Næsti viðburður faghóps Stjórnvísi um persónuvernd mun einblína á áhættumat við vinnslu persónuupplýsinga, persónusnið og sjálfvirka ákvarðanatöku.
Hjördís Halldórsdóttir lögmaður mun í erindi sínu fjalla um persónusnið og sjálfvirka ákvarðanatöku, sem einnig mætti nefna persónugreiningu og gervigreindarákvarðanir. Ný persónuverndarreglugerð tekur á þessu hvoru tveggja og gerir tilteknar kröfur til fyrirtækja sem mikilvægt er að þekkja, ekki síst ef ætlunin er að sjálfvirknivæða viðskiptaferla og nýta sér gervigreind í rekstrinum.
Hjördís Halldórsdóttir er lögmaður með réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti. Hún er einn af eigendum LOGOS og meðal sérsviða hennar er upplýsingatækni. Hún lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands og er með LL.M. gráðu í lögum og upplýsingatækni frá Stokkhólmsháskóla.
Oddur Hafsteinsson og Sigríður Laufey Jónsdóttir mun fara yfir hvernig Creditinfo nálgaðist áhættumat við vinnslu persónuupplýsinga innan fyrirtækisins.
Sigríður Laufey Jónsdóttir er forstöðumaður Þjónustu-og lögfræðisviðs og lögfræðingur Creditinfo. Laufey er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með héraðsdómslögmannsréttindi. Áður starfaði hún sem sviðsstjóri hjá Umboðsmanni skuldara, sem sviðsstjóri hjá Motus og Lögheimtunni og sem forstöðumaður í Búnaðarbanka Íslands.
Oddur Hafsteinsson er upplýsingaöryggisstjóri hjá TRS ehf. Oddur hefur aðstoðað fjölda fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga við innleiðingu upplýsingaöryggis undanfarin ár. Hann hefur einnig verið að aðstoða ýmiss fyrirtæki við að aðlaga sig að nýjum persónuverndarlögum.