Linkur á Teams viðburð - Í ljósi aðstæðna verður fundurinn einungis á TEAMS - ekki á áður auglýstum stað.
Markþjálfun er ástæðan fyrir því að Helga Kolbrún ákvað að fara í meistaranám í mannauðsstjórnun. Til að loka hringnum og gefa til baka, ákvað hún að beina sjónum að markþjálfun í lokaverkefni sínu.
Hún rannsakaði innanhússmarkþjálfun hjá Íslandspósti og í þessum fyrirlestri kynnir hún helstu niðurstöður um reynslu starfsmanna Íslandspósts af innanhússmarkþjálfun og mat þeirra á starfsumhverfi og líðan í starfi.
Rannsóknin er tilviksrannsókn (e. case study) framkvæmd með blandaðri aðferð, eigindlegum viðtölum og spurningakönnunum. Innanhúss markþjálfi var ráðinn til starfa hjá Íslandspósti í byrjun árs 2021 og var sett af stað markþjálfunarprógramm með um 30 starfsmönnum sem fengu markþjálfun í þrjá mánuði. Tekin voru djúpviðtöl við 12 starfsmenn sem voru í markþjálfun auk þess sem spurningakönnun var lögð tvisvar fyrir hópinn. Helga Kolbrún fer yfir stöðu þekkingar á markþjálfun og rannsóknum sem hafa verið framkvæmdar undanfarin ár og ber saman við eigin niðurstöður.
Fyrirlesari:
Helga Kolbrún Magnúsdóttir er með MS gráðu í mannauðsstjórnun en hún hóf nám í HÍ í janúar 2020 og skilaði lokaverkefninu haustið 2021. Bakgrunnur Helgu Kolbrúnar er innan tölvunarfræði og hafði hún starfað sem hugbúnaðarsérfræðingur í tæp 13 ár, eða til lok árs 2018, þegar hún ákvað að breyta til. Áður hafði hún lokið grunnnámi í markþjálfun hjá Evolvia árið 2019. „Í gegnum sjálfsvinnuna sem fylgir markþjálfunarnáminu uppgötvaði ég ástríðu mína fyrir að vinna með fólki sem er ástæðan fyrir því að ég ákvað að breyta til og læra mannauðsstjórnun,“ segir Helga Kolbrún.