„Hvernig getur háþróuð verkefnahermun bætt árangur verkefna?“ Var yfirskrift fundar í morgun á vegum faghóps um verkefnastjórnun og MPM námsins við HR. Í leikhúsinu er alltaf haldin generalprufa áður en leikrit er frumsýnt. Í þjálfun flugmanna gegna háþróaðir flughermar lykilhlutverki í að þjálfa fólk í að bregðast við allskonar aðstæðum. Þessu er ekki svona farið í verkefnum því verkefnateymi fá sjaldan tækifæri til að æfa sig og gera prófanir á verkefni sínu áður það er framkvæmt.
Guy Giffin framkvæmdastjóri Prendo Simulations hélt erindi um hvernig verkefnahermun getur stuðlað að betri árangri í verkefnum. Hann sagði frá hvernig verkefnamiðaðar skipulagsheildir og menntastofnanir geta nýtt sér háþróaða hermun til að þjálfa starfsfólk og nemendur í þessu skyni. Fyrirtæki í eigu Guy, Prendo Simulations, hefur þróað hermilíkön og byggt upp þjálfunarbúnað til að þjálfa fólk í að leiða verkefni. Margir af helstu viðskiptaskólum í heiminum nota hugbúnaðinn við kennslu, nefna má skóla á borð við Cambridge, Columbia, Cranfield, ESADE, HEV Paris, IESE, INSEAD, MIT og UCL. Guy hefur víða um heim leitt vinnustofur um notkun hugbúnaðarins. Fyrirtæki eins og Deloitte, Deutsce bank, IBM, SAP, Shell og Sameinuðu þjóðirnar hafa nýtt sér hugbúnaðinn.
Guy sagði frá því hvernig við lærum í fyrirtækjum. Við hlustum, lesum, tölum um málið, æfum okkur og lærum af reynslunni. Áhrifaríkasti lærdómurinn kemur með reynslunni. Guy sagði frá því hve hermilíkan af vistarverum Bin Laden kom að miklu gagni við að ná honum.