóra, Stewardship theory valdamikil stjórn þar sem er mikil virkni og nýsköpun, alveg öfugt við Rubber eða stimpilstjórn, þetta eru stjórnir nýsköpunarfyrirtækja sem eru oft á undan sér og að lokum er það Advisor eða ráðgjafastjórnin. Sú stjórn leggur áherslu á hvernig við bestum en ekki þróun. En hvernig er besta stjórnin? Sú besta er sú sem er blanda þ.e. drífandi stjórn, einnig fer þetta eftir stjórnarformanninum því hann er verkstjóri, hve margir eru í stjórn og hvernig hún er samsett. Ef allir eru á fleygiferð þá gleymist kjarnastarfsemin. Stefnumótun stjórna er ekki mikil í nýsköpunarfyrirtækjum. Í sjálfsmati stjórnar sést vel hvernig stjórnin er samsett. Eigendur þurfa að huga vel að því hvernig fyrirtækið er, framleiðslufyrirtæki þarf t.d. ráðgjöf en félög á fleygiferð þurfa að huga að því hvert þau eru að fara. Hvaða auð á fyrirtækið? Mikilvægasta atriðið er að huga að því hvernig stjórn við erum.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands fjallaði um hvaða áhrif diplomanám í góðum stjórnarháttum höfðu á verklag og vinnubrögð hennar í hlutverki framkvæmdastjóra. Hulda starfaði sem bóndi í 16 ár, lærði að vera kjólameistari, starfaði í Arion banka og er nú framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar. Hulda tók nám í góðum stjórnarháttum hjá Eyþóri Ívarssyni og breytti það hennar sýn sem framkvæmdastjóri. Ragnheiður hefur lært að gefa stjórnarmönnum frumkvæðið og gefið þeim tækifæri til að þroskast. Varðandi áætlun stjórnar t.d. þá er mikilvægt að heyra frá stjórn hvaða verkefni þau vilja sinna en ekki kynna sem framkvæmdastjóri hvað hún vill. Hver er ábyrgur fyrir stefnunni ef framkvæmdastjóri kemur með hana og kynnir hana? Framkvæmdastjóri á ekki að matreiða til stjórnar heldur fá stjórnina með sér. Þeir sem eru í stjórn verða að gæta þess að framkvæmdastjórinn taki ekki af þeim ábyrgð og leyfi þeim að vaxa. Framkvæmdastjórinn þarf líka að gæta þess að taka ekki ábyrgðina sjálfur.
Martha Eiríksdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarkona fjallaði um um reynslu sína af því að vera í ólíkum hlutverkum í atvinnulífinu. Martha hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu sem frumkvöðull, stjórnandi og stjórnarmaður m.a. í Reitum, Innnes, Olíudreifingu, Farice og Ísfelli. Martha hefur lengst af starfað í bankageiranum, verið bæði framkvæmdastjóri Kreditkorta og stjórnarformaður, unnið hjá Saga-film við James Bond mynd sem varð upphafið að því að farið var að sigla á Jökulsárlóni. Martha situr í nokkrum stjórnum t.d. Innnes, Olíudreifingu, Ísfelli og hefur í stjórn Varðar o.fl. þær stjórnir sem Martha hefur starfað í hafa verið ólíkar. Sérþekkingin er til staðar inn í fyrirtækinu og stjórnarmaður þarf ekki þessa sérþekkingu heldur að laða fram sérþekkingu framkvæmdastjóra. Miklar jákvæðar breytingar hafa orðið á stjórnum sl. fimm ár. Þær eru orðnar faglegri og allir meðlimir orðnir meðvitaðri. Bestu stjórnirnar eru þær sem eru með ólíku fólki úr ólíkum geira og ólíkum aldri. Sem stjórnarmaður færðu tækifæri til að vinna með frábæru fólki og getur miðlað inn í eigið líf og aðrar stjórnir. Starf stjórnar má líkja við skipafélag. Stjórn ákveður hve stór skipið á að vera og ræður skipstjórann. Skipstjórinn siglir skipinu þangað sem stjórnin ákveður að það eigi að fara. Hann þarf að bregðast skjótt við ef versnar í sjóinn og taka ábyrgar ákvarðanir. Stjórnin styður skipstjórann og lykilatriðið að báðir gangi í takt við hvorn annan. Í eigin fyrirtæki ertu allt í senn, hluthafinn, fjármálastjórinn, með lengsta vinnutímann og lægstu launin. Sífellt koma upp ný verkefni. Stundum er eins og sumir haldi að leiðin að árangri eigi að vera samfelld og bein, stefnuföst og markviss. En leiðin er oft að fara mismunandi stíga. Vegakortið þitt verður aldrei hannað fyrir þig.
Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma, stjórnarformaður N1 og varaformaður stjórnar Isavia fjallaði um hvort og þá hvaða breytingar hafa orðið á stjórnarháttum með aukinni stjórnarþátttöku kvenna. Margrét hefur setið í stjórn N1, Isavia, RB, Heklu, Lyfjaþjónustunni, Esso, Statoil, Q8, Shell, Icepharma o.fl. Margrét varpaði fram spurningunni: „En af hverju fer maður í stjórn?“ Það getur verið eignarhald þ.e. þú ert eigandi, faglegar forsendur þ.e. þú ert að nýta reynslu þína þar inni eða það geta verið hagsmunir fyrirtækis þ.e. þú ert að verja hagsmuni fyrirtækja sem á í fyrirtækinu, kvótakerfi. Í dag eru tímamót í samfélaginu því þessi gömlu völd eru að hrynja. Í dag sitja 39 konur í stjórnum 23 stærstu fyrirtækjum landsins, þar af eru 7 stjórnarformenn og 3 varaformenn og í þremur stjórnum sitja erlendar konur með mikla faglega þekkingu/reynslu. Konur eru að breyta heilmiklu í samfélaginu og árif kvenna í stjórnum eru mikil. Konur eru ekki að sækjast eftir völdum, frekar að hafa áhrif og láta gott af sér leiða þær reyna að hafa áhrif á stöðu jafnréttismála og tryggja að fleiri konur fái tækifæri sem stjórnendur. Þær fylgja góðum stjórnarháttum og hafa sterka samfélagsvitund. Kvótakerfið er mjög mikilvægur þáttur í breytingarferli stjórnarhátta auk þess að styrkja jafnréttisbaráttuna. Mikilvægt er að stjórn sé í samskiptum við fleiri aðila en framkvæmdastjóra og einnig er mikilvægt er að fara yfir í upphafi stjórnarfunda hvaða samskipti hafi átt sér stað milli funda.