Click here to join the meeting
Á viðburðinum munu þrjár öflugar konur sem starfa sem upplýsingaöryggisstjórar á mismunandi vettvangi miðla með okkur reynslu sinni og fara m.a. yfir hver helstu hlutverkin og verkefnin séu, hvað ákvarðar mikilvægi málaflokksins ásamt því að taka umræðu um hvaða kosti sé mikilvægt að hafa til að sinna hlutverki upplýsingaöryggisstjóra. En það eru þær Elísabet, Guðríður og Ragna sem munu miðla með okkur reynslu sinni.
Elísabet Árnadóttir, öryggisstjóri Advania. Elísabet er verkfræðingur með gráðu í viðskiptafræði og með próf í verðbréfamiðlun. Hún stýrir einnig áhættumati, áhættugreiningu og umbótaverkefnum í upplýsingaöryggi. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun og ráðgjöf hjá framleiðslu-, fjármála- og fjarskiptafyrirtækjum og hefur annast gæðastjórnun, upplýsingaöryggi og áhættustjórnun. Elísabet hefur byggt upp og rekið gæðakerfi með ISO stöðlunum og ITIL og hefur starfað sjálfstætt, hjá Össuri og hjá Arion banka ásamt því að hafa setið í stjórn Lífsverks, lífeyrissjóðs verkfræðinga.
Guðríður Steingrímsdóttir, gæða- og upplýsingaöryggisstjóri Veritas. Guðríður er lyfjafræðingur og með vottun í verkefnastjórnun. Hún starfaði áður í lyfjaskráningum þar sem gæða- og öryggismál eru hátt metin en hefur starfað sem upplýsingaöryggisstjóri frá árinu 2017 þegar hún tók við starfi sem gæða- og upplýsingaöryggisstjóri hjá Veritas.
Ragna Elíza Kvaran, upplýsingaöryggisstjóri VÍS. Ragna hefur unnið í tæp tíu ár hjá VÍS og hefur sinnt gæðamálum, verið skjalastjóri og persónuverndarfulltrúi. Framtíðarsýn VÍS er að verða stafrænt þjónustufyrirtæki en því fylgja einnig áskoranir við að tryggja öryggi upplýsinga. Mikil áhersla er á þennan málaflokk hjá félaginu með dyggum stuðningi stjórnenda og stjórnar.