Á næsta viðburði hjá faghópi markþjálfunar mun Bragi Þór Svavarsson, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar vera með rafrænan fyrirlestur um nýtt þróunarverkefni sem Menntaskólinn Borgarfjarðar er að innleiða og starfa eftir.
Bragi hyggst fjalla um þann góða grunn sem starf Menntaskóla Borgarfjarðar byggir á og ekki síst um það þróunarverkefni sem nú er í gangi. Áhersla skólans hefur frá stofnun verið að líta til hvers nemanda sem einstaklings sem þarf mismunandi leiðir í námi til að efla sig sem best.
Bragi Þór Svavarsson
Bragi Þór lauk prófi frá kennaradeild Háskólans á Akureyri árið 1999 og meistaraprófi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2017. Hann tók við sem skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar í upphafi árs 2020 en þar áður starfaði hann hjá Íslandsbanka, frá árinu 2007, fyrst um fjögurra ára skeið sem þjónustustjóri en frá árinu 2011 sem breytingastjóri og deildarstjóri í tækniþjónustu bankans. Áður var Bragi Þór kennari við Grunnskólann á Varmalandi og síðan vefstjóri og umsjónarmaður kennslukerfis við Háskólann á Bifröst um sex ára skeið.
Menntaskóli Borgarfjarðar
Menntaskóli Borgarfjarðar er einkahlutafélag sem var formlega stofnað árið 2006. Frá upphafi undirbúnings Menntaskóla Borgarfjarðar var lögð á það áhersla að skólinn færi ótroðnar slóðir í starfsháttum og yrði í fremstu röð framhaldsskóla í uppeldi og kennslu. Meðal nýjunga í skólastarfi við stofnun skólans má nefna að stúdentsprófi luku nemendur að jafnaði á þremur árum, áhersla lögð á leiðsagnarmat í stað hefðbundinna prófa og nemendum skylt að nota fartölvu við nám sitt. Við skólann er nú rekið skólaþróunarverkefnið „Menntun fyrir störf framtíðar“ það er liður í því markmiði skólans að fara ótroðnar slóðir og vera í fararbroddi þegar kemur að nái og kennslu.