Click here to join the meeting
Meðvirkni getur verið grafin djúpt í fyrirtækjamenninguna, oft án þess að stjórnendur eða starfsfólk geri sér grein fyrir því.
Sigríður Indriðadóttir, eigandi og þjálfari hjá SAGA Competence ætlar að fara yfir það með okkur hvernig meðvirkni birtist á vinnustaðnum og með hvaða hætti meðvirknimynstur geta skapast. Einnig er skoðað hvaða áhrif meðvirkni hefur á starfsfólk, vinnustaðarmenninguna og árangur í víðum skilningi og að sjálfsögðu verða kynntar einfaldar en áhrifaríkar leiðir til að efla stjórnendur og starfsfólk til að byggja upp betri vinnustað.
Sigríður er mannauðsfræðingur og markþjálfi og býr yfir fjórtán ára reynslu og víðtækri þekkingu á sviði stjórnunar, mannauðsmála og rekstrar. Sigríður starfaði sem forstöðumaður mannauðsmála hjá Mosfellsbæ, Mannviti og Íslandspósti. Eins þjálfaði hún fólk í mannlegum samskiptum hjá Dale Carnegie í fimm ár. Sigríður hefur leitt og tekið þátt í umfangsmiklum og flóknum stjórnunarverkefnum sem felast í umbyltingu á rekstri og fyrirtækjamenningu og er því vön að takast á við þær síbreytilegu áskoranir sem stjórnendur og starfsfólk glíma við dag frá degi. Sigríður vinnur markvisst með heildstæða árangursstjórnun sem felur í sér uppbyggingu á öflugri og hvetjandi vinnustaðarmenningu sem stuðlar að vellíðan, vexti og árangri starfsfólks og hjálpar þannig fyrirtækjum og starfsfólki að skrifa sína eigin SÖGU. Sigríður hefur sérhæft sig í því að þjálfa fólk í að greina og taka á meðvirkum aðstæðum sem geta skapast á vinnustöðum og deilir þeirri reynslu og þekkingu með okkur á fyrirlestrinum.