Háskólinn í Reykjavík, Menntavegi 1, 101 R , Háskólinn í Reykjavík, Menntavegur 1, 101 Reykjavík, Ísland
Sjálfbær þróun,
Málefnahópur Stjórnvísis um samfélagsábyrgð stendur fyrir morgunfundi um rannsóknir og samfélagsábyrgð.
Á fundinum verða kynntar þrjár nýlegar meistararitgerðir íslenskra nemenda við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) en þær fjalla allar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn hefur verið leiðandi í kennslu um samfélagsábyrgð og skipar nú 3 sæti yfir bestu viðskiptaháskóla heims samkvæmt mælingum Eduniversal.
Magnús Berg Magnússon mun fjalla um meistararitgerð sína á sviði samfélagslega ábyrgra fjárfestinga (Ethical Investing) en hann útskrifaðist frá viðskiptaháskólanum árið 2011. Rannsókn Magnúsar fjallar um áhættumælda frammistöðu slíkra sjóða í Bandaríkjunum, Evrópu og Skandinavíu borið saman við viðeigandi markaðsvísitölur á árunum 2006-2010.
Sigrún Ýr Árnadóttir fjallar um tískuiðnaðinn á Íslandi og samfélagsábyrgð en Sigrún útskrifaðist frá viðskiptaháskólanum árið 2011. Í ritgerðinni skoðar Sigrún þann þrýsting sem er á íslensk fyrirtæki í fataframleiðslu um að sýna ábyrgð í framleiðslunni og hvernig þau takast á við hana með mismunandi hætti.
Þorsteinn Kári Jónsson kynnir nýja meistararitgerð á sviði samfélagsábyrgðar en hann mun útskrifast frá viðskiptaháskólanum nú í haust. Rannsókn Þorsteins Kára fjallar um skoðanakerfi fræðimanna sem rannsaka samfélagsábyrgð. Flestir byrja rannsóknir á samfélagsábyrgð með það að markmiði að bæta siðferði en breyta viðhorfum sínum til viðfangsefnisins, eftir því sem þeir vinna lengur með hugtakið.
Fundarstjóri er Magnús Þór Gylfason yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar.
Málefnahópurinn var stofnaður fyrr á þessu ári og eru nú 58 félagar í hópnum. Formaður hópsins er Regína Ásvaldsdóttir framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Aðrir í stjórn eru Finnur Sveinsson sérfræðingur hjá Landsbankanum, Guðný Helga Herbertsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, Magnús Þór Gylfason yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar og Ketill Berg Magnússon viðskiptasiðfræðingur.