Yfir 500 manns mættu á fund í morgun á vegum mannauðsstjórnunar hjá Stjórnvísi. Hér má nálgast glærur af fundinum. Fundurinn var um meðvirkni á vinnustöðum en meðvirkni getur verið grafin djúpt í fyrirtækjamenninguna, oft án þess að stjórnendur eða starfsfólk geri sér grein fyrir því. Fyrirlesarinn Sigríður Indriðadóttir, eigandi og þjálfari hjá SAGA Competence fór yfir hvernig meðvirkni birtist á vinnustaðnum og með hvaða hætti meðvirknimynstur geta skapast. Einnig var skoðað hvaða áhrif meðvirkni hefur á starfsfólk, vinnustaðarmenninguna og árangur í víðum skilningi og að sjálfsögðu voru kynntar einfaldar en áhrifaríkar leiðir til að efla stjórnendur og starfsfólk til að byggja upp betri vinnustað.
Sigríður sagði að það væri starfsfólkið sem væri meðvirkt ekki vinnustaðurinn. En hvað einkennir starfsfólk sem er meðvirkt? Fýlustjórnun, þöglumeðferðin, reiðstjórnun, ógnarstjórnun, hræðslustjórnun, talað á bakvið, fólk reynir að stýra öðrum með alls kyns hætti. Meðvirkt starfsfólk er í afneitun og oft á tíðum leynist óheiðarleikinn með. Meðvirkt starfsfólk er óöruggt og lítið í sér og tekur gjarnan ekki ábyrgð sjálft. Áhrif meðvirkni er gríðarleg því hún veldur vanlíðan, streitu og kvíða, vonleysi sem leiðir til minni afkasta sem skapa hegðunarvanda, stjórnleysi birtist og þetta endar með veikindum og kulnum því ekkert er gert. Þegar meðvirknimynstur fá að blómstra verður mikil þreyta á vinnustaðnum. Í framhaldi hætta afburðarstarfsmenn því þeir láta ekki bjóða sér ástandið og árangur minnkar. Grundvallaratriði þess að fólki líði vel er að þeir treysti sínum yfirmanni og fólk hættir að treysta yfirmanni sem ekki taka á hlutunum. Þeir stjórnendur sem ekki taka á erfiðum hlutum eru því að missa traust starfsmanna.
En hvað er til ráða? Ábyrgðin byrjar hjá hverju og einu okkar því við berum öll ábyrgð. Mikilvægt er að horfa á styrkleika annarra og okkar. Endurgjöf bætir frammistöðu og hjálpar fólki að sjá sjálft sig. Mikilvægt er að fá endurgjöf og gefa endurgjöf.