Vitundarmál vegna upplýsingaöryggis geta verið margskonar og að mörgu sem hægt er að huga. Á þessari kynningu ætlum við að skoða vitundarmál í víðu samhengi og skoða tækifæri til að gera enn betur. Við skoðun hvernig fyrirtæki standa að innri og ytri samskiptum en líka hvernig stuðlað er að aukinni vitund meðal borgara landsins. Samvinna og samstarf verður til grundvallar enda oft leiðin að farsælli og hagkvæmri lausn.
Hermann Þór Snorrason, sérfræðingur á Fyrirtækjasviði Landsbankans segir frá því hvernig Landsbankinn stendur að vitundarvakningu um netöryggi gagnvart bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Í erindinu fjallar Hermann um ytri netöryggisfræðslu bankans, ferlinu við textaritun, hvernig gagnaöflun er háttað, samstarfinu við auglýsingastofur og erlenda banka, hann lýsir viðbrögðum viðskiptavina við fræðsluefninu og fleiru í þeim dúr. Hermann hefur m.a. stýrt netbönkum og vefþjónustum Landsbankans og vann að innleiðingu RSA-öryggiskerfisins sem byggir m.a. á mynstur- og umhverfisgreiningum og hefur ritað fjölda greina um netöryggismál banka.
Daði Gunnarsson hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu segir okkur frá samstarfi lögreglu um allan heim þegar kemur að netbrotamálum og hver þróunin er innan íslensku lögreglunnar þegar kemur að þessu ört vaxandi máli. Farið yfir skýrslu EUROPOL um skipulögð afbrot á netinu (IOCTA) og hvað sé sameiginlegt með henni og raunveruleikanum á Íslandi. Þá ræðir hann um samstarfsaðila á sviði netbrota og netöryggis bæði innlenda og erlenda. Þá fer hann einnig yfir námskeið sem í boði er fyrir verðandi lögreglumenn í Háskólanum á Akureyri með áherslu á netbrot og netöryggi. Daði er með MSc. í Forensic computing and cybercrime investigations frá UCD og er með CFCE vottun frá IACIS. Hann hefur sótt mörg námskeið á vegum lögreglunnar í tengslum við netbrot og netrannsóknir ásamt því að kenna í Háskólanum á Akureyri, Lögregluháskólanum í Noregi (PHS), Evrópska lögregluskólanum (CEPOL) og gert námsefni fyrir EUROPOL, CEPOL o.fl.
Daníel Máni Jónsson, Öryggisstjóri hjá Valitor ætlar að segja okkur frá hvað Valitor er að gera varðandi öryggis vitundarvakningu meðal starfsmanna sinna. Varpa fram nokkrum heilræðum sem gott getur verið að hafa á bakvið eyrað þegar fyrirtæki setja saman áætlun og efni fyrir vitundarherferðir sínar. Daníel Máni þreytist seint á að fjalla um mikilvægi samstarfs og samtals þegar kemur að öryggismálum, hvort sem er innan fyrirtækja eða milli fyrirtækja. Upplýsingaöryggi er ekki einstaklingsíþrótt heldur hópíþrótt og ekki ólíklegt að hann komi lítillega inn á það og deili með okkur reynslu sinni í þeim efnum. Daníel Máni hefur lengst af starfað í hröðum heimi greiðslumiðlunar þar sem öryggi og traust eru lykil þættir og þó hann hafi farið vítt og breytt um skipurit Valitor hafa öryggismál yfirleitt verið ofarlega á baugi í þeim hlutverkum sem hann hefur gengt hjá félaginu og dótturfélögum.