Stjórnendur víðsvegar um heiminn telja að sköpunargleði sé einn af þeim þáttum sem vegur hvað þyngst til að fyrirtæki nái árangri, og alþjóða efnahagsstofnunin spáir að sköpunargleði verði á meðal þriggja mikilvægustu eiginleika starfsfólks árið 2020. Sköpunargleði er forsenda nýsköpunar og nýsköpun er grundvöllur samkeppnishæfni fyrirtækja.
Stjórnendur hafa hvað mest áhrif á hvort starfsfólk komi með skapandi lausnir til að efla fyrirtækið og auka þannig samkeppnishæfni þess. Nú er brýnna en áður að stjórnendur nýti og efli sköpunargleði starfsmanna, þar sem fjórða iðnbyltingin felur í sér miklar og hraðar breytingar.
Á fundinum mun Birna Dröfn fjalla um hvernig hægt er að efla sköpunargleði, ásamt því að fara yfir hlutverk stjórnandans við að efla og nýta sköpunargleði starfsmanna
Birna Dröfn Birgisdóttir er doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík þar sem hún rannsakar leiðir stjórnenda til að auka sköpunargleði starfsmanna. Hún er viðskiptafræðingur og stjórnendamarkþjálfi, hefur lært NLP (Neuro-linguistic programming) og mannauðsstjórnun og hún hefur meðal annars starfað við stjórnun og kennslu."