M101 Háskólinn í Reykjavík, Menntavegur, Reykjavík
Verkefnastjórnun,
Hvernig getur háþróuð verkefnahermun bætt árangur verkefna?
Í leikhúsinu er alltaf haldin generalprufa áður en leikrit er frumsýnt. Í þjálfun flugmanna gegna háþróaðir flughermar lykilhlutverki í að þjálfa fólk í að bregðast við allskonar aðstæðum. Þessu er ekki svona farið í verkefnum því verkefnateymi fá sjaldan tækifæri til að æfa sig og gera prófanir á verkefni sínu áður það er framkvæmt.
MPM-námið við Háskólann í Reykjavík, í samstarfi við MPM alumni félagið og Stjórnvísi hefur fengið Guy Giffin framkvæmdastjóra Prendo Simulations til að halda erindi um hvernig verkefnahermun getur stuðlað að betri árangri í verkefnum. Hann ætlar að segja frá hvernig verkefnamiðaðar skipulagsheildir og menntastofnanir geta nýtt sér háþróaða hermun til að þjálfa starfsfólk og nemendur í þessu skyni.
Fyrirtæki Prendo Simulations hefur þróað hermilíkön og byggt upp þjálfunarbúnað til að þjálfa fólk í að leiða verkefni. Margir af helstu viðskiptaskólum í heiminum nota hugbúnaðinn við kennslu, nefna má skóla á borð við Cambridge, Columbia, Cranfield, ESADE, HEV Paris, IESE, INSEAD, MIT og UCL. Guy hefur víða um heim leitt vinnustofur um notkun hugbúnaðarins. Fyrirtæki eins og Deloitte, Deutsce bank, IBM, SAP, Shell og Sameinuðu þjóðirnar hafa nýtt sér hugbúnaðinn.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu MPM-námsins https://www.ru.is/mpm og Facebook hér
Fyrirlesturinn fer fram í stofu M101 í Háskólanum í Reykjavík og er öllum opinn. Aðgangur er gjaldfrjáls.