23. október 2020 11:40
Fundurinn var tekinn upp og má nálgast á facebooksíðu Stjórnvísi.
Hundrað manns sóttu í morgun fund faghópa um góða stjórnarhætti og samfélagsábyrgð þar sem fjallað var um ábyrga stjórnarhætti og rætt um breytingar á lögum um ársreikninga og lög um endurskoðendur og endurskoðun (gagnsæi upplýsinga fyrirtækja).
Fundarstjóri var Jón Gunnar Borgþórsson formaður faghóps um góða stjórnarhætti. Jón Gunnar kynnti Stjórnvísi og hvatti alla þá sem ekki væru skráðir í félagið að sækja um aðild. Í framhaldi kynnti hann þá þrjá aðila sem fluttu erindi á fundinum. Frá sjónarhóli stjórnarmannsins: Sigurður Ólafsson, stjórnarmaður í lífeyrissjóði og fyrirtækjum, fjallar um ábyrgð stjórnarmanna á upplýsingagjöf til fjármagnsveitenda. Frá sjónarhóli sérfræðings í fjármálagreiningum: Jeffrey Sussman, ráðgjafi Kontra Nordic, fjallar um mun á algengri íslenskri skýrslugjöf og þess sem koma skal. Frá sjónarhóli fjármagnsveitenda: Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri EFÍA, LSBÍ og rekstrarstjóri Lífeyrisauka, fjallar um mikilvægi upplýsinga vegna greiningarskyldu fjármagnsveitenda. (sjá einnig lög nr. 102, 9. júlí 2020: https://www.althingi.is/altext/150/s/1954.html)
Sigurður Ólafsson byrjaði erindis sitt á að kynna sjálfan sig og sagði erindi sitt flutt út frá sjónarhóli stjórnarmannsins. Þörfin fyrir gagnsæi er orðin mikil til að auka traust í íslensku atvinnulífsins. Enn eru að birtast fréttir af brestum í upplýsingagjöf. Upplýsingar og góðar greiningar á þeim eru forsenda fyrir heilbrigðum rekstri og sátt í samfélaginu. Skýrar línur hafa verið lagðar með nýjum lögum. Fjárfestar fá því betri gögn og geta gert betri greiningar. Skýrsla stjórnar á að gefa glöggt yfirliti og þar á að fjalla um allt sem máli skiptir, hvað hefur gengið vel og hvaða áhætta er framundan. Varðandi breytingu laga þá breyttust þau um mitt ár 2020. Lögin skerpa á hvað skal vera í skýrslu stjórnar. Stjórn þarf að staðfesta þessar upplýsingar með undirskrift. Skatturinn og alþjóða gjaldeyrissjóðurinn höfðu bent á þetta. Árangur, áhætta og óvissa, hvernig henni er stýrt og hvað er framundan og hvernig eigi að bregðast við. Endurskoðendur staðreyna ekki þessar upplýsingar. En hvað er skýrsla stjórnar og hvað er ekki skýrsla stjórnar? Samfélagsskýrslur eru til mikillar fyrirmyndar en þær fullnægja ekki þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnar enda ekki ætlaðar til þess. Skýrsla stjórnar er heldur ekki ávarp framkvæmdastjóra. Þegar sótt er fjármögnun sbr. Icelandair þá er óskað eftir miklum upplýsingum. Skýrsla stjórnar er plagg sem er undirritað af stjórn. Hún þarf að uppfylla ýmsar formkröfur og innihalda þær upplýsingar sem skipta máli. Skýrsla stjórnar er í rauninni skýrsla stjórnenda sem stjórn staðfestir að sé rétt. Fjárfestir vill vita um árangur, hverju er stefnt að og hver er áhættan framundan. Skýrsla stjórnar þarf því að vera ríkari en áður hefur verið. Stjórnarmenn eiga að gera kröfur til endurskoðenda og stjórnenda. Áður en stjórnarmaður setur undirskrift sína undir skýrsluna þarf hann að vera viss um gæði skýrslunnar. Löggjöfin hefur sett fram skýrar línur. Umhverfið hefur mátt vera skýrara. Til að fóta sig betur sem stjórnarmaður hefur Staðlaráð Íslands hafið störf um að staðla eða setja fram stuðningsefni til að fullnægja betur kröfunum. Allt snýst þetta um góða stjórnarhætti. Að lokum hvatti Sigurður stjórnarmenn til að kynna sér vel lög og reglur um framsetningu viðbótarupplýsinga.
Jeffrey Sussman, ráðgjafi Kontra Nordic, fjallaði því næst um mun á algengri íslenskri skýrslugjöf og þess sem koma skal. Jeffrey bar saman tvær skýrslur KLM og Icelandair.
Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri EFÍA, LSBÍ og rekstrarstjóri Lífeyrisauka, fjallaði um mikilvægi upplýsinga vegna greiningarskyldu fjármagnsveitenda. Snædís fór yfir hlutverk lífeyrissjóða sem langtímafjárfestir, reynsla af ófjárhagslegri upplýsinga gjöf og greiningu og tækifærin framundan. Lífeyrissjóðir eru eining um almannastarfsemi og hvatti Snædís alla til að eiga bókina „umboðsskilda“ með því að senda sér póst. Lífeyrissjóðir fá fjármagn sem er skilda að greiða af starfsmönnum fyrirtækja. Mikil áhersla er lögð á greiningu. Allar fjárfestingar skulu byggðar á viðeigandi greiningu. Því skiptir miklu máli að gögnin séu góð sem verið er að greina. Lífeyrissjóðir þurfa að gæta þess að eignasafnið sé ólíkt til að skapa ekki of mikla áhættu. Mikilvægt er að skoða hvar áhættan liggur t.d. gagnvart ferðaiðnaðinum eða sjávarútvegi. Lífeyrissjóðir skulu setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum og sérstaka áhættustefnu og áhættustýringastefnu. Lífeyrissjóðir er eignirnar sem þeir hafa fjárfest í. Nú eru að bætast við ófjárhagslegar upplýsingar. Tvennt ýtti því af stað þ.e. að veita upplýsingar um umhverfis og starfsmannamál og að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið. En hvernig eiga fyrirtæki að koma þessum upplýsingum á framfæri? Kauphöllin lagðist yfir alla þá staðla sem notaðir hafa verið erlendis og tóku saman 33 lykla til að auðvelda fyrirtækjum að koma þessum upplýsingum á framfæri. Þetta auðveldar fjárfestum og öll vinna verður markvissari. Mikilvægi vandaðrar upplýsingagjafar er gríðarlega mikilvæg og undirstaðan undir verðmat. Lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar og horfa jafnvel 40 ár fram í tímann eða lengur. Góð upplýsingagjöf skiptir því miklu máli. Upplýsingagjöf styður við félagið, styður fjárfestinn o.fl. Breytingarnar fela í sér að fyrirtæki verður að taka skýrt fram óvissuþætti og megináhættu. Snædís Ögn sagði að það hefði gefist afskaplega vel skapalónið sem Kauphöllin lagði fram. Umhverfisáhrif vega þyngra hjá einum aðila en öðrum. Samræmd upplýsingagjöf einfaldar alla greiningarvinnu og ákvörðunartöku. Skilja þarf eftir svigrúm til að tengja við rekstur fyrirtækisins. Þessar viðbótarupplýsingar verði til þess að dýpka upplýsingar sem koma fram í Samfélagsskýrslu og Ársskýrslu. Í lok fundar voru fyrirspurnir og þar kom m.a. fram að dæmi um góða ársskýrslu væri að finna hjá Marel.