Besta Bistro, 6. hæð, Suðurlandsbraut 8, Reykjavík
Innkaupa- og vörustýring,
Miðvikudaginn 30. október verður boðið upp á heimsókn í Vodafone (Sýn hf). Þar verða tvö erindi sem munu annars vega fjalla um innkaup og birgðastýringu fyrirtækisins og hinsvegar útboðsaðferðir í innkaupum og samstarfið við Vodafone Group. Einnig verður fjallað um miðlægan lager og innkaupastýringu, hámörkun virði samninga og mælikvarða innkaupadeildar fyrirtækisins.
Eydís Ýr Rosenkjær, deildarstjóri innkaupa og lagers hjá Vodafone, mun fjalla um hvernig innkaupum og birgðastýringu er háttað hjá Vodafone og hvaða ávinningi það skilaði fyritækinu að hafa miðlægan lager. Innkaupadeild Vodafone vinnur eftir ákveðnum mælikvörðum, til að mynda lágmarksbirgðir, tíðni pantana, afskrifta og frávikum við talningar. Farið verður lauslega yfir gagnsemi þessara mælikvarða og útfærslu þeirra hjá Vodafone.
Eydís Ýr er með M.Sc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands þar sem hún lagði áherslu á straumlínustjórnun og hefur hún skrifað fræðigreinar um straumlínustjórnun ásamt Eðvaldi Möller. Eydis Ýr hefur starfað hjá Vodafone í fjögur ár en áður starfaði hún hjá Landsbankanum.
Guðrún Gunnarsdóttir, aðfangastjóri, mun fjalla um hverju útboðsaðferðir í innkaupum hafa skilað fyrirtækinu ásamt því hvernig miðlæg innkaupastýring getur náð fram fjárhagslegum sparnaði og um leið aukið gæði og öryggi innkaupa. Guðrún mun fjalla um hvernig ráðgjöf við stjórnendur vegna tilboða og samninga kemur að gagni, skjalastýringu samninga og hvernig er hægt að ná fram hámarks virði samninga. Hún mun einnig segja frá þeim ávinningi sem hlýst af samstarfi í innkaupum við Vodafone Group.
Guðrún hefur víðtæka reynslu af innkaupum. Hún starfaði um árabil hjá Ríkiskaupum áður en hún tók við stöðu Aðfangastjóra hjá Vodafone, nú Sýn hf.. Guðrún er með MSc gráðu í Alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík.
Frá kl. 8:30 mun Sýn hf. bjóða uppá kaffi ásamt léttum og hollum morgunverði á 6. hæð (Besta Bistro) að Suðurlandsbraut 8, höfuðstöðvum Vodafone á Íslandi.