Click here to join the meeting
Í fyrri hluta þessa örfyrirlestrar mun Jenný Kristín Valberg, ráðgjafi á vegum Bjarkarhlíðar, koma og ræða birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum og helstu merki þess með það að markmiði að yfirmenn geti átt betri möguleika á að greina þennan hóp. Einnig fer Jenný yfir helstu áskoranir sem þessi hópur stendur frammi fyrir og hvaða leiðir yfirmenn gætu farið til að styðja við þessa einstaklinga, sem og yfir þau úrræði sem eru í boði fyrir bæði þolendur og gerendur og hvernig þau úrræði hafa gagnast.
- Jenný er með BA gráðu í mannfræði ásamt meistaragráðu í kynjafræði með áherslu á ofbeldi í nánum samböndum frá Háskóla Íslands því til viðbótar hefur hún lokið fyrsta ári í félagsráðgjöf. Jenný hefur langa reynslu af því að starfa með þolendum ofbeldis. Starfaði hún um árabil sem ráðgjafi hjá Samtökum um Kvennaathvarf. Jenný hefur stundað rannsókir ásamt því að taka þátt í að móta nýjar áherslur í stjórnsýslunni til að koma betur og markvissara til móts við þarfir þolanda ofbeldis. Jenný leggur áherslu á að mæta brotaþolum ofbeldis á þeirra forsendum og þar með senda skilaboð um að ofbeldi er ekki liðið í samfélaginu.
Í seinni hluta fyrirlestrarins mun Adriana Pétursdóttir, leiðtogi í starfsmannaþjónustu hjá Rio Tinto, ræða hvort heimilisofbeldi sé einkamál starfsmannsins eða hvort það komi vinnustaðnum við. Með auknum tilkynningum til lögreglu og aukinni umræðu um heimilisofbeldi er spurning hvort atvinnurekendur geta lagt sitt af mörkum til að sporna við vaxandi vandamáli. Hjá Rio Tinto er rík öryggismenning og er mikið lagt uppúr öryggi starfsfólks bæði á vinnustaðnum og heima, og mun Adriana leyfa þátttakendum að kynnast þeirri nálgun sem Rio Tinto er að nota til að nálgast öryggi starfsmanna heiman við á faglegan máta.
- Adriana hóf störf hjá Rio Tinto 2016 en hefur alla starfsævi sína unnið við mannauðsmál ýmist í einka- eða opinbera geiranum. Adriana er viðskiptafræðingur með MIB í alþjóðaviðskiptum og situr í stjórn Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi.