8. desember 2017 09:24
Alþingi er æðsti handhafi löggjafarvalds á Íslandi og er margbrotin stofnun sem sinnir mikilvægum og flóknum verkefnum. En hvernig skyldi starfsemin líta út frá sjónarhóli verkefnastjórnunar? Þá innsýn fengu Stjórnvísifélagar á fundi á vegum faghóps um verkefnastjórnun og MPM-alumni félagið í HR í morgun þar sem Jón Steindór Valdimarsson flutti erindi. Fundarstjóri var Helgi Þór Ingason forstöðumaður MPM-námsins við HR.
Jón Steindór Valdimarsson MPM tók sæti á alþingi haustið 2016 fyrir hönd þingflokks Viðreisnar. Jón Steindór er menntaður lögfræðingur og útskrifaðist úr MPM-náminu árið 2013. Hann hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri iðnaðarins, setið í fjölda stjórna og verið í eigin rekstri. Síðar söðlaði hann um og snéri sér að stjórnmálum og er einn af frumkvöðlum þess að flokkurinn Viðreisn varð til.
Þegar ríkisstjórn verður til þá kemur ríkisstjórnin sér saman um stjórnarsáttmála þ.e. hvað eigi að gera á tímabilinu. Stjórnarsáttmálar eru yfirlýsingar um fyrirætlanir en ekki beint áætlanir. Ráðherrar eru núna 11 (einn utan þings) og hafa þeir frumkvæði í sínum ráðuneytum að alls kyns verkefnum. Hvert þing er sjálfstæð eining, á hverju þingi eru lögð fram þingmálaskrá. Hver ríkisstjórn skal í upphafi síns kjörtímabils leggja fram 5 ára fjármálastefnu og 5 ára fjármálaáætlun auk fjárlaga til eins árs. Þingið þarf að samþykkja fjármálastefnuna, fjármálaáætlunina og fjárlögin.
Á skrifstofu Alþingis starfa 100 manns. Þar eru mikil formlegheit varðandi þingfundi, skipulagsatriði o.fl. Kosnir eru 63 þingmenn til 4ra ára. Þingmál sem ekki klárast á þingtímabilinu falla dauð og þarf að taka þau fyrir aftur á næsta þingi. Ástæðan er sú að ef menn vilja ekki taka afstöðu til mála þá er hægt að eyða málinu út. Í þinginu eru átta fastanefndir og raðast i þær eftir þingstyrk.
En hvað getur þingmaður gert? Lagt fram lagafrumvarp, þingsályktun, fyrirspurnir til ráðherra (spurt um hluti þar sem svarandi er veikur fyrir), spurt um ákveðin mál, óskað eftir skýrslu, rætt um störf þingsins og tekið þátt í umræðum (þingið er umræðuvettvangur).
Jón Steindór velti fyrir sér hvort hægt sé að stýra pólitík út frá verkefnastjórnun? Þar eru 63 skoðanir, 8 skoðanablokkir 3ja blokka blanda ræður (meirihlutinn) og 4ra blokka blanda andæfir (minnihlutinn). Er stjórnarsáttmáli gott stefnuplagg? Væntanlega ekki þó sumt sé mjög skýrt eins og t.d. að fella niður virðisaukaskatt af bókum. Er þingmálaskrá góð verkáætlun? Þangað koma inn mjög mörg mál. Verið er að breyta þessu og nú fer ekkert mál á þingmálaskrá nema búið sé að kynna það áður í ákveðnu ferli og þar með styttist þingmálaskráin.
Form skiptir gríðarlega miklu máli og það koma leiðbeiningar varðandi hvernig á að ávarpa og hversu lengi má tala í hvaða umferð. Formenn nefnda ættu að fá meiri leiðbeiningar og allir þingmenn að læra að beita virkri hlustun. Mikilvægt er að setja upp góða áætlun. Forsætisráðherra er tannhjólið í ríkisstjórninni og ráðherra við þingnefndirnar.