Svala Guðmundsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild segir frá niðurstöðum doktorsrannsóknar sinnar á menningarlegri aðlögun norræna starfsmanna í Bandaríkjunum. Svala kannaði sambandið milli félags- og menningarlegrar aðlögunar, menningargreindar, starfsánægju og fyrri reynslu. Niðurstöður rannsóknarinnar er meðal annars hægt að nýta við val og þjálfun starfsmanna til starfa erlendis.
Helga Rún Runólfsdóttir, ráðgjafi hjá Intellecta segir frá rannsókn sinni um atvinnuhæfni. Atvinnuhæfni skiptir máli fyrir einstaklinga sem vilja bæta og/eða viðhalda stöðu sinni og hæfni á vinnumarkaði, hvort sem þeir eru í vinnu og eða í leit að vinnu. Atvinnuhæfni snýst um færni, getu og vilja einstaklinga til að nýta hæfileika sína á þann hátt sem er líklegur til að skila árangri miðað við forsendur og þær aðstæður sem þeir búa við. Atvinnuhæfni veltur einnig á því hvaða hæfileika, viðhorf og þekkingu einstaklingur hefur og hvernig hann nýtir þessa þætti og kynnir þá fyrir vinnuveitanda.