Faghópur um persónuvernd hélt einstaklega áhugaverðan fund í Háskólanum í Reykjavík í hádeginu í dag. Þar var einblínt á áhættumat við vinnslu persónuupplýsinga, persónusnið og sjálfvirka ákvarðanatöku.
Hjördís Halldórsdóttir lögmaður og einn af eigendum LOGOS fjallaði í erindi sínu um persónusnið og sjálfvirka ákvarðanatöku, sem einnig mætti nefna persónugreiningu og gervigreindarákvarðanir. Ný persónuverndarreglugerð tekur á þessu hvoru tveggja og gerir tilteknar kröfur til fyrirtækja sem mikilvægt er að þekkja, ekki síst ef ætlunin er að sjálfvirknivæða viðskiptaferla og nýta sér gervigreind í rekstrinum. Það er ekkert persónusnið í hraðasekt en ef tryggingarfélög færu að nýta sér þessar upplýsingar væri það hins vegar persónusniðið. Elon Musk segir að gervigreindin sé stærsta ógn framtíðarinnar vegna þess að hún muni yfirtaka ákvörðunarferla. Algoritmar eru mannanna verk og eru mismiklir að gæðum. Deilingaraðferðir eru allt algoritmar og til eru margar aðferðir mismunandi góðar. Mikilvægt er að vinna ekki á úreltum gagnasöfnum. Mannleg íhlutun er t.d. þegar sjálfvirk tækni er notuð til að fá meðmæli en manneskja tekur endanlegt vald yfir ákvörðuninni. Raunverulegt vald verður að vera hjá manneskju, ekki sjálfvirkri tækni. Algoritmar velja t.d. hvaða auglýsingar birtast þér. Einstaklingur á alltaf rétt á að fá mannlega íhlutun. Dæmi var nefnt um banka sem hafnar yfirdrætti eða láni hjá viðskiptavini. Skylda er að bankinn bjóði upp á að viðskiptavinur geti komið í bankann og rætt sín mál við manneskju í bankanum.
Oddur Hafsteinsson upplýsingaöryggisstjóri hjá TRS og Sigríður Laufey Jónsdóttir lögfræðingur og forstöðumaður þjónustu-og lögfræðisviðs Creditinfo fóru yfir hvernig Creditinfo nálgaðist áhættumat við vinnslu persónuupplýsinga innan fyrirtækisins. Tekin var ákvörðun um að setja vinnsluskrár fyrir hverja vöru. Varðandi áhættumat á vinnsluskrá þá er farið í gegnum ákveðnar spurningar. Hver er vinnslan? Hver eru verðmætin? Hver er ógnin? Hvað getur gerst? Hverjar eru afleiðingarnar? Hver eru áhrifin og hverjar eru líkurnar? Hvert er áhættumatið? Til hvaða ráðstafanna verður greipið til? Nú er allt skjalfest og allir starfsmenn búnir að fara í gegnum ISO og persónuvernd. Formfestan kom með ISO og seinna með persónuverndinni.