Click here to join the meeting
Hvað er SBTi og hvernig hafa OR og Ölgerðin nýtt sér það í sinni sjálfbærnivegferð?
Dagskrá:
- Hvað er SBTi? – Rannveig Anna Guicharnaud frá Deloitte segir almennt frá SBTi og í hverju það felst
- Ölgerðin og SBTi – Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni og starfsumhverfis hjá Ölgerðinni segir frá vegferð Ölgerðarinnar frá skuldbindingu að innleiðingu SBTi
- Orkuveita Reykjavíkur og SBTi – Snorri Jökull Egilsson, sérfræðingur í loftslags- og umhverfismálum, segir frá vegferð OR að samþykkt á kröfum til 2030 og áætlun um staðfestingu á Net-Zero losun
Science Based Targets initiative (SBTi) eru vísindaleg viðmið sem veita fyrirtækjum skýra leið í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsáttmálans um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður. Þannig geta fyrirtæki fengið markmið sín um samdrátt í losun tekin út af sérfræðingum miðað við nýjustu loftslagsvísindi.
SBTi eru óhagnaðardrifin samtök eða samstarfsverkefni nokkurra stofnana sem tengjast loftslagsvísindum. Þau hafa þann tilgang að ýta undir metnaðarfullar loftslagsaðgerðir í einkageiranum. SBTi veitir fyrirtækjum sem setja sér vísindaleg markmið tækni- og sérfræðiaðstoð í takt við nýjustu loftslagsvísindin. Teymi sérfræðinga kemur að því að veita fyrirtækjum sjálfstætt mat og staðfestingu á markmiðum.
Níu íslensk fyrirtæki, þar af eitt sem er hluti af alþjóðlegri keðju, hafa byrjað vegferð sína til að fá markmið sín um losun samþykkt af SBTi og fimm þeirra hafa fengið markmið sín staðfest. Ölgerðin var fyrsta íslenska fyrirtækið sem fékk markmið sín samþykkt, árið 2021 og nú í sumar fékk Orkuveita Reykjavíkur (OR) sín markmið sín til 2030 samþykkt. OR hefur einnig sótt um að fá „Net-Zero“ markmið sín samþykkt.
Við fáum fulltrúa Ölgerðarinnar og OR til að segja frá sinni vegferð, frá því fyrirtækin skuldbundu sig til að fá vísindaleg viðmið sín staðfest og þar til staðfesting fékkst frá SBTi. Við heyrum hvernig þessi vegferð hefur hjálpað þeim og hvernig þau aðlaga sína sjálfbærnivinnu í framhaldinu af niðurstöðum vísindalegu viðmiðanna.
Erindin verða upplýsandi fyrir alla sem huga að þessari vegferð, eða þá sem vilja vita meira um SBTI og hvernig ferlið hefur nýst þeim fyrirtækjum sem hafa fengið markmið sín samþykkt.
Fundarstjóri verður Íris Þórarinsdóttir, umhverfisstjóri hjá Reitum fasteignafélagi.