Á viðburði loftslagshóps þann 9. október sl. var fjallað um hvernig fyrirtæki geti nýtt sér vísindaleg viðmið Science Based Targets initiative (SBTi) við að setja sér loftslagsmarkmið og vinna með vísindalegri nálgun að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsamningsins.
Níu íslensk fyrirtæki hafa byrjað þá vegferð að nýta SBTi í þessum tilgangi og fimm þeirra hafa fengið markmið sín samþykkt. Rannveig Anna Guicharnaud hjá Deloitte rakti hvað felst í loftslagsmarkmiðum SBTi en þau gera atvinnulífinu kleift að setja sér markmið í samræmi við það sem vísindasamfélagið er sammála um. Um er að ræða verkfæri sem nýtist við að skipta yfir í lágkolefnishagkerfið og skapar innleiðing þeirra ýmsan ábata í rekstri, minna kolefnisspori o.fl. Hún rakti hvað þarf að gera við að innleiða aðferðafræðina, markmið sett og leiðin að þeim vörðuð.
Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni og starfsumhverfis hjá Ölgerðinni fjallaði um vegferð fyrirtækisins í SBTi, af hverju þessi vegferð var valin, hver hún hefur verið, ávinningur hennar og næstu skref.
Snorri Jökull Egilsson, sérfræðingur í loftslags- og umhverfismálum hjá OR sagði frá vegferð fyrirtækisins að samþykkt á kröfum til 2030 og áætlun um staðfestingu á Net-Zero losun. Hann fjallaði í þessu samhengi líka um ISO 14064 og vottun á loftslagsbókhaldi, CSRD sjálfbærnireglugerð ESB og EU Taxonomy.
Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum.